fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Fremsti popplagahöfundur Íslands gerist flugmaður

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 19. maí 2019 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Arnþór Birgisson hefur náð lengra á sviði tónlistar en flestir Íslendingar en samt er hann þjóðinni frekar lítt kunnur. Hann fluttist til Svíþjóðar sem barn og hóf ungur störf sem upptökustjóri og lagahöfundur. Arnþór hefur samið lög fyrir magar af frægustu poppstjörnum veraldar. Má þar nefna Britney Spears, Westlife, Celine Dion, Janet Jackson og Carlos Santana. Miklar sviptingar eru í lífi Arnþórs þessa dagana. Hann hefur nýlega hafið störf sem atvinnuflugmaður, sonur hans skrifaði nýlega undir útgáfusamning og gifting er skipulögð í sumar. DV ræddi við Arnþór.

 

Kolféll eftir fyrsta smellinn

Arnþór fæddist í Reykjavík árið 1976 og flutti með fjölskyldu sinni til Eskilstuna, nálægt Stokkhólmi í Svíþjóð, tveggja ára gamall en hann á tvær eldri systur. Faðir hans var í sérfræðilæknisnámi og hugðist snúa heim, en það fór svo að fjölskyldan settist að í Stokkhólmi árið 1983. Faðir hans hóf störf hjá Huddinge-spítalanum og móðir hans hjá Icelandair í Svíþjóð. Fjölskyldan hélt þó góðu sambandi við heimalandið og Arnþór kom alltaf á sumrin til að fara í sveit við Kinnina hjá móðurfjölskyldunni. Arnþór stundaði einnig körfuknattleik á unglingsaldri og kom reglulega hingað í æfingabúðir.

„Ég var góður strákur,“ segir Arnþór. „Ég var forvitinn og alltaf að prófa eitthvað nýtt. Stundum gat ég lent í veseni út af því. Stundum tekst mér vel til og stundum ekki en ég hef aldrei verið hræddur við að taka áhættu. Það hefur fylgt mér alla tíð. Ég stundaði körfuboltann þangað til ég var átján ára, en þá varð ég að hætta því ég hafði svo mikið að gera í tónlist.“

Arnþór gekk í tónlistarskóla tíu ára gamall og fimmtán eða sextán ára var hann farinn að semja eigin lög. Hann byrjaði á að semja fyrir vini sína í tónlistarskólanum og einnig reyndi hann fyrir sér sjálfur. Árið 1995 gaf hann út plötu með uppsöfnuðum lögum en fékk síðan meiri áhuga á að semja fyrir aðra og stýra upptökum.

Þú byrjaðir mjög ungur að starfa við upptökustjórn?

„Já, sautján eða átján ára gamall. Ég fékk starf sem aðstoðarmaður hjá Cosmos-hljóðverinu og lærði mjög mikið. Árið 1997 starfaði ég með Christian Karlsson, sem er núna í poppsveitinni Galantis, hjá útgáfufyrirtæki sem heitir Merlin. Þá var þetta orðið að fullri vinnu, bæði við upptökustjórn og lagasmíðar.“

Arnþór man vel eftir fyrsta smellinum sínum, en það var lagið Because of You með bandarísku strákasveitinni 98 Degrees. Það lag náði öðru sætinu á bandaríska Billboard-vinsældalistanum.

„Það var ótrúleg tilfinning að sjá lagið klífa og ég kolféll fyrir þessu. Á þessum tíma var netvæðingin ekki hafin og plötur seldust enn þá í milljónum eintaka. Við sendum upptökurnar á geisladisk með FedEx til Bandaríkjanna og biðum svo eftir símtali í tvær vikur. Við vorum ekki einu sinni með tölvupóst. Þegar vel gekk varð maður glaður, fékk sér bjór og fór út að borða. Síðan var að byrjað á því næsta.“

 

Stúdíóið er athvarf

Á þessum árum voru tvö leiðandi stúdíó í Stokkhólmi, Merlin og Cheiron, þar sem hinn heimsfrægi lagahöfundur Max Martin starfaði. Arnþór segir að velgengni Cheiron hafi smitast yfir til þeirra og Stokkhólmur orðið að suðupunkti popptónlistar.

„Mjög margir tónlistarmenn komu til okkar í kringum aldamótin. En í kringum 2002, þegar plötusala fór að minnka á heimsvísu, þá þurftum við að hafa meira fyrir þessu og sækja verkefni erlendis. Ég fór margsinnis á ári til Los Angeles, New York og London. Undanfarin þrjú eða fjögur ár hefur þetta snúist við og fleiri koma hingað til að taka upp, en landslagið er gjörbreytt með tilkomu Spotify og allra streymisveitanna.“

Sá listi af poppstjörnum sem Arnþór hefur samið fyrir og tekið upp er hreint lygilegur á að líta. Þarna má meðal annarra finna Jennifer Lopez, Jessicu Simpson, Carlos Santana, Janet Jackson, Celine Dion, Westlife, Jay-Z, Sting, Samönthu Mumba, Ronan Keating, Enrique Iglesias, Ricky Martin og Boyzone að ógleymdri poppdrottningunni Britney Spears.

Hverjum var skemmtilegast að starfa með?

„Ég verð að segja Janet Jackson. Við vorum þrjár vikur í Los Angeles og mánuð í New York. Hún er fagmaður af öðru kalíberi en ég hef séð áður, bæði sem listamaður og í samskiptum við okkur. Ég hlustaði mikið á hennar tónlist þegar ég var unglingur og hennar lagahöfundar, Terry Lewis og Jimmy Jam, voru mínar hetjur. Það var draumur að fá að standa í þessum sporum.“

Hefur verið erfitt að starfa með einhverjum?

„Já, já, við erum að vinna með mjög skapandi og tilfinningaríku fólki. Margir af listamönnunum eru ekki alltaf hamingjusamir og ýmislegt að gerast í einkalífinu. Ég hef samt verið nokkuð heppinn með samstarfsfólk. Stúdíóið er líka nokkurs konar athvarf fyrir listamennina og þeim líður vel þar. Það er enginn sem kemur til að trufla eða angra þá. Oftast nær er þægilegt andrúmsloft í stúdíói.“

Ert þú alltaf ánægður með útkomuna?

„Nei,“ segir Arnþór eftir smá umhugsun. „Í þessum bransa verður maður að læra listina að gera málamiðlanir. Þeir sem eru einstrengingslegir endast ekki lengi. Það eru margir sem koma að útgáfunni og sumir með áratuga reynslu af því hvað virkar í útvarpi og hvað ekki. Stundum hef ég ekki verið alveg sáttur við lokaútkomuna en þeim skiptum hefur farið fækkandi síðustu tíu árin. Það er ekki jafn mikil pólitík í þessu lengur. Fólk treystir því sem við erum að gera.“

 

Flýgur stjörnunum

Arnþór hefur lengi verið með flugdellu. Sjálfsagt á móðir hans einhvern þátt í því. Þegar hann var níu ára gamall fékk hann sinn fyrsta flughermisleik og sat hann öll kvöld og lék sér í honum. Árið 2001 byrjaði hann í flugnámi en lauk því ekki vegna anna. Þá var Benjamín, elsti sonurinn, væntanlegur í heiminn.

„Að klára þetta hefur blundað í mér allar götur síðan. Fyrir nokkrum árum fór ég að hugsa: Ef ég geri þetta ekki núna, þá geri ég þetta aldrei. Þess vegna dreif ég mig af stað og kláraði einkaflugmannsprófið og vegna þess að mér fannst þetta svo skemmtilegt tók ég atvinnuflugmannsprófið líka.“

Arnþór kláraði námið árið 2018 og tók sér þá frí frá upptökum. Í mars síðastliðnum fékk hann flugmannsstöðu hjá flugfélagi í einkaflugi. Starfar hann núna jafnfætis í fluginu og upptökunum, viku og viku í senn.

Ertu þá að fljúga poppstjörnunum um heiminn?

„Já, í nýja starfinu hitti ég marga gamla vini og flýg með þá til Ibiza og á fleiri staði. Þeir vilja allir fljúga hjá mér,“ segir Arnþór og skellir upp úr. „Ég hef til dæmis verið að fljúga með fyrsta kollega minn, Christian, og hina strákana í Galantis.“

Að fljúga minni vélum er mjög hentug byrjun í fluginu. Arnþór er þó opinn fyrir því að fljúga stærri vélum og breiðþotum í framtíðinni.

„Þetta hentar mér mjög vel eins og þetta er. Ég bý í Solna, fimm mínútum frá flugvellinum. Þetta er lítið og þægilegt, það væri miklu stærra batterí að fljúga fyrir SAS til dæmis. Þegar ég var yngri var draumurinn alltaf að fljúga fyrir Icelandair.“

 

Sonurinn samdi við Sony

Arnþór á tvo syni, sá yngri heitir Jósef og sá eldri Benjamín. Benjamín, sem verður brátt sautján ára, skrifaði nýlega undir útgáfusamning í tónlist við Sony.

„Hann byrjaði á þessu þegar hann var þrettán eða fjórtán ára gamall og hefur mestan áhuga á hip hop. Hann hefur verið að fá græjur lánaðar hjá mér til þess að búa til tónlist. Ungir strákar sem eru að framleiða sænskt hip hop tóku eftir því sem hann var að gera og vildu fá að taka upp með honum. Þetta verður einhvers konar blanda af hip hop og poppi.“

Ert þú ekkert að skrifa fyrir hann?

„Nei. Ég hef hjálpað honum við ýmislegt, en hann er að gera þetta sjálfur. Hann spilar ekki á hljómborð og stundum biður hann mig að koma og spila. Hann tekur það síðan í sínar áttir.“

Það eru fleiri gleðifréttir af fjölskyldunni því að í ágústu munu Arnþór og Sharaeh Sophia Hosseini, unnusta hans, festa sitt ráð. Arnþór hefur áður verið giftur. Sharaeh er af írönsku bergi brotin, en flutti til Svíþjóðar tveggja ára líkt og Arnþór.

Ræktið þið sambandið við Ísland?

„Já, við gerum það. Því miður tala strákarnir ekki íslensku og ég sé svolítið eftir því að hafa ekki talað meira við þá á íslensku. En þeir koma með mér til Íslands, oftast einu sinni á ári. Foreldrar mínir eru nú fluttir aftur til Íslands og strákarnir fara til þeirra í sumar. Strákarnir elska að koma til Íslands.“

 

Heldur meira með Íslandi en Svíþjóð

Það er ekki hægt að sleppa Arnþóri án þess að spyrja hann um Eurovision. Hann er jú milli steins og sleggju, verandi Íslendingur búsettur í Svíþjóð. Eins og við vitum flest þá eru þetta tvær Eurovision-óðustu þjóðir álfunnar og Svíar vitaskuld margfaldir sigurvegarar.

Hefur þú sent lag inn í keppnina?

„Ég hef einu sinni samið lag fyrir vin minn sem heitir Darin, fyrir um það bil tíu árum. Lagið hafnaði í þriðja sæti í keppninni hér, Melodifestivalen. Eurovision er auðvitað mjög skemmtileg keppni. John Lundvik, sænski keppandinn í ár, er góður vinur minn og hefur sungið demó-lög fyrir okkur. Þetta er hans fyrsta skipti og við erum mjög spennt fyrir hans hönd.“

Arnþór hefur einnig fylgst með Hatara, fulltrúum Íslendinga.

Hvort heldur þú með Svíþjóð eða Íslandi?

„Ég held alltaf með þeim sem gengur betur,“ segir Arnþór og flissar. „Ef sá sem ég held með fær fá stig skipti ég umsvifalaust um hollustu. En heilt yfir hef ég alltaf haldið meira með Íslandi en Svíþjóð. Íslendingar hafa líka sent mjög mörg góð lög í keppnina.“

Hvernig heldur þú að Hatara muni ganga?

„Þetta gæti orðið erfitt. Þetta er mjög athyglisvert framlag, bæði lagið og hvernig þetta er sett saman. Það sem mér finnst flott við atriðið er að þetta er öðruvísi og nýtt. Ég er hins vegar ekki viss um að áhorfendur geti skilið það jafn vel og við. Ég þurfti sjálfur að hlusta nokkrum sinnum til að átta mig á því. En ég vona að þeim gangi vel.“

Árið 2020 er væntanleg Hollywood kvikmynd sem fjallar um og ber titilinn Eurovision. Gamanmynd með stórleikaranum Will Ferrell í aðalhlutverki. Arnþór semur lög fyrir kvikmyndina. Þetta er svið sem hann hefur verið að færa sig meira inn á því einnig semur hann lög fyrir þætti á Netflix.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar