fbpx
Þriðjudagur 20.ágúst 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Aldrei úr augnsýn

Eftirlit með einstaklingum verður stöðugt umfangsmeira og margþættara – Louise Wolthers ræðir um ljósmyndun og eftirlitssamfélagið

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 19. janúar 2018 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Manneskjur búa við margfalt umfangsmeira eftirlit í dag en nokkur tímann í sögunni – við erum nánast alltaf sýnileg og aldrei algjörlega úr augnsýn. Stjórnvöld setja upp eftirlitsmyndavélar, stórfyrirtæki safna saman öllum okkar stafrænu fótsporum og teikna upp nákvæma mynd af hegðun okkar, þar að auki tökum við sjálfviljug þátt í eftirlitinu með því að taka óteljandi myndir og opinbera smæstu smáatriði hversdagslífs okkar á samfélagsmiðlum. Eftirlitið er ekki lengur einfalt fyrirbæri sem er á ábyrgð eins aðila heldur flæðir um allt mannfélagið, yfir og á milli okkar – „fljótandi eftirlit“ hefur þessi nýi sýnileiki stundum verið kallaður.

Hélt fyrirlestur um áhorf, eftirlit, ljósmyndir og listir á Ljósmyndahátíð Íslands í vikunni.
Louise Wolthers Hélt fyrirlestur um áhorf, eftirlit, ljósmyndir og listir á Ljósmyndahátíð Íslands í vikunni.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ljósmyndun og sjónlistir eru það svið menningarinnar sem hefur tekið hvað ítarlegast á við spurningar um sýnileika og sjónarhorn, valdið sem felst í því að sjá og valdaleysinu sem hinn sýnilegi getur upplifað. Það er einmitt þess vegna sem sú þekking og tilraunastarfsemi sem fer fram á þessum sviðum ætti að geta hjálpað okkur að átta okkur á eftirlitinu, myndgert þessa alsjá samtímans, gagnrýnt hana og ögrað. Þetta segir danski listfræðingurinn og yfirmaður rannsóknasviðs Hasselblad-stofnunarinnar í Gautaborg, Louise Wolthers. Louise fjallaði um eftirlit og ljósmyndun í opnunarfyrirlestri Ljósmyndahátíðar Íslands í Þjóðminjasafninu á fimmtudag, en hún hefur rannsakað efnið í sýningunni ÁHORF! Eftirlit, list og ljósmyndun sem var sýnd í Hasselblad Center í Gautaborg, í Kunsthall Aarhus og C/O í Berlín, sem hún fylgdi svo eftir með samnefndri bók.

Blaðamaður DV ræddi við Louise skömmu áður en hún kom til landsins í gegnum vefmyndavél og spjallrás sem er að öllum líkindum auðhleranleg af óskammfeilnum hökkurum eða upplýsingafíknum stjórnvöldum.

Ytra og innra eftirlit

Við hugsum oft um eftirlitssamfélagið sem sérstaklega nútímalegt fyrirbæri, en er þessi tilhneiging valdamikilla aðila til að fylgjast með undirsátum sínum ný af nálinni?

„Nei, eftirlit er alls ekki nýtt fyrirbæri. Upphafspunkturinn hjá mér, eins og mörgum öðrum sem hafa rannsakað þetta, er fræg grein franska heimspekingsins Michel Foucault, en hann setur fram þá kenningu að eftirlit samtímans eigi sér fyrirmynd í sérstöku fangelsiskerfi sem Jeremy Bentham hannaði á 18. öld, alsjánni (e. Panopticon),“ segir Louise og vísar til fangelsishugmynda sem fólust í því að hafa varðturn í miðju hringlaga fangelsis. Fangavörðurinn í turninum gæti alltaf séð inn í hvern klefa en ómögulegt væri fyrir fanga að sjá úr klefanum inn í turninn.

„Þetta fangelsi var hannað þannig að fangarnir vissu aldrei almennilega hvort fangaverðirnir væru að fylgjast með þeim en arkitektúr fangelsisins gerði það að verkum að það var alltaf möguleiki. Fangarnir bjuggu því stöðugt við þá tilfinningu að það væri fylgst með þeim,“ segir Louise. Hugmynd Foucault var að þessi stöðugi sýnileiki í fangelsinu, og nútímasamfélagi almennt, gerði það að verkum að hver einstaklingur sæi um það að ritskoða sjálfan sig og móta hegðun sína á viðeigandi hátt. Yfirvaldið þurfi smám saman í minna mæli að sjá um að refsa fólki – það sæi bara um það sjálft.

Fangelsi með stöðugu eftirliti sem gerir það að verkum að fangarnir fara að aga sig sjálfir. Eru sömu lögmál að verki í eftirlitssamfélagi samtímans?
Alsjáin Fangelsi með stöðugu eftirliti sem gerir það að verkum að fangarnir fara að aga sig sjálfir. Eru sömu lögmál að verki í eftirlitssamfélagi samtímans?

Mynd: Getty

Öryggi og aðgengi

„En auðvitað nær hugmyndin um algjört eftirlit enn lengra aftur,“ bætir Louise við. „Vangaveltur um eftirliti ná að minnsta kosti aftur til hugmyndarinnar um Guð, hið alsjáandi auga sem fylgist alltaf með þér og sér allar syndir þínar. Það er áhugavert að eftirlitið hefur alltaf haft þessar tvær hliðar. Það er annars vegar þessi ógnun, athugun, eftirlit sem sér til þess að þér verði refsað ef þú gerir eitthvað rangt. Á sama tíma er þetta líka hugmyndin um að einhver sjái um þig, fylgist með þér svo hann geti passað upp á þig.“

Sögulega hefur þetta verið helsta röksemdin fyrir réttmæti eftirlits, aðeins þannig geti ríkið tryggt öryggi borgara sinna sem best. Þetta er svo samtengt þróun á undanförnum áratugum þar sem ýmiss konar áhætta og leiðir til að útrýma áhættuþáttum er eitt helsta umhugsunarefni samfélagsins – það sem félagsfræðingar hafa kallað áhættusamfélagið (e. risk society). Í óorðuðum samfélagslegum sáttmála samþykkir borgari að gangast undir eftirlit ríkisins gegn því að yfirvöld tryggi öryggi hans.

Á undanförnum árum hefur myndin þó orðið talsvert flóknari þar sem tilgangur og röksemdir eftirlits tæknifyrirtækja er allt annar en ríkisins. Neytandi samþykkir eftirlitið í skiptum fyrir auðvelt aðgengi að ýmiss konar tækjum og stafrænum tólum, en tilgangur fyrirtækjanna er fyrst og fremst að reikna út langanir neytanda og selja viðeigandi auglýsendum aðgang að viðkomandi.

Mishka Henner notast við myndir teknar fyrir kortlagningarverkefni Google þar sem kynlífsstarfsfólk sést við vegkanta í Suður-Evrópu.
Berskjaldaðar Mishka Henner notast við myndir teknar fyrir kortlagningarverkefni Google þar sem kynlífsstarfsfólk sést við vegkanta í Suður-Evrópu.

Mynd: Mishka Henner 2011

Ljósmyndin í þágu eftirlitsins

Ég geri ráð fyrir að ljósmyndatæknin hafi mjög snemma verið nýtt í þágu eftirlits yfirvalda. Hvað er hægt að segja um áhrif ljósmyndarinnar á þróun eftirlits?

„Já, ljósmyndamiðillinn hefur alveg frá upphafi verið samtvinnaður eftirliti yfirvalda. Hann hefur til dæmis verið notaður sem hluti af skrifræðinu, sem miðill til að skrá stóra hópa fólks í skjalasöfn. Klassískt dæmi er til dæmis hvernig franski afbrotafræðingurinn Alphons Bertillion fann upp fangamyndina (e. mug shot) í kringum 1880, það er skýrt dæmi um hvernig ljósmyndin var notuð til eftirlits og söfnun upplýsinga. Frá upphafi hefur eftirlit helst beinst að ýmiss konar óæskilegum aðilum á borð við glæpamenn. En á sama tíma hefur hún alltaf verið notuð til að skrásetja ýmsa aðra minnihlutahópa – til dæmis í mannfræðilegum tilgangi. Þetta hefur verið leið til að safna saman og flokka þá sem gætu kallast „hinn“.“

Er framþróun í myndavélartækninni þá ekki líka drifkraftur í auknu eftirliti, hvaða áhrif hefur það til dæmis að stafræna myndavélin kemur fram?

„Jú, hún hefur haft áhrif að mörgu leyti. Til dæmis hvað varðar hvernig stór tæknifyrirtæki geta fylgst með okkur – og svo hvernig það getur verið fært áfram til bandarískra eftirlitsyfirvalda á borð við NSA. En stafræna myndavélin hefur líka haft áhrif á það hvernig við erum farin að stunda hversdagslegra eftirlit með jafningjum okkar, þetta er það sem hefur verið kallað „lárétt eftirlit“ milli fólks. Með þessu lárétta eftirliti verður það mjög óskýrt í hugum fólks hvort eftirlit sé af hinu góða eða slæma. Í dag hrærumst við í flóknu samtvinnuðu neti margs konar ólíks eftirlits sem stafræn ljósmyndun, aðgengileiki, auðveld dreifing og geymsla stafrænna gagna hefur haft afgerandi áhrif á.“

Á áttunda áratug 19. aldar voru teknar portrettmyndir af fangelsuðum byltingarsinnum sem höfðu tekið þátt í uppreisninni sem nefnd hefur verið Parísarkommúnan. Nokkrum árum síðar var þróað í París skrásetningarkerfi og ljósmyndatækni sem enn er notuð í dag, hin alræmda fangamynd.
Fyrstu fangamyndirnar Á áttunda áratug 19. aldar voru teknar portrettmyndir af fangelsuðum byltingarsinnum sem höfðu tekið þátt í uppreisninni sem nefnd hefur verið Parísarkommúnan. Nokkrum árum síðar var þróað í París skrásetningarkerfi og ljósmyndatækni sem enn er notuð í dag, hin alræmda fangamynd.

Gagnrýnisleysi á Norðurlöndum

Louise segir að það sé ekki síst mikilvægt að ræða eðli og afleiðingar eftirlitsins á Norðurlöndum enda hafa rannsóknir sýnt að þar sé fólk mun jákvæðara en annars staðar í garð hvers konar eftirlits. Hún bendir á að vandamálið við eftirlit stjórnvalda sé ekki bara í framtíðinni eins og margir telji, í þeirri pólitísku óvissu um hvort andlýðræðislegir stjórnmálamenn geti einn daginn náð stjórnartaumunum og nýtt eftirlitstæknina á ómannúðlegan hátt gagnvart heiðvirðu fólki, því jafnvel þegar lýðræðisleg stjórnvöld séu við lýði mismuni tæknin og komi oftar en ekki illa niður á varnarlausustu aðilum samfélagsins.

„Á Norðurlöndum er viðkvæðið gagnvart eftirlitinu yfirleitt það að ef þú hefur ekki gert neitt rangt þá hafir þú ekkert að fela. Fólk aðhyllist hálfgerða útópíu um algjöran sýnileika – en það er ekkert annað en útópía því það er aðeins sá sem býr við mikil forréttindi sem myndi óska eftir slíku. Sýnileiki getur aukið hættuna fyrir þann sem þarf á einhvern hátt að óttast að vera opinberaður eða gerður sýnilegur, hvort sem hann er óskráður innflytjandi eða starfsmaður í kynlífsiðnaði,“ segir Louise.

Eitt verkið í sýningunni ÁHORF! er til að mynda byggt á ljósmyndum sem teknar hafa verið af kortlagningarbíl Google og sýna kynlífsverkakonur þar sem þær bíða eftir kúnnum við vegi í Suður-Evrópu. Karlmenn hafa svo nýtt myndirnar til að staðsetja konurnar og umhverfið, en það gæti verið dæmi um hvernig algjör sýnileiki getur aukið líkamlega hættu fyrir hinn valdalitla.

En af hverju eru Norðurlandabúar svona jákvæðir í garð eftirlitsins?

„Það þarf eflaust að rannsaka það betur, en það hefur meðal annars verið bent á að þetta hafi með velferðarsamfélagið að gera. Við erum vön því að njóta félagslegra ávaxta velferðarsamfélagsins, ávinningurinn næst að hluta til með félagslegu eftirlit og aðhaldi. Það sem skiptir líka máli er að við höfum ekki upplifað alræðistilburði af hálfu ríkisins í sama mæli og aðrir hlutar Evrópu og heimsins. Að lokum eru þetta mjög einsleit samfélög og fólk veltir lítið fyrir sér stöðu þeirra sem koma nýir inn í samfélagið og gætu verið sérstaklega berskjaldaðir fyrir sýnileikanum. Þetta virðist vera frekar blindur punktur hjá mörgum Norðurlandabúum og vantar samstöðu með þeim sem minna mega sín og þyrftu kannski öryggi gagnvart eftirlitinu.“

Danska listakonan Tina Enghoff hefur skrásett tilveru óskráðra og heimilslausra innflytjenda, sem forðast hvað best þeir geta eftirlit yfirvalda í Danmörku. Þessi mynd er af blóði eins innflytjandans sem hefur þurft að fá læknisaðstoð frá Rauða krossinum.
Skrásetning hinna ósýnilegu Danska listakonan Tina Enghoff hefur skrásett tilveru óskráðra og heimilslausra innflytjenda, sem forðast hvað best þeir geta eftirlit yfirvalda í Danmörku. Þessi mynd er af blóði eins innflytjandans sem hefur þurft að fá læknisaðstoð frá Rauða krossinum.

Mynd: Tina Enghoff

Trufla stigveldi áhorfsins

Eftirlit nútímans snýst ekki síður um söfnun og greiningu mikils magns upplýsinga um hegðun einstaklings en sjónrænt eftirlit með myndavélum. Hvað getur svið ljósmyndunar komið með inn í umræðuna um eftirlit?

„Ég held að myndlist og ljósmyndun hafi ýmsilegt upp á að bjóða. Það er löng hefð fyrir gagnrýnni heimildaljósmyndun, löng hefð fyrir því að vera meðvitaður um augnaráð, um sjónarhorn og það hvernig vald getur birst í áhorfi. Velta fyrir sér hvaða áhrif það hefur að sumir geti horft á og skrásett tilveru annarra. Margir ljósmyndarar og listamenn hafa velt fyrir sér hvernig hægt er að breyta eða brjóta upp þetta ójafnvægi, hvernig er hægt að trufla stigveldi áhorfsins. Þessar aðferðir geta verið mjög gagnlegar og viðeigandi enn þann dag í dag, jafnvel þó að mikið af eftirlitinu fari bara fram í gegnum hreinar tölulegar upplýsingar. Listamenn og ljósmyndarar geta auðvitað líka sett hluti fram á sjónrænan hátt sem við erum ekki vön að sjá.“

Ljósmyndahátíð Íslands

Fer fram 18.–21. janúar 2018

Hátíðin: Haldin í fyrsta skipti árið 2012 og fer fram annað hvert ár. Markmið hátíðarinnar er að vinna að framþróun ljósmyndunar sem listforms.

Dagskrá: Ljósmyndasýningar með erlendum og íslenskum listamönnum, fyrirlestrar, ljósmyndabókakynningar og ljósmyndarýni. Allar upplýsingar um dagskrána eru að finna á vefsíðunni www.tipf.is.

Staðsetning: Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Gerðarsafn, Hafnarborg, Listasafn Íslands, Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni og Ramskram.

Listrænir stjórnendur: Pétur Thomsen og Katrín Elvarsdóttir

Er eitthvert dæmi um ljósmyndaverk úr sýningunni sem þér dettur í hug sem varpar upp nýjum hliðum á umræðuna um eftirlit í samtímanum?

„Ég get til dæmis nefnt verkefni Albertos Frigo, en hann dregur fram þetta hversdagslega eftirlit í brjálæðislegu verkefni þar sem hann tekur ljósmyndir af hverjum einasta hlut sem hann snertir með hægri hönd sinni. Hann byrjaði á þessu árið 2004 og ætlar að halda þessu áfram til 2040. Þegar maður hittir hann og fær sér kaffi með honum byrjar hann á því að taka mynd af kaffibollanum með lítilli myndavél. Hverri einustu mynd safnar hann í skjalasafn á netinu, þetta eru nú þegar orðnir tugir þúsunda mynda. Hann safnar þeim saman fyrir sýningar og prentar út, en maður þarf nánast stækkunargler til að skoða þær. Þetta verkefni minnir mann auðvitað á hvernig við höfum tilhneigingu til að taka og deila myndum af alls konar hversdagslegum athöfnum og vekur upp spurningar um þetta. Með því að fara enn lengra með þetta sýnir hann okkur hvað sé í gangi í raun og veru.“

Alberto Frigo hefur síðan árið 2004 tekið myndir af hverjum einasta hlut sem hann hefur snert með hægri hendinni. Myndirnar geta sýningargestir rýnt í með stækkunargleri.
DNA hversdagsins Alberto Frigo hefur síðan árið 2004 tekið myndir af hverjum einasta hlut sem hann hefur snert með hægri hendinni. Myndirnar geta sýningargestir rýnt í með stækkunargleri.

Mynd: Alberto Frigo

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Lið umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni: Stórliðin með sína menn

Lið umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni: Stórliðin með sína menn
Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Kom kærustunni á óvart með heimsókn á íslenska reðasafnið

Kom kærustunni á óvart með heimsókn á íslenska reðasafnið
Eyjan
Fyrir 4 klukkutímum

Segir Morgunblaðsarminn hafa tögl og haldir í Sjálfstæðisflokknum sem hafi misst trúverðugleika í utanríkismálum

Segir Morgunblaðsarminn hafa tögl og haldir í Sjálfstæðisflokknum sem hafi misst trúverðugleika í utanríkismálum
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Fyrrum vonarstjarna í tveggja ára fangelsi: Sjáðu þegar hann lamdi konu ítrekað

Fyrrum vonarstjarna í tveggja ára fangelsi: Sjáðu þegar hann lamdi konu ítrekað
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Mikael segir leikmenn Vals ekki vera í formi: „Ég get svarað þessu fyrir þá“

Mikael segir leikmenn Vals ekki vera í formi: „Ég get svarað þessu fyrir þá“
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Þetta eru bestu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar: Jóhann Berg í 35 sæti

Þetta eru bestu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar: Jóhann Berg í 35 sæti
Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

Hungurlús Öldu Karenar – Er þetta nóg?

Hungurlús Öldu Karenar – Er þetta nóg?