fbpx
Laugardagur 05.desember 2020
Fókus

Þrándur: „Það eru nú alltaf stöðug vonbrigði þegar ég sæki um listamannalaun“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 5. janúar 2019 15:25

Þrándur Þórarinsson Hið gamla og nýja takast á.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrándur Þórarinsson hefur haslað sér völl sem umtalaðasti listmálari þjóðarinnar. Hann rær gegn straumnum og málar verk í anda gömlu meistaranna, en er óhræddur við að skeyta nútímanum inn í. Útkoman getur verið allt í senn falleg, undarleg, stuðandi og bráðfyndin. DV ræddi við Þránd um æskuna, einmanaleikann, frægðina, hina árlegu höfnun um listamannalaun og fleira.

Þetta er brot úr viðtali í Helgarblaði DV.

 

Fær ekki listamannalaun

Efniviðurinn sem Þrándur sækir í við sköpun sína eru sögulegir viðburðir og persónur, þjóðsögur, nútíminn og fleira. Hann segist lítið blanda eigin persónu inn í verkin.

„Ég nota mitt eigið smetti svolítið mikið sem módel. En ég hef ekki verið að vinna úr mínum málum á striganum, nema þá mjög óbeint. Mér finnst það ekki eins áhugavert. Auðvitað hafa margir málarar gert það með mjög góðum árangri. Ef ég geri það þá blasir það ekki beint við áhorfandanum.“

Hvað ertu ánægðastur með?

„Þau verk sem ég er að vinna að núna. Ég held til dæmis að þessi frelsisstyttumynd fyrir framan okkur verði býsna góð þegar hún verður fullgerð. Þegar ég verð búinn að setja smá Hollywood og húmor í hana.“

En mestu vonbrigðin?

„Það eru nú alltaf stöðug vonbrigði þegar ég sæki um listamannalaun. Árleg vonbrigði. Eins þegar ég sæki um að halda sýningar á opinberum vettvangi. Þá kemur alltaf synjun.“

Ertu utangarðs í listaheiminum?

„Ég get nú ekki sagt það, nei. Mér líður ekki þannig og mér gengur svo afskaplega vel að ég vil alls ekki kvarta. Þegar kemur að öðrum listamönnum upplifi ég ekkert annað en gagnkvæma virðingu. Ég veit ekki af hverju ég er ekki í náðinni hjá þeim sem útdeila þessu.“

 

Hefur varla undan
Nýjasta verkið í mótun.

Dýrasta verkið á tæpar tvær milljónir

Fá, ef nokkur, störf virðast vera jafn einmanaleg og starf listmálarans. Að vera klukkutímum saman einn í herbergi með pensil og striga. Eða að standa einsamall úti og mæna á fjall eða fljót. Þrándur tekur undir þetta.

„Mér finnst voða gott að vera einn með sjálfum mér. En ég fæ oft kofaveiki hérna á vinnustofunni þegar ég er búinn að vera hérna allt of lengi. Þá fer ég út og hitti fólk. Ég er félagsvera eins og allir aðrir. En ég eyði meiri tíma með sjálfum mér heldur en Jón og Gunna gera.“

Þrándur býr með sjö ára dóttur sinni hálft árið en hinn helminginn er hún hjá móður sinni í Danmörku. Utan vinnutíma sækir hann gjarnan menningarviðburði af ýmsum toga. Hann tók þátt í göngum á síðasta ári og stefnir að því að stunda meiri útivist á þessu.

Hefur þú alltaf getað lifað á listinni?

„Ekki alltaf, nei. Eftir fyrstu einkasýninguna mína árið 2008 sagði ég upp vinnunni minni. En síðan elti ég barnsmóður mína út til Kaupmannahafnar árið 2012 og kláraði þar mastersnám í heimspeki. Eftir að ég sneri heim árið 2015 fór þetta að ganga og ég hef lifað á þessu síðan þá.“

Vinsældir Þrándar hér heima hafa hvatt hann til að hasla sér völl á erlendri grundu. Hann hélt sýningu í Kaupmannahöfn síðasta sumar þar sem seldist töluvert af verkum. Markmiðið hjá honum núna er að halda áfram að kynna sig erlendis.

„Það er samt svolítið erfitt því að það selst eiginlega allt upp hérna jafnóðum. En ég þarf að hugsa um að setja egg í fleiri en eina körfu.“

Hefur þú ekki undan að framleiða?

„Nei, eiginlega ekki. Ég fæ mikið af tölvupósti frá fólki sem er að biðja um myndir og ég er farinn að þurfa að vísa mörgum frá. Flestar myndir eru fljótar að fara, nema að þær séu þeim mun meira stuðandi. Ég er alveg hættur að taka við pöntunum á ákveðnum myndum til að mála, nema það sé eitthvað alveg sérstakt.“

Enn sem komið er hefur Þrándur aðeins selt til einstaklinga og para. Engin fyrirtæki eða stofnanir hafa keypt af honum.

Hvert er dýrasta verkið þitt?

„Kristnitakan, sem ég málaði árið 2009, seldist á uppboði á 1,9 milljónir. Það var hins vegar ekki ég sjálfur sem seldi það. Ég sjálfur hef ekki ennþá selt fyrir milljón en það fer að nálgast það. Þrjú til fimm hundruð þúsund er algengasta verðið.“

Verður þú var við mikið snobb í kringum þennan bransa?

„Já, ég verð að segja það. Ég tek líka eftir því að það er byrjað að snobba svolítið fyrir mér. Ég finn að það er orðið nokkurs konar stöðutákn að eiga Þrándarmynd. Sjálfur snobba ég sjálfur fyrir hinu og þessu,“ segir Þrándur og brosir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Hreinskilinn pistill móður slær í gegn – „Börnin mín eru stundum fávitar“

Hreinskilinn pistill móður slær í gegn – „Börnin mín eru stundum fávitar“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Margrét var komin með 99 þúsund fylgjendur en á mjög slæmum stað – „Var á barmi þess að fá hjartaáfall“

Margrét var komin með 99 þúsund fylgjendur en á mjög slæmum stað – „Var á barmi þess að fá hjartaáfall“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Greip kærastana glóðvolga við framhjáhald

Greip kærastana glóðvolga við framhjáhald
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vill gera báðar kærusturnar óléttar á sama tíma

Vill gera báðar kærusturnar óléttar á sama tíma