fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Yfirmenn Reebok Fitness bornir þungum sökum – „Þetta er ekki spurning um hvort, heldur hvenær slysin gerast“

Íris Hauksdóttir
Laugardaginn 28. mars 2020 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frá því í fyrrahaust hafa stöðvar Reebok Fitness verið án starfsmanna á ákveðnum tímum virka daga, snemma á morgnana og svo aftur yfir miðjan daginn. Þetta staðfestir Ólafur Geir Ottósson, fyrrverandi einkaþjálfari stöðvarinnar, og fullyrðir hann að starfsmannaleysið geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir viðskiptavini með tilliti til öryggis og viðeigandi viðbragðsáætlana. Ólafur segist margoft hafa bent yfirmönnum líkamsræktarstöðvarinnar á eftirfarandi atriði en talað fyrir daufum eyrum.

„Það er gjörsamlega galin tilhugsun að vita til þess að unglingar allt niður í fjórtán ára aldur megi æfa í stöðvunum með samþykki forráðamanna. Á sama tíma er enga starfsmenn þar að finna, sem dæmi um þetta er hvorki eftirlit né aðhald á staðnum milli klukkan 14 og 17 alla virka daga. Líkamsræktarstöð er æfingasvæði þar sem geta verið stór og mikil tæki og búnaður sem auðvelt er að slasa sig á með rangri notkun. Börn undir átján ára ættu að vera undir eftirliti og aðhaldi einhvers fullorðins á staðnum sem getur gripið inn í og verið til staðar. Sívirkt myndavélaeftirlit er þó á stöðvunum en það er engan veginn það sama og að vera með starfsmann á staðnum.“

Kalla þurfti til sjúkrabíl og enginn starfsmaður á staðnum

Komi upp veikindi eða slys segir Ólafur að treysta þurfi á viðskiptavini til að bregðast við.

„Í sumum tilfellum eru þjálfarar á staðnum, sem geta brugðist við, en þeir eru ekki starfsmenn Reebok Fitness. Samkvæmt leyfisskilyrðum þarf að vera til staðar viðbragðsáætlun fyrir stöðvarnar og hún er til staðar. Í öllum tilfellum byggir hún á því að starfsmaður á staðnum bregðist við aðstæðum með því að fara strax í að tryggja ákveðna hluti samkvæmt verkferlum. Þegar ekki er starfsmaður á staðnum er ekki hægt að bregðast strax við samkvæmt áætlun og þarf því starfsmaður Reebok Fitness að koma á staðinn, sem getur tekið einhvern tíma. Dæmi eru um að kalla hafi þurft til sjúkrabíl vegna bráðaveikinda viðskiptavina þegar ekki var starfsmaður í húsinu, að brunaviðvörunarkerfi hafi farið í gang og því sinnt seint og illa. Konur hafa stundum upplifað og orðið fyrir óþægilegri nærveru og athygli karlmanna og það hefur gerst að inn hafa komið einstaklingar sem við höfum talið mjög líklega undir áhrifum einhverra óæskilegra efna. Dæmi er um að karlmaður hafi með skýrum ásetningi farið inn í búningsklefa kvenna þegar ekki var starfsmaður á staðnum. Í þessum tilfellum má deila um hvort starfsmaður á staðnum hefði getað komið í veg fyrir eitthvað. Mín skoðun er sú að starfsmaður á staðnum gæti í öllum tilfellum brugðist við og verið viðskiptavinum innan handar og gengið í málið.“

Ólafur nefnir jafnframt að á nokkrum stöðvum Reebok Fitness séu heitir pottar, sána og gufa sem hann telur þurfa eftirlit. Starfsmannaleysið hefur valdið Ólafi miklum áhyggjum og segir hann fleiri starfsmenn stöðvarinnar deila þeim áhyggjum. Viðskiptavinir hafi jafnframt komið með athugasemdir, en yfirmenn stöðvarinnar virt þá að vettugi, að sögn Ólafs.

„Ég er fyrst og fremst að hugsa um hagsmuni viðskiptavinanna hvað þessi öryggismál varðar, því þetta er ekki spurning um hvort, heldur hvenær slysin gerast. Slysin gera ekki boð á undan sér en það er vel hægt að byrgja brunninn áður en barnið fellur í hann. Hér er það svo sannarlega ekki raunin.“

Að lokum nefnir Ólafur dæmi þar sem ekki hefur verið hægt að bregðast við skyndilegum óþrifnaði, til dæmis á salernum þegar slíkt hefur gerst.

„Það hefur skapast ákveðin hætta þegar bleyta hefur myndast innanhúss í stigum og starfsmaður ekki getað farið í að þurrka hana strax, og inn hafa komið einstaklingar sem við höfum stundum veitt sérstaka eftirtekt vegna hegðunar þeirra og jafnvel ástands og hefðum helst viljað hafa afskipti af en það er ekki í okkar verkahring. Þetta er auðvitað hið leiðinlegasta mál og virkilega slæmt ef ekkert verður gert til að bæta stöðuna.“

Æfa á eigin ábyrgð 

Katrín Björk Eyvindardóttir gefur lítið út á ásakanir Ólafs en hún er einn forsvarsmanna Reebok Fitness.

„Eftirlit á stöðvunum okkar er mjög gott, bæði frá starfsfólki þegar það er í afgreiðslu og þeim fjölmörgu þjálfurum sem eru á staðnum hverju sinni, en annars með öflugu eftirlitskerfi sem sinnir okkar stöðvum á öllum tímum sólarhringsins. Meðan líkamsræktarstöðin er opin fylgist starfsmaður með og bregst við um leið.“

Hún viðurkennir að enginn starfsmaður sé í afgreiðslu á milli klukkan 14 og 17.

„Á þeim tíma beinum við viðskiptavinum á sjálfsafgreiðslustöðvarnar okkar í afgreiðslu en þar ná þeir beinu sambandi við starfsmann með myndsímtali sem getur brugðist við hverju sinni. Það á þá við ef kalla þarf til neyðaraðstoð, gefa leiðbeiningar frá þjálfara eða öðrum tengdum aðillum sem vitað er að séu staðsettir í húsi. Aðgangsstýringarkerfið okkar heldur utan um hverjir eru á staðnum hverju sinni. Vissulega getur fólk veikst eða slasast í líkamsræktarstöð líkt og annars staðar, þegar það hefur þurft að kalla til sjúkrabíl hjá okkur þá hefur það undantekningarlaust verið leyst af mikilli prýði af okkar starfsfólki, þjálfurum og öðrum viðstöddum.“

Katrín segist ekki hafa heyrt á það minnst að karlmenn valsi óhindrað inn í kvennaklefa en ef til slíkra tilfella kæmi yrði að sjálfsögðu tekið hart á því.

Fátítt að fólk slasi sig á tækjunum

Telji þið forsvaranlegt að viðskiptavinir yngri en átján ára séu eftirlitslausir innan um stór og mikil æfingartæki sem auðvelt er að slasa sig á með rangri notkun?

„Lágmarksaldur í stöðvar Reebok Fitness er 15 ár og skilmálar Reebok Fitness eru í takt við skilmála annarra líkamsræktarstöðva þegar kemur að ábyrgð viðskiptavina þegar æft er í stöðinni. Hér æfum við á eigin ábyrgð, förum varlega og sýnum lóðum og tækjum virðingu. Það er mjög fátítt að fólk sé að slasa sig á tækjunum. Það er ekki reynsla okkar að þeir yngri séu líklegri til að slasa sig en aðrir. Þær líkur aukast heldur ekki né minnka þótt starfsmaður sé afgreiðslu,“ segir Katrín. Spurð hverjar kröfur fyrirtækisins séu hvað öryggismál varðar ítrekar Katrín að Reebok fylgi kröfum þeirra opinberu aðila sem þau þurfi að svara til.

En hafið þið fundið fyrir óánægju starfsfólks eða viðskiptavina ykkar?

„Í svona rekstri sem snertir á þúsundum viðskiptavina og hundruðum starfsmanna er nær ómögulegt að geðjast öllum. Við getum þó verið nokkuð viss um og vonað að meirihlutinn sé ánægður.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“