fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fjórðu Systkinatónleikarnir – frumflutningur á verki Báru Gísla við texta Kött Grá Pjé

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 20. ágúst 2018 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fimmtudaginn 23. ágúst næstkomandi munu Guðfinnur og Kristín Sveinsbörn syngja saman á sínum fjórðu Systkinatónleikum. Með þeim leikur Bjarni Frímann Bjarnason á píanó. 

Myndast hefur sú hefð að á hverju ári fá systkinin eitt ungt tónskáld til liðs við sig til að semja dúett fyrir tækifærið. Í ár er það Bára Gísladóttir sem semur verkið Átta lög við ljóð Kött Grá Pjé (og nokkur hlægilega stutt millispil) og verður verkið flutt á tónleikunum af þeim systkinum og strengjakvartett. Bára lauk Meistaraprófi í tónsmíðum við Konunglegu Dönsku Tónlistarakademíuna og hefur gefið út þrjár plötur. Verk hennar hafa verið flutt af sveitum á borð við Sinfóníuhljómsveit Danmerkur og Sinfóníuhljómsveit Helsingjaborgar. Bára hlaut í ár hin mjög virtu Léonie Sonning verðlaun fyrir tónsmíðar sínar.

Bára er fyrsta tónskáldið sem semur klassískt tónverk við texta Kött Grá Pjés, sem hefur eins og landsmönnum er kunnugt gefið af sér gott orðspor sem ljóðskáld og rappari. Blanda núklassískrar tónlistar og texta Kötts kemur vægast sagt skemmtilega á óvart.

Dagskrá tónleikana mun að öðru leyti samanstanda af íslenskum dægurlaga- og söngperlum, vel völdum þýskum og sænskum ljóðum, óperuaríum og dúettum.

Tónleikarnir verða haldnir í Fella- og Hólakirkju þann 23. ágúst næstkomandi kl. 20.

Viðburður á Facebook. 

Kristín Sveinsdóttir hóf að syngja árið 1997 með Krúttakór Langholtskirkju. Síðan þá söng hún með öllum kórum kirkjunnar og kom þar oft á tíðum fram sem einsöngvari undir stjórn Jóns Stefánssonar. Frá unglingsaldri sótti Kristín einsöngstíma til Hörpu Harðardóttur og lauk svo burtfararprófi undir hennar leiðsögn haustið 2013 frá Söngskólanum í Reykjavík. 2013-2014 sótti Kristín einnig söngtíma til Sigríðar Ellu Magnúsdóttur. Haustið 2014 hóf Kristín Bacherlornám í klassískum söng við Tónlistarháskólann í Vínarborg undir leiðsögn Prof. Margit Klaushofer, sem hún lýkur um þessar mundir. Kristín tók sér ársleyfi frá skólanum í Vín til að syngja við óperustúdíóið Accademia del Teatro alla Scala í Mílanó. Þar kom hún fram sem einsöngvari á ýmsum tónleikum og óperuuppfærslum á Scala, m.a. sem  2. dama í Töfraflautunni eftir Mozart. Í haust hefur Kristín mastersnám við Tónlistarháskólann í Vínarborg. Kristín söng bakraddir inn á Biophilia plötu Bjarkar Guðmundsdóttur og tók svo þátt í þriggja ára heims- og tónleikareisu sem fylgdi á eftir plötunni. Kristín tók einnig þátt í að stofna sönghópinn Lyrika og starfaði með honum þar til leiðin lá til Vínar.
Guðfinnur Sveinsson hóf að syngja árið 2009 með Kór Langholtskirkju, undir stjórn Jóns Stefánssonar og hefur einnig sungið með Óperukórnum í Reykjavík, undir stjórn Garðars Cortes. Hann hóf söngnám við Söngskólann í Reykjavík haustið 2013 en lauk vorið 2016 framhaldsprófi við skólann undir leiðsögn Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og píanóleikaranna Kristins Arnar Kristinssonar og Hrannar Þráinsdóttur. Haustið 2015 kom hann fram á tónleikum Listafélags Langholtskirkju: Ungir einsöngvarar. Guðfinnur stundaði einkanám Kaupmannahöfn haustið 2016, hefur sótt masterclassa í Danmörku og Austurríki. Guðfinnur stundaði nám við tónlistarháskólann Musik und Kunst í Vínarborg skólaárið 2017-2018 undir leiðsögn Prof. Michail Lanskoi. Guðfinnur hefur stundað píanónám við Tónskóla Sigursveins undir leiðsögn Júlíönu Rúnar Indriðadóttur sem og í einkatímum hjá Mörtu Liebana, kennara við CvA í Amsterdam. Guðfinnur hefur einnig leikið á gítar og hljómborð í hljómsveitinni For a Minor Reflection.
Bára Gísladóttir er tónskáld og kontrabassaleikari, búsett í Kaupmannahöfn þar sem hún leggur stund á Sólistanám (e. advanced post graduate diploma) í tónsmíðum við Konunglegu Dönsku Tónlistarakademíuna undir leiðsögn Niels Rosing-Schow og Jeppe Just Christensen en hún lauk einnig Meistaraprófi við sömu stofnun. Þar áður nam hún tónsmíðar á framhaldsstigi undir handleiðslu Gabriele Manca við Verdi-akademíuna í Mílanó og lauk Bakkalárprófi við Listaháskóla Íslands hjá Hróðmari I. Sigurbjörnssyni og Þuríði Jónsdóttur.
Tónlist Báru hefur verið leikin víða af sveitum á borð við Duo Harpverk, Elektru, Ensemble Adapter, Ensemble InterContemporain, Esbjerg Ensemble, hr-Sinfonieorchester, loadbang, Marco Fusi, Mimitabu, NJYD, Riot Ensemble, Sinfóníuhljómsveit Danmerkur, Sinfóníuhljómsveit Helsingjaborgar, Strengjakvartettinn Sigga og TAK Ensemble. Þá hafa verk hennar verið valin á hátíðir á borð við Festival Mixtur, KLANG Festival, ManiFeste, Myrka músíkdaga og Sonic Festival, og nú síðast Darmstädter Ferienkurse, þar sem hljómsveitarverk hennar VAPE opnaði hátíðina í ár. Bára hefur verið fulltrúi Íslands á Alþjóða tónskáldaþinginu, Norrænum músíkdögum og Ung Nordisk Musik. Árið 2018 hlaut Bára Léonie Sonning-hæfileikaverðlaunin fyrir tónsmíðar sínar.
Bára hefur gefið út þrjár plötur; Different Rooftops árið 2015, með verkum fyrir rödd, tenórsaxófón, kontrabassa og rafhljóð, B R I M S L Ó Ð árið 2016, verk í þremur hlutum fyrir kontrabassa og rafhljóð, og Mass for some árið 2017, fyrir rödd, kontrabassa og rafhljóð. Um þessar mundir vinnur hún að gerð nýrrar plötu með Skúla Sverrissyni.
Bára leikur reglulega eigin tónlist en auk þess leikur hún með strengjasveitinni SKARK og kammersveitinni Elju. Þá hefur hún einnig komið fram með S.L.Á.T.U.R. og Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Bjarni Frímann stundaði fiðlunám hjá Lilju Hjaltadóttur og Guðnýju Guðmundsdóttur. Hann lauk próf í lágfiðluleik frá Listaháskóla Íslands. Árið 2009 bar hann sigur úr býtum í einleikarakeppni Listaháskóla Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Íslands og lék í framhaldinu lágfiðlukonsert Bartóks með sveitinni á tónleikum. Að því loknu stundaði hann nám í hljómsveitarstjórn undir handleiðslu Fred Buttkewitz við Tónlistarháskólann Hanns Eisler í Berlín.
Bjarni hefur komið fram víðsvegar um Evrópu, bæði sem strengja- og hljómborðsleikari. Hann hefur stjórnað mörgum af fremstu hljómsveitum á Íslandi – Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, CAPUT og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins. Þá hefur hann samið tónlist fyrir leikhús og kvikmyndir bæði hérlendis og erlendis. Bjarni Frímann hefur seinni ár komið víða fram sem píanóleikari með söngvurum og sem kammertónlistarmaður m.a. í Berlínarfílharmóníunni, Konzerthaus í Vín.
Árið 2012 vann hann fyrstu verðlaun í Hanns Eisler-keppninni í Berlín fyrir frumflutning á píanótilbrigðum eftir Viktor Orra Árnason. Hann var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2016. Sama ár stjórnaði hann flutning á óperunni UR_ eftir Önnu Þorvaldsdóttir við óperuna í Osló, í Chur og Basel og á Listahátíð í Reykjavík. Árið 2016 -2017 stjórnaði Bjarni Frímann hljómsveitartónleikum með Björk Guðmundsdóttur í Mexíkóborg, Fílharmóníunni í LA og í Hörpu. Þá stjórnaði hann uppseningu Íslensku Óperunnar á Tosca á síðasta ári.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Boltastrákurinn trúði ekki eigin augum í gær

Boltastrákurinn trúði ekki eigin augum í gær
Bleikt
Fyrir 6 klukkutímum

Þess vegna er táfýla af sumum og svona er hægt að losna við hana

Þess vegna er táfýla af sumum og svona er hægt að losna við hana
Matur
Fyrir 7 klukkutímum

Heilhveitivöfflur með karamellueplum – Þessa uppskrift þarf að geyma

Heilhveitivöfflur með karamellueplum – Þessa uppskrift þarf að geyma
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Kolbrún segir að ósvífnin sé algjör: „Almenningur er fullkomlega fær um að taka málin í eigin hendur“

Kolbrún segir að ósvífnin sé algjör: „Almenningur er fullkomlega fær um að taka málin í eigin hendur“