fbpx
Föstudagur 26.apríl 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

„Eins smells undur“ í íslenskri tónlistarmenningu

Tómas Valgeirsson
Sunnudaginn 12. ágúst 2018 15:00

Herbert Guðmundsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hugtakið „one-hit wonder“ er allnokkrum kunnugt. Þegar farið er í gegnum sögu íslenskrar dægurmenningar og tónlistar er vissulega ekki pláss fyrir alla til þess að slá í gegn, hér eða í hinum stærri heimi.

Sumir listamenn fá vart að líta dagsins ljós, þrátt fyrir taumlausar tilraunir, á meðan aðrir rétt komast í snertingu við tinda frægðarinnar, en ná svo ekki sömu hæðum í kjölfarið. En það er alltaf þess virði að reyna, og betra er að ná lágmarksárangri en engum.

Nú skulum við slá á létta strengi og líta yfir ýmsar hljómsveitir og einstaklinga sem flokka mætti sem „eins smells undur“ Íslands eða skammlífar stjörnur. Upptalningin er unnin út frá fjölda álitsgjafa.

 

Skítugir mellupeningar

Hljómsveitin Dr. Mister & Mr. Handsome var þungamiðja mikillar umræðu árið 2006 og seldist breiðskífa hennar, Dirty Slutty Hooker Money, eins og heitar lummur á þeim tíma. Helstu slagararnir á plötunni voru lögin Kokaloca og Is it Love? og leit út fyrir að fjögurra manna sveitin myndi leggja ungdóm Íslands undir sig um ókomna tíð. Því miður varð það ekki að veruleika en slagararnir lifa enn góðu lífi. Unnendur hljómsveitarinnar þráðu svo sannarlega meira á þessum tíma, en vissulega er betra að hætta á toppnum en teygja góðan lopa.

 

Kemst ekki frá

Herbert Guðmundsson er einn sinnar tegundar hvað varðar sérsniðinn töffarabrag. Söngvarinn hefur aldeilis ekki haldið sig frá sviðsljósinu á liðnum árum og kom sterkur inn á níunda áratugnum með sítt að aftan. Á meðal hans þekktari laga má nefna Time, Hollywood og Svaraðu en komast þau hvergi nærri slagaranum Can’t Walk Away hvað vinsældir áhrærir. Segja má að afgangur ferilsins hafi horfið í skugga lagsins, þrátt fyrir að söngvarinn hafi verið í góðu stuði í gegnum árin. Hann kemst ekki burt – eins og lagið segir – og íslensk tónlistarmenning hefur ekki orðið verri fyrir vikið.

 

Jeff, hver?
Margur maðurinn kannast við stuðlagið Barfly með Jeff Who? enda fékk það spilun víða og kom ófáum í réttan gír. Hljómsveitin gaf út tvær plötur árið 2005 og síðan 2008 áður en meðlimir og sýnileiki bandsins fór að fjara út. En mikið óskaplega þykir Barfly ennþá grípandi í dag og þegar lagið er sett á fóninn, þá hefst annaðhvort ballið fyrir alvöru, eða því lýkur með látum.

Trompaði Kryddpíurnar á breska vinsældalistanum

Söngkonan Alda Björk Ólafsdóttir stökk beint í 7. sæti breska vinsældalistans með lagið Real Good Time árið 1998. Þá skákaði hún meðal annars Kryddpíunum góðu sem fóru þá í 8. sætið með Viva Forever, sem er glæsilegur árangur, þótt það verði reyndar að taka inn í myndina að Spice Girls hafi verið að sundrast á þessu tímabili og einni manneskju færri. Engu að síður tókst Öldu að láta stóran draum rætast, að slá í gegn úti í hinum stóra heimi. Það sem tók við af velgengni Real Good Time er vart þess virði að það rati í sögubækurnar, en öll merki benda til þess að söngkonan hafi notið velgengninnar með stæl þegar aldan fór að rísa. Góðir tímar.

Fór upp og sneri sér annað
Söngvarinn Steinar Baldursson bræddi mörg unglingahjörtu með ýmsum lögum og sló sérstaklega í gegn með smáskífunni Up. Drengurinn á trúlega nóg eftir en lítið virðist hafa borið á honum undanfarin ár. Ef til vill er hann að undirbúa stóra „kombakkið.“ Við bíðum spennt. Þegar öllu á botninn er hvolft er aðeins hægt að fara upp.

Halelúja

Söngkonan Móeiður Júníusdóttir, gjarnan kölluð Móa, steig af fullum krafti í sviðsljósið snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Árið 1993 gaf hún út plötuna Lögin við vinnuna sem fékk góðar undirtektir og síðar gekk hún til liðs við hljómsveitina Bong og lagði svo í sólóferil með plötunni Móa – Universal. Þegar sólóferillinn fór að dala stöðvaði það ekki þessa hæfileikaríku söngkonu í að finna sína köllun í lífinu. Árið 2004 hóf hún guðfræðinám, með það að markmiði að vera lagvísasti prestur landsins.

Engar ranghugmyndir

Hljómsveitin Ampop vakti mikla athygli frá stofnun hennar árið 1998 og hlaut sérstaklega góðar viðtökur, en hátindinum var náð árið 2005 með gríðarlegum vinsældum plötunnar My Delusions. Sveitin fór á tímabili í gegnum allnokkrar breytingar, bæði hvað mannauð og tónlistarlegar áherslur varðar. Skömmu eftir vinsældir My Delusions fór söngvari hljómsveitarinnar að sýna getu sína með bandinu Blindfold. Frá og með 2007 lagði Ampop upp laupana og lifir þessa dagana sem dúndrandi dæmi um leiftur liðins tíma.

Kinky á toppnum

Tennurnar hans afa var hressilegt samstarf þriggja félaga en voru þeir þó aldrei nema tveir í senn. Bandið vakti athygli á sínum tíma með tveimur lögum, La Bjarna og Kinky. Hið síðarnefnda var notað í hinni stórvinsælu kvikmynd Veggfóður og fékk lagið mikla spilun í útvarpinu snemma á tíunda áratugnum. Sveitin gaf síðar út snældu sem er að öllum líkindum fyrsta „rappplatan“ hér á landi en sú bar heitið Dömur mínar og herrar, látið eins og heima hjá ykkur, og er ófáanleg í dag.

Eintómt bull eða urrandi snilld?

Hið ljúfsára popplag Lalíf, eftir Kjartan Ólafsson, í flutningi hljómsveitarinnar Smartband, er með þeim áhugaverðari í okkar dægurmenningu. Viðlag lagsins er einkar grípandi en það er textinn, ef svo má kalla, sem gerir það jafn áhugavert og raun ber vitni. Í gegnum árin hafa skotið upp kollinum margar kenningar og sögur af því hvað textinn þýðir og hvernig hann sé skrifaður og sunginn – hvort hann er sunginn afturábak eða er einfaldlega hreint bull. Kjartan fylgdi þessari gersemi ekki eftir með neinu bitastæðu síðan, en stundum kemur lífið á óvart.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 klukkutímum

Draugur ásækir herbergi Sunnevu: „Ég er ekki að djóka sko. Alltaf þegar hann kemur er ískalt“

Draugur ásækir herbergi Sunnevu: „Ég er ekki að djóka sko. Alltaf þegar hann kemur er ískalt“
Eyjan
Fyrir 2 klukkutímum

Frosti um frétt Hringbrautar: „Þessi kenning er svo fjarstæðukennd að hún er eiginlega bara fyndin – Hvað gengur mönnum til?“

Frosti um frétt Hringbrautar: „Þessi kenning er svo fjarstæðukennd að hún er eiginlega bara fyndin – Hvað gengur mönnum til?“
Pressan
Fyrir 3 klukkutímum

Raðmorðingi handtekinn á Kýpur – Fundu nokkur konulík

Raðmorðingi handtekinn á Kýpur – Fundu nokkur konulík
Kynning
Fyrir 3 klukkutímum

Golfklúbbur Hellu: Hin fegursta fjallasýn

Golfklúbbur Hellu: Hin fegursta fjallasýn
Pressan
Fyrir 5 klukkutímum

Verkfall hjá flugmönnum SAS – Hefur áhrif á 72.000 farþega

Verkfall hjá flugmönnum SAS – Hefur áhrif á 72.000 farþega
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Þetta eru þær 10 þjóðir sem eiga mest af gulli

Þetta eru þær 10 þjóðir sem eiga mest af gulli