fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Fyrsta, annað og … þriðja

Síðasta listmunauppboð vetrarins haldið í Gallerí Fold

Kristján Guðjónsson
Sunnudaginn 28. maí 2017 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er hátíðleg stemning í Gallerí Fold við Rauðarárstíg þegar síðasta listmunauppboð vetrarins fer fram. Klukkan er að nálgast sex á sólríkum mánudegi þann 22. maí og eftir skamma stund verða hundrað og fimm listaverk boðin upp.

Þátttakendur eru að tínast inn einn af öðrum. Í móttökunni skrá þeir nöfn sín og ítarupplýsingar á blöð og fá í staðinn plastspjald með stóru svörtu númeri, sem þeir veifa svo þegar þeir vilja bjóða í verk. Í kringum hundrað svörtum plaststólum hefur verið raðað upp í anddyrinu með einni gangröð í miðjunni.

Innar í galleríinu hefur listaverkunum verið stillt upp við veggi, hvert þeirra merkt með gulum miða með númeri verksins. Nokkrir áhugasamir listunnendur ganga um og virða fyrir sér verkin sem þeir gætu hugsað sér að kaupa. Alls konar fólk er að mæta á svæðið, heldri frúr, jakkafataklæddir hagfræðingar, menntaskólakennarar og maður í skítugum iðnaðarmannabuxum og stáltáarskóm.

„Það er tiltölulega mikið af nýjum andlitum,“ segir Jóhann Ágúst Hansen, framkvæmdastjóri gallerísins, en hann mun stýra fyrri hluta uppboðsins. Hann er á hlaupum fram og til baka með pappíra – enda má enn senda inn fortilboð í verk í gegnum netið, allt þar til fimmtán mínútum áður en uppboðið hefst.

Listaverk eftir Hring Jóhannesson, Jóhannes Kjarval og Eirík Smith bíða þess að vera boðin upp.
Hringur, Kjarval, Eiríkur Listaverk eftir Hring Jóhannesson, Jóhannes Kjarval og Eirík Smith bíða þess að vera boðin upp.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Jóhann Ágúst tekur við síðustu fyrirframboðunum sem bárust í verkin í gegnum heimasíðu Gallerís Foldar fimmtán mínútum áður en uppboðið hefst.
Síðustu fyrirframboðin Jóhann Ágúst tekur við síðustu fyrirframboðunum sem bárust í verkin í gegnum heimasíðu Gallerís Foldar fimmtán mínútum áður en uppboðið hefst.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þegar sá tími er verður rólegra hjá Jóhanni og hann gefur sér tíma til að spjalla stuttlega við blaðamann á hálfopinni skrifstofu uppfullri af ljósmyndum af erlendum poppstjörnum, ýmist eftir stjörnuljósmyndarann Janette Beckman eða eftir hann sjálfan. Hann viðurkennir að það sé spenna í loftinu en segir þó að eftir því sem maður verður reyndari í uppboðshaldinu minnki stressið, en hann hefur starfað hjá galleríinu í rúmlega 20 ár. Jóhann útskýrir að mestu vinnunni ljúki raunar tveimur vikum fyrir uppboð þegar uppboðsskráin er tilbúin, þá sé búið að skrá, verðmeta og mynda öll verkin.

Hinum megin á skrifstofunni situr Tryggvi Páll Friðriksson, hokinn af reynslu í listmunasölunni. Hann segir uppboðið vera nokkuð hefðbundið en bendir blaðamanni þó á að verkið sem sker sig kannski helst úr í dag sé verk eftir Jón Þór Birgisson, sem er betur þekktur fyrir tónlistarsköpun sína með Sigur Rós. Verkið sem nefnist Riceboy sleeps, the trees turn red er unnið með blandaðri tækni, teikning sem unnin er eftir ljósmynd er gerð á pappír sem er svo rammaður inn með gömlum viðarglugga.

Verð sem fékkst fyrir verkið Riceboy sleeps, the trees turn red eftir Jónsa í Sigur Rós var ekki ásættanlegt að mati seljanda og var verkið því innkallað.
Ekki nógu gott verð Verð sem fékkst fyrir verkið Riceboy sleeps, the trees turn red eftir Jónsa í Sigur Rós var ekki ásættanlegt að mati seljanda og var verkið því innkallað.

Mynd: Johann Agust Hansen

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Það styttist í að uppboðið hefjist, fólk tínist inn og fær sér sæti. Það verður ekkert sérstaklega fjölmennt í dag – ætli það séu ekki um sjötíu manns sem mættir eru í galleríið.

Þegar klukkan er orðin rétt rúmlega sex gengur jakkafataklæddur Jóhann Ágúst inn að púltinu á miðju sviðinu fyrir fram stórt dökkt olíumálverk eftir danskan 19. aldar málara í gylltum ramma. Hann festir hljóðnema á höfuðið, býður fólk velkomið og tilkynnir að það hafi orðið örlitlar breytingar, verk Nínu Tryggvadóttur verði því miður ekki boðið upp að þessu sinni af óviðráðanlegum ástæðum.

Og þá hefst uppboðið. Uppboðshaldarinn kynnir inn verkin eitt á fætur öðru, inn ganga svartklæddar ungar konur og halda á verkunum fyrir framan sig svo mögulegir kaupendur geti virt þau fyrir sér – en auk þess sjást verkin á skjá sem er til hliðar við sviðið. Jóhann kynnir verkið stuttlega, listamann og nafn verksins.

„Við byrjum í hundrað þúsund. Fæ ég hundrað þúsund króna boð? “ Einhver lyftir upp spjaldi.

„Hundrað þúsund eru boðin, fæ ég hundrað og tuttugu? Hundrað og tuttugu eru boðin, fæ ég hundrað og fjörtíu? Hundrað og fjörtíu eru boðin, fæ ég hundrað og sextíu? Hundrað og sextíu eru boðin, fæ ég hundrað og áttatíu?“

Þannig gengur þetta áfram þar til engin hærri boð koma.

„Tvö hundruð og fjörtíu, fæ ég tvö hundruð og sextíu? Tvö hundruð og fjörtíu eru boðin fyrsta … Tvö hundruð og fjörtíu eru boðin fyrsta annað og …“ Hann slær hamrinum niður í púltið með hvelli. „… þriðja. Kærar þakkir.“

Jóhann Ágúst býður hér upp dúkristuna Min Husfru frá 1945 eftir Jón Engilbertsson.
Fjölbreytt verk boðin upp Jóhann Ágúst býður hér upp dúkristuna Min Husfru frá 1945 eftir Jón Engilbertsson.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Það er hamagangur baksviðs þar sem starfsmenn Gallerís Foldar taka við símtölum frá fólki sem vill bjóða í verk.
Tekið við símatilboðum Það er hamagangur baksviðs þar sem starfsmenn Gallerís Foldar taka við símtölum frá fólki sem vill bjóða í verk.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Athygli uppboðshaldarans er eiturskörp, á sama tíma og hann þylur upp síðasta boðið og spyr hvort einhver bjóði hærra, fylgist hann bæði með salnum og hliðarherberginu þar sem tveir starfsmenn taka við tilboðum í gegnum síma. Þegar hraðinn eykst breytist tónninn í rödd í uppboðshaldarans. Unga konan með litaða bláa hárið sem situr við skrifborðið við hlið uppboðshaldarans skráir skilmerkilega niður númerin á spjöldum hæstbjóðenda. Eftir um klukkustund hefur rúmlega helmingur verkanna verið boðinn upp og þá skipta uppboðshaldararnir um stað – Tryggvi tekur við.

Verkin eru fjölbreytt, flest eru málverk eftir íslenska listamenn, en þarna eru þó nokkrir skúlptúrar, vefnaðarverk, grafíkverk, teikningar og ein Guðbrandsbiblía, þarna eru Kjarval og Stórval, Gunnlaugur Blöndal og Karen Agnete, Samúel Jónsson og Ásgrímur Jónsson, Tolli og meira að segja lítil teikning eftir Mugg.

Snyrtilega klætt og myndarlegt par í kringum fertugt býður í verk eftir Karólínu Lárusdóttur. Einhver býður hærra. Þau horfa djúpt í augu hvort annars, ræða saman með augnaráðinu og svo lyftir maðurinn spjaldinu öðru sinni. Þetta endurtekur sig einu sinni enn – en þá er komið að fjárhagslegum þolmörkum. Keppinauturinn býður hærra en þau treysta sér. Vonbrigðin leyna sér ekki. Seinna ná þau þó að næla sér í annað verk og taka gleði sína á ný.

Sumir gestanna skrá samviskusamlega verðið sem fæst fyrir hvert verk í uppboðsskrána. Eftir því sem líður á uppboðið hækkar verðið. Boðin hlaupa ekki lengur á þúsundum króna heldur tugum og hundruðum þúsunda. Met eru slegin í sölu á ljósmyndaverki eftir Ólaf Magnússon sem fer á 200 þúsund krónur og abstrakt verki eftir Valtý Pétursson sem fer á yfir 700 þúsund krónur – en eflaust spilar inn í endurnýjaðan áhuga á verkum hans nýleg yfirlitssýning í Listasafni Íslands.

Dýrustu verkin á uppboðinu fara á rúmlega eina milljón króna. Flest verkin fara þó á nokkru lægra verði en verðmatið í skránni segir til um, einhver fara á hærra verði og í örfá þeirra býður enginn lágmarksverðið – þau eru send aftur baksviðs óseld. Þetta á meðal annars við um verk Jónsa í Sigur Rós og það verk sem metið er dýrast í skránni: olíumálverkið Börn að leik eftir Þorvald Skúlason (1906–1984), en verðmatið er 3,5 til 4 milljónir króna. Rétt um klukkan 20.00 lýkur svo uppboðinu og hæstbjóðendur flykkjast að móttökuborðinu til að klára viðskiptin.

„Hvað varðar veltu þá var þetta aðeins miðlungsgott uppboð,“ segir Jóhann Ágúst blaðamanni síðar, en verkin seldust á um 18,5 milljónir við hamarshögg. „Þetta helgast kannski fyrst og fremst af því að við vorum ekki með mjög mikið af dýrum verkum. Í svona ártíð eins og er núna er erfiðara að fá inn góð, það er að segja dýr verk. Það er enginn sérstakur söluþrýstingur hjá fólki, það er því framboðsskortur. Það kom mér hins vegar á óvart að nokkur af dýrustu verkunum seldust ekki – til dæmis verkið eftir Þorvald Skúlason. Síðast þegar við fengum sambærilegt verk eftir hann seldist það á sex milljónir. Og dýrustu verkin sem seldust þó, seldust á lágu verði. Frá Hreðavatni eftir Ásgrím Jónsson var dýrasta verkið, en það fór á 1,2 milljónir sem er talsvert undir því verði sem ég teldi eðlilegt fyrir svona verk. Sá sem keypti það gerði mjög góð kaup.“

Nokkrir tugir listunnenda mættu á síðusta listmunauppboð vetrarins í Gallerí Fold.
Fjölmenni Nokkrir tugir listunnenda mættu á síðusta listmunauppboð vetrarins í Gallerí Fold.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Mynd: Johann Agust Hansen

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Facebook hafnaði kosningaauglýsingu Guðmundar Felix á undarlegum forsendum

Facebook hafnaði kosningaauglýsingu Guðmundar Felix á undarlegum forsendum
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Zidane hvattur til að taka við United

Zidane hvattur til að taka við United
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Parið vakti athygli allra í gær – Sjáðu hvað þau gerðu meðan heimurinn horfði

Parið vakti athygli allra í gær – Sjáðu hvað þau gerðu meðan heimurinn horfði
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Arnar spurður út í ákvörðun sína – „Það er ekkert meira um það að segja“

Arnar spurður út í ákvörðun sína – „Það er ekkert meira um það að segja“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Gunnar lokkaði dreng upp í bíl og misnotaði – Drengurinn tók upp hníf og komst úr íbúðinni

Gunnar lokkaði dreng upp í bíl og misnotaði – Drengurinn tók upp hníf og komst úr íbúðinni
Fókus
Fyrir 17 klukkutímum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun