fbpx
Fimmtudagur 24.september 2020
Fókus

Helena vill ekki „fegra“ andlit: „Ófullkomleikinn það fallegasta“

Íris Hauksdóttir
Sunnudaginn 1. desember 2019 17:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helena Reynisdóttir hefur á skömmum tíma skapað sér nafn fyrir fallega myndsköpun en hún hélt sína fyrstu sýningu 17 ára gömul. Sýninguna nefndi hún Ekki er allt sem sýnist, og voru verkin af mörgum þjóðþekktum íslenskum leikurum. Hugmyndina segir hún hafa verið þá að fólk leiki gjarnan mörg hlutverk og sýni ekki endilega alltaf sinn innri mann. Ári síðar hélt Helena svo aðra sýningu undir yfirskriftinni Umhverfa/Aroundness þar sem hún skoðaði andlit frá ólíkum sjónarhornum. Þriðja sýningin leit svo dagsins ljós ári síðar á kaffihúsinu Energia og fékk hún heitið Fersk fegurð en þar fjallaði Helena um ferskleika og fegurð vatnsins.

Teikning af Ingvari E. Sigurðssyni, frá fyrstu einkasýningu Helenu „Ekki er allt sem sýnist“ árið 2011

„Ég hélt stóra yfirlitssýningu á verkum mínum í Safnahúsinu á Akranesi sem fékk mikla athygli en ég útskrifaðist af myndlistarbraut í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ sama ár. Ég fór svo beint í förðunarnám hjá Reykjavík Makeup School og útskrifaðist þaðan með hæstu einkunn í beauty-förðun. Næsta ár fór svo í mikið af förðunarverkefnum og einstaka teiknipöntunum. Árið 2015 komst ég svo inn í draumanámið mitt í myndlistarskóla í Stokkhólmi og flutti þangað. Tveimur árum síðar útskrifaðist ég úr náminu við Konstskolan Basis og flutti í kjölfarið aftur til Íslands þar sem ég hóf nám í listfræði við Háskóla Íslands. Nú í sumar komst ég svo í skiptinám við Humboldt-háskólann í Berlín og bý þar núna. Á sama tíma fékk ég stærsta verkefni mitt til þessa sem var að teikna stóra mynd í raunsæisstílnum mínum fyrir Hótel Geysi og hangir hún nú þar í forsalnum á hótelinu. Þetta verkefni var eitt það skemmtilegasta og mest gefandi verkefni sem ég hef tekið að mér.

Forsagan er sú að í byrjun árs fékk ég skilaboð frá eigendum Hótel Geysis þar sem þeir sögðu mér frá verkefninu og að þeir vildu endilega fá mig til að taka það að mér. Þau höfðu þá fylgst með mínum listaferli í mörg ár og fannst ég akkúrat vera sá listamaður sem þau höfðu í huga. Þau buðu mér að koma og skoða rýmið, en á þessum tíma stóð yfir mikil endurbygging á hótelinu. Ég samþykkti og byrjaði í kjölfarið að plana og undirbúa mig. Verkið tók þrjá mánuði í vinnslu enda mjög stórt í sniðum eða um 1,7 metrar sinnum 1,5 metrar. Þetta er mynd af eigendum hótelsins. Ég eyddi miklum tíma í smáatriði því mig langaði að fanga persónueinkennin eins vel og mögulegt var. Í byrjun ágúst var verkið flutt úr Reykjavík upp á Hótel Geysi og hangir það nú í forsalnum, þegar komið er í anddyri hótelsins.“

Alltaf verið ákveðin hugleiðsla
Helena segir myndirnar hennar einkennast af raunsæjum stíl og yfirleitt mjög stórar í sniðum. „Þetta eru oftast portrait-teikningar í tveggja metra hæð. Ég legg mikið upp úr því að ná tilfinningu og persónueinkennum manneskjunnar sem ég er að teikna, þess vegna vil ég aldrei „fegra“ andlitin, ef svo er hægt að segja. Þegar ég segi fegra á ég við að ég vil ekki breyta neinu við andlitið svo það passi inn í einhverja samfélagslega fegurðarstaðla. Ef manneskjan er með broslínur, hrukkur eða ósimmetrískt andlit vil ég alls ekki breyta því enda myndi maður þá tapa persónueinkennum, sem eru einmitt það sem gerir manneskjurnar fallegastar.“

Helena teiknaði fyrstu teikninguna sína í þessum raunveruleikastíl einungis tólf ára gömul. Hún fann strax að stíllinn átti vel við hana enda er hún enn við sömu iðju, þrettán árum síðar. „Ég og vinkona mín byrjuðum á því að hittast eftir skóla til að teikna og gerðum það tímunum saman. Það skemmtilegasta var að ég fann fljótt hvernig teiknihæfileikar mínir þróuðust og bættust við þetta. Þarna varð ekki aftur snúið. Ég myndi segja að ég hafi byrjað að teikna vegna þess að ég fann strax hvað ég hafði mikinn áhuga og hann hefur haldist óbreyttur síðan. Teikningin er minn helsti miðill og hefur í raun alltaf verið ákveðin hugleiðsla fyrir mig.“

Verk Helenu, Þetta er ekki Jón, hékk fyrir framan Kringluna en það var valið af fyrstu einkasýningu hennar árið 2013 fyrir götusýningu Arion banka.

Spurð hvað sé framundan segist Helena alltaf hafa annan fótinn á Íslandi þótt auðvelt sé að njóta lífsins í Berlín. „Berlín er algjör draumur að búa í, sérstaklega fyrir listafólk. Ég stefni auðvitað að því að klára skiptinámið mitt hér og sjá svo bara hvert lífið leiðir mig næst. Ég reyni alltaf að heimsækja Ísland reglulega og kem auðvitað heim um jólin, en ég er rosalega spennt að hitta fjölskyldu og vini.“

Áhugasamir geta fylgst með Helenu bæði á Facebook og Instagram undir notendanafninu, helenareynisart.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fókus
Í gær

Bubbi um ástandið – „Ekki hægt að taka vinnuna af fólki í eitt eða tvö ár“

Bubbi um ástandið – „Ekki hægt að taka vinnuna af fólki í eitt eða tvö ár“
Fókus
Í gær

Bikinímynd Jennifer Lopez veldur usla

Bikinímynd Jennifer Lopez veldur usla
Fókus
Fyrir 5 dögum

Telur sig vera með stærstu brjóst Bretlands

Telur sig vera með stærstu brjóst Bretlands
Fókus
Fyrir 5 dögum

Tinder laugin – Hvar eru þau nú? Umtöluðustu keppendurnir stíga fram

Tinder laugin – Hvar eru þau nú? Umtöluðustu keppendurnir stíga fram