fbpx
Laugardagur 08.maí 2021
Fréttir

„Óleystum morðmálum er aldrei lokað“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 6. júlí 2019 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrátt fyrir langar og ítarlegar rannsóknir lögreglunnar, þá eru þessi óhugnanlegu morðmál, sum sem ná allt aftur til áttunda áratugarins, enn að valda lögreglunni heilabrotum. Aðstandendur eru enn í sárum og vita ekki hver er ábyrgur fyrir morðinu á ástvinum þeirra og möguleiki er á að morðingjarnir gangi enn frjálsir sinna ferða.

MailOnline á vefsíðunni DailyMail fór yfir 15 óleyst morðmál í Bretlandi með það að markmiði að reyna að finna og koma lögum yfir morðingjana. Hér er fyrsti hluti af þremur.
Hér má lesa annan hluta og hér þriðja hluta.

Jill Dando var skotin til hana fyrir utan íbúð sína í Fulham í Vestur-London árið 1999.

Jill Dando

Eitt þekktasta óleysta málið er morðið á Jill Dando. Dando var kynnir þáttanna Crimewatch og var hún skotin árið 1999 fyrir utan íbúð sína í Fulham í Vestur-London. Hún var 37 ára.

Dando var skotin einu skoti í höfuðið. Nágrannar fundu hana sitjandi við útidyrahurð sína í blóðpolli. Á öryggismyndavélum sást bláum Range Rover keyrt í burtu á miklum hraða, en bílnum hafði verið lagt í götunni þar sem Dando bjó. Morðið var rannsakað af Scotland Yard og Barry George, atvinnulaus einfari, var handtekinn fyrir morðið í júlí árið 2001. Hann áfrýjaði og málið var endurupptekið og hann var sýknaður af kviðdómi í ágúst 2008.

Barry George, atvinnulaus einfari, var handtekinn fyrir morðiðí júlí 2001. Hann var seinna sýknaður.

Grunur hefur alltaf leikið á að Dando hafi verið myrt af leigumorðingja. Lögreglunni hefur ekki enn tekist að leysa málið, áratug eftir að George var látinn laus.
Í nýlegri yfirlýsingu frá lögreglunni segir: „Lögreglan hefur rannsakað til fulls aðstæðurnar í morðinu á Jill Dando. Tvö réttarhöld hafa farið fram og rannsóknin hefur verið yfirfarin innan lögreglunnar. Ef nýjar upplýsingar munu koma fram í málinu, þá verða þær rannsakaðar.“

Lamplugh, 25 ára, hvarf árið 1986, en hún yfirgaf skrifstofu sína til að hitta óþekktan viðskiptavin að nafni Herra Kipper. Lögreglan telur að Kipper sé John Cannan, dæmdur morðingi.

Suzy Lamplugh    

Suzy Lamplugh var 25 ára þegar hún hvarf. Hún yfirgaf skrifstofu sína árið 1986 til að sýna manni, sem gekk undir nafninu Herra Kipper, hús í Fulham í Vestur-London.

Daginn eftir hvarf hennar fannst Ford Fiesta-bifreið hennar tæpum tveimur kílómetrum frá. Lamplugh var lýst látin, líklega myrt, átta árum seinna, árið 1994. Síðast sást til hennar þar sem hún reifst við karlmann á Shurrold-vegi í Fulham, en síðan fór hún burtu í bifreið með manninum.

John Cannan, sem er með fyrri dóma fyrir kynferðisbrot og morð, var yfirheyrður nokkrum sinnum vegna málsins og er hann efstur á lista yfir grunaða í máli Lamplugh.

Þremur dögum áður en hún hvarf var Cannan látinn laus úr Wormwood Scrubs-fangelsinu, þar sem hann hafði afplánað sex ára fangelsi fyrir nauðgun. Árið 1989 hlaut hann lífstíðarfangelsi fyrir nauðgun og morð á hinni nýgiftu Shirley Banks í Bristol. Cannan komst aftur efst á lista yfir grunaða vegna máls Lamplugh í október á síðasta ári þegar rannsóknarlögregla reif upp verönd á fyrrum heimili Sheilu, móður hans, í Sutton Coldfield. Núverandi eigandi lýsti því yfir að fyrir 15 árum síðan hefði teymi á vegum lögreglunnar eytt sex mánuðum í að rannsaka verönd í hinum enda sama bakgarðs. Þrátt fyrir að leitað hafi verið í seinna skiptið í tvær vikur eftir sönnunargögnum fundust engin slík.

Cannan situr sem fyrr segir í fangelsi fyrir nauðgun og morð, en ekki er hægt að ákæra hann vegna morðsins á Lamplugh þar sem lík hennar hefur ekki fundist.

Tony Priest, kærasti Eve Stratford, fann hana skorna á háls að kvöldi 18. mars 1975.

Eve Stratford

Eve Stratford vann sem kanína í Playboy-klúbbi í Park Lane í London. Kvöldið 18. mars árið 1975 var henni nauðgað og hún myrt á heimili sínu. Kærasti hennar, Tony Priest, söngvari poppsveitarinnar Onyx, fann hana skorna á háls, en hún hafði verið stungin átta til tólf sinnum. Rannsóknarlögreglumenn telja að hún hafi þekkt morðingja sinn og því boðið honum inn á heimili hennar og Priest.

Að kvöldi til, sex mánuðum seinna, þann 2. september, var Lynne Weedon, 16 ára, nauðgað á hrottalegan hátt í húsasundi nálægt heimili sínu í Hounslow. Hún fannst næsta dag við nálæga lestarstöð, en lést stuttu seinna af sárum sínum.

Colin Sutton, fyrrverandi lögreglumaður, telur að þriðja konan, Lynda Farrow, sem var stungin til bana með hnífi á heimili sínu fjórum árum seinna, árið 1979, sé fórnarlamb sama morðingja.

Morðin á Stratford og Weedon voru tengd saman árið 2007 eftir að sama DNA fannst á báðum fórnarlömbum, en konurnar þekktu ekki hvor aðra og engin tengsl voru á milli þeirra.

Lögreglan hefur upplýst að það séu engar nýjar upplýsingar í máli Stratford.

Melanie Hall var 25 ára þegar hún hvarf kvöld eitt þegar hún var úti að skemmta sér. Líkamsleifar hennar fundust 13 árum seinna.

Melanie Hall

Melanie Hall, 25 ára, hvarf kvöldið 9. júní 1996 í Bath og fann verkamaður líkamsleifar hennar við hraðbraut 13 árum seinna.

Hall, sem starfaði sem ritari við Royal United-spítalann í Bath, Somerset, var að skemmta sér á Cadillacs-næturklúbbnum sem staðsettur er á Walcot-stræti, kvöldið sem hún hvarf. Síðast sást til hennar kl. 01.10 um nóttina þar sem hún sat á stól við dansgólfið.

Í mars árið 2014 óskaði lögreglan eftir upplýsingum um hvítan Golf Gti, sem var með tengingu við Pentwn-svæði í Cardiff, en lögreglan taldi bílinn hafa þýðingu í málinu.

45 ára gamall karlmaður, sem var ekki verið nafngreindur, var handtekinn í júní árið 2016 grunaður um morðið. Hafði hann mætt sjálfviljugur á lögreglustöð í Wiltshire og óskað eftir að tala við þann sem fór með rannsókn málsins. Lögreglan gaf hins vegar út yfirlýsingu í september sama ár að honum hefði verið sleppt án ákæru.

Handtaka hans kom í kjölfar yfirlýsingar frá foreldrum Hall þar sem þau buðu 50 þúsund pund af eigin fé sem verðlaun fyrir nýjar upplýsingar í máli hennar, 20 árum eftir hvarf hennar.

Sarah Davenport, leynilögreglumaður í lögreglunni í Avon og Somerset, gaf nýlega út yfirlýsingu og óskaði eftir nýjum upplýsingum í máli Hall.

„Óleystum morðmálum er aldrei lokað. Málin eru skoðuð reglulega til að athuga hvort ný tækni, eins og framfarir í DNA-tækni, geti leitt eitthvað nýtt í ljós. Við erum einstaklega þakklát almenningi fyrir alla hjálp frá þeim og við fáum oft símtöl með nýjum upplýsingum, jafnvel varðandi sum af okkar elstu óleystu málum.

Hvarfið og morðið á Melanie Hall er enn óleyst. Koma verður refsingu yfir morðingja hennar til að fjölskylda hennar geti öðlast sátt. Ég vil hvetja alla sem búa yfir upplýsingum um hver drap Melanie, eða hvers vegna hún var drepin, til að stíga fram núna. Upplýsingar sem virðast lítilvægar geta verið lykillinn að lausn málsins.“

Debbie Linsley 26 ára fannst látin 23. mars 1988 í lest við komu hennar á Viktoríustöðina í London.

Debbie Linsley

Debbie Linsley, 26 ára, fannst látin 23. mars 1988 í lest sem kom frá Orpington í Bromley, London, þegar lestin stöðvaði á Viktoríustöðinni.

Linsley, sem starfaði sem hótelstjóri í Edinborg, var að heimsækja foreldra sína og Gordon, bróður sinn, sem hugðist ganga í hjónaband skömmu síðar.

Hún steig um borð í lestina í Petts Wood í Suðaustur-London og sat í gamaldags sex manna vagni, en dyr voru á báðum hliðum vagnsins.

Hermt er að frönsk au-pair stúlka hafi heyrt öskur eftir að lestin fór frá Brixton í Suður-London. Lestin kom á lestarpall 2 og klukkan 14.50 fundu starfsmenn lík Linsley um borð. Talið er að hún hafi verið myrt með 12–18 cm hníf sem lögreglan hefur enn ekki fundið. Yfir 1.200 yfirlýsingar vitna hafa verið teknar og fleiri en 650 einstaklingar útilokaðir sem mögulegir sakborningar á þeim tíma sem rannsóknin hefur staðið yfir.

Linsley barðist við morðingja sinn og fannst DNA hans í blóðslóð á vettvangi. Engin samsvörun fannst í alþjóðlegum DNA-gagnabanka og rannsóknarlögreglan notaði nýja aðferð í mars á þessu ári til að reyna að finna og bera kennsl á morðingja hennar. Notuðu þeir svokallaða fjölskylduleit til að reyna að finna einhvern sem gæti verið skyldur gerandanum. Hvöttu þeir einnig almenning til að hugsa til baka til dagsins sem Linsley var myrt til að reyna að sjá hvort þeir myndu eftir einhverju.

Þrátt fyrir allt hefur lögreglunni þó ekki tekist að finna morðingja hennar og engar nýjar upplýsingar hafa komið fram tengdar morðinu.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Fimm smit og eitt utan sóttkvíar

Fimm smit og eitt utan sóttkvíar
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Greiningargeta á kórónuveirusýnum nálgast þolmörk

Greiningargeta á kórónuveirusýnum nálgast þolmörk
Fréttir
Í gær

Sölvi Tryggvason kominn á geðdeild

Sölvi Tryggvason kominn á geðdeild
Fréttir
Í gær

Vantar betri búnað til að takast á við gróðurelda og þörf á aukinni menntun slökkviliðsmanna

Vantar betri búnað til að takast á við gróðurelda og þörf á aukinni menntun slökkviliðsmanna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nýir eigendur Nóa Siríus boða meira vöruúrval – Taktu þátt í kosningunni!

Nýir eigendur Nóa Siríus boða meira vöruúrval – Taktu þátt í kosningunni!
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tveir blaðamenn af Morgunblaðinu segja af sér

Tveir blaðamenn af Morgunblaðinu segja af sér