fbpx
Laugardagur 19.september 2020
Fókus

ÞJÓÐIRNAR SEM TAKA ÞÁTT Í EUROVISION 2017

Fjörutíu og tvær þjóðir taka þátt – Spennandi dagar framundan hjá aðdáendum

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 7. maí 2017 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eurovision eða Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva verður haldin í 62. skipti í ár og að þessu sinni í Kiev í Úkraínu, en keppnin var einnig haldin þar 2005. Það eru 42 þjóðir sem taka þátt í ár.

Fyrri undankeppnin er þriðjudaginn 9. maí og þá taka eftirfarandi 18 þjóðir þátt: Svíþjóð, Georgía, Ástralía, Albanía, Belgía, Svartfjallaland, Finnland, Aserbaídsjan, Portúgal, Grikkland, Pólland, Moldóva, Ísland, Tékkland, Kýpur, Armenía, Slóvenía og Lettland. Þær tíu stigahæstu komast áfram í aðalkeppnina.

Seinni undankeppnin er fimmtudaginn 11. maí og þá taka eftirfarandi 18 þjóðir þátt: Serbía, Austurríki, Makedónía, Malta, Rúmenía, Holland, Ungverjaland, Danmörk, Írland, San Marínó, Króatía, Noregur, Sviss, Hvíta-Rússland, Búlgaría, Litháen, Eistland og Ísrael. Þær tíu stigahæstu komast áfram í aðalkeppnina.

Aðalkeppnin fer svo fram laugardaginn 13. maí og keppa þar 20 stigahæstu þjóðirnar úr hvorri undankeppni, ásamt Úkraínu, sem vann í fyrra, og landanna fimm sem eru alltaf örugg í úrslitum: Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Spáni og Bretlandi.

Hér eru smá fróðleiksmolar um allar þjóðirnar sem taka þátt í ár.

SVÍÞJÓÐ

Lag: I can’t go on
Flytjandi: Robin Bengtsson.
Svíþjóð hefur tekið þátt 56 sinnum og er ein af sigursælustu þjóðum keppninnar með sex sigra til þessa. Robin er 26 ára og byrjaði í tónlistarbransanum 2008 þegar hann keppti í Idol og lenti í þriðja sæti. Hann hefur gefið út 13 lög og söluhæsta lag hans, tvöföld platínuplata, er Constellation Prize, sem hann keppti með í Melodifestivalen 2016, þar sem hann lenti í fimmta sæti.

SVÍÞJÓÐ
SVÍÞJÓÐ

GEORGÍA

Lag: Keep the Faith
Flytjandi: Tamar „Tako“ Gachechiladze
Georgía hefur tekið þátt níu sinnum og hæst komist í níunda sæti. Þetta er í þriðja sinn sem Tako reynir að keppa fyrir land sitt í Eurovision. Árið 2009 ákvað Georgía að draga framlag hljómsveitar hennar, Stephane & 3G, úr keppni. Ástæðan var sú að lagið þótti of pólitískt, en þar var skotið á Vladimír Pútín, þáverandi forsætisráðherra Rússa (nú forseta). Árið 2008, þegar hún keppti ein, komst hún ekki áfram. En allt er þegar þrennt er segir máltækið og nú fáum við að sjá hana á sviði í Eurovision.

GEORGÍA
GEORGÍA

ÁSTRALÍA

Lag: Don’t Come Easy
Flytjandi: Isaiah Firebrace
Ástralía tekur þátt í þriðja sinn, lenti í öðru sæti 2016 og því fimmta 2015. Eins og allir vita þá er Ástralía ekki hluti af Evrópu og því sérstakt að þeir keppi í Eurovision. Áströlum var boðið að taka þátt 2015 vegna 60 ára afmælis keppninnar og mikils áhuga á keppninni í Ástralíu. Það ár var Ástralíu gefið sæti í aðalkeppninni til að hafa ekki áhrif á atkvæði annarra landa í undankeppnunum. Þess má geta að Ástralir hafa sungið áður í keppninni; Johnny Logan, sem keppti og vann nokkrum sinnum fyrir Írland, Olivia Newton-John og Gina G, sem kepptu fyrir Írland, og söngkona þýsku hljómsveitarinnar Texas Lightning eru öll áströlsk. Hinn 17 ára gamli Isaiah sigraði í áttundu seríu X Factor Australia 2016 og lagið It’s Gotta Be You sem hann flutti í lokakeppni X Factor varð vinsælt bæði í Ástralíu og Evrópu.

ÁSTRALÍA
ÁSTRALÍA

ALBANÍA

Lag: World
Flytjandi: Lindita
Albanir hafa tekið þátt þrettán sinnum og hæst komist í fimmta sæti. Lindita keppti í American Idol 2016 og mátti þar lúta í lægra haldi fyrir La’Porsha Renae um síðasta sæti kvenna í Top 24, La’Porsha endaði hins vegar í úrslitum og að lokum í öðru sæti. Lagið var flutt á albönsku í heimalandinu og hét þá Botë.

ALBANÍA
ALBANÍA

BELGÍA

Lag: City Lights
Flytjandi: Blanche
Belgía hefur tekið þátt 58 sinnum og er eitt af fjórum löndum sem oftast hafa tekið þátt (Þýskaland 59 sinnum, og Frakkland og Bretland bæði 58 sinnum). Belgía hefur unnið einu sinni, 1986, þegar Sandra Kim vann með lagið J’aime La Vie, en það var fyrsta árið sem Ísland tók þátt. Hin 17 ára gamla Ellie Delvaux, eða Blanche eins og hún kallar sig, keppti í The Voice Belgique, þar sem hún komst áfram í beina útsendingu, en eftir tvær umferðir þar féll hún úr keppni.

BELGÍA
BELGÍA

SVARTFJALLALAND

Lag: Space
Flytjandi: Slavko Kalezić
Svartfjallaland hefur tekið þátt átta sinnum og aðeins tvisvar komist upp úr undankeppninni. Hæst hafa þeir lent í þrettánda sæti. Slavko tók þátt í X Faktor 2013 í Serbíu, lenti í fjórtánda sæti og hefur síðan gefið út eina plötu og fimm smáskífur. Slavko talar fjögur tungumál reiprennandi: móðurmálið, ensku, frönsku og spænsku.

SVARTFJALLALAND
SVARTFJALLALAND

FINNLAND

Lag: Blackbird
Flytjandi: Norma John
Finnland hefur tekið þátt 50 sinnum og sjaldnast haft erindi sem erfiði, en sigur þeirra 2006, þegar þungarokkarnir í Lordi unnu, er líklega með eftirminnilegri sigrum í Eurovision. Dúettinn Norma John var stofnaður 2008 og hann skipa píanóleikarinn Lasse Piirainen og söngkonan Leena Tirronen.

FINNLAND
FINNLAND

Aserbaídsjan

Lag: Skeletons
Flytjandi: Dihaj
Aserbaídsjan hefur keppt níu sinnum í Eurovision með góðum árangri, sex sinnum verið í topp tíu og vann 2011. En það sama ár reyndi Dihaj að keppa fyrir hönd heimalandsins, það voru hins vegar Ell & Nikki sem kepptu þá og unnu. Dihaj var bakrödd í fyrra, en í ár á hún sviðið fyrir Aserbaídsjan.

AZERBAIJAN
AZERBAIJAN

PORTÚGAL

Lag: Amar pelos dois
Flytjandi: Salvador Sobral
Portúgal hefur keppt í Eurovison 48 sinnum og hæst komist í sjötta sæti. Salvador er eini flytjandinn í fyrri undankeppninni sem flytur lag sitt á móðurmálinu, öll hin lögin eru flutt á ensku. Salvator lærði djass í Barcelona og tók þátt í portúgölsku útgáfunni af Pop Idols, Idolos, þar sem hann lenti í sjöunda sæti.

PORTÚGAL
PORTÚGAL

GRIKKLAND

Lag: This is love
Flytjandi: Demy
Grikkland hefur tekið þátt 37 sinnum og unnið einu sinni, 2005. Dimitra Papadea, eða Demy, hóf feril sinn í tónlistarbransanum 2011 í samstarfi við hip hop-söngvarann Midenistis, síðan hefur hún gefið út tvær plötur og 15 smáskífur sem allar hafa átt vinsældum að fanga í heimalandi hennar. Auk söngsins leggur Demy stund á nám við lagaskólann í Aþenu.

GRIKKLAND
GRIKKLAND

PÓLLAND

Lag: Flashlight
Flytjandi: Kasia Moś
Pólland hefur tekið þátt 19 sinnum og hæst komist í annað sæti.
2011 ferðaðist Kasia til Bandaríkjanna þar sem henni bauðst að ganga til liðs við sýningarhópinn Pussycat Dolls Burlesque Revenue og 2012 varð hún í þriðja sæti í pólsku útgáfunni af Must Be the Music. Kasia hefur unnið með listamönnum á borð við Kelly Osbourne, Mya og Carmen Electra. Hún hefur tvisvar áður freistað þess að keppa fyrir hönd heimalandsins í Eurovision, 2006 og 2016, en allt er þegar þrennt er og í ár er hún fulltrúi Póllands.

PÓLLAND
PÓLLAND

MOLDÓVA

Lag: Hey Mamma
Flytjandi: SunStroke Project
Moldóva hefur tekið þátt 12 sinnum og hæst komist í sjötta sæti. Þetta er í annað sinn sem hljómsveitin SunStroke Project keppir fyrir Moldóvu í Eurovision en hún keppti einnig 2010 og lenti þá í 22. sæti. Hún reyndi einnig fyrir sér í keppni í heimalandinu 2009, 2012 og 2015, en hafði þá ekki erindi sem erfiði.

MOLDÓVA
MOLDÓVA

ÍSLAND

Lag: Paper
Flytjandi: Svala
Ísland hefur tekið þátt 29 sinnum síðan við hófum keppni 1986, tvisvar höfum við ekki getað keppt, 1998 og 2002, þar sem við komumst ekki upp úr undankeppninni árið áður. Besti árangur Íslands er annað sætið, í tvígang, Selma með All Out of Luck 1999 og Jóhanna með Is It True? 2009. Hingað til er Ísland eina Norðurlandaþjóðin sem hefur ekki unnið Eurovision. Svala hefur sungið frá því hún var barnung og söng fyrst inn á plötu sjö ára þar sem hún söng bakraddir hjá föður sínum, Björgvini Halldórssyni. Árið 2006 stofnaði hún hljómsveitina Steed Lord ásamt eiginmanni sínum og bróður hans.

ÍSLAND
ÍSLAND

TÉKKLAND

Lag: My Turn
Flytjandi: Martina Bárta
Tékkland hefur tekið þátt fimm sinnum og aðeins einu sinni komist upp úr undankeppninni og endaði þá í 25. sæti.
Martina spilar á horn, lærði djass í Listaskólanum í Berlín, hefur komið fram í söngleiknum Robin Hood, hún spilar með djasshljómsveitinni J.Jjazzmen og hefur samið djasssöngleik.

TÉKKLAND
TÉKKLAND

KÝPUR

Lag: Gravity
Flytjandi: Hovig
Kýpur hefur tekið þátt 33 sinnum og hæst komist í fimmta sæti. Hovig hefur tvisvar áður reynt að vera fulltrúi heimalandsins í Eurovision, 2010 og 2015.

KÝPUR
KÝPUR

ARMENÍA

Lag: Fly With Me
Flytjandi: Artsvik
Armenía hefur tekið þátt tíu sinnum og hæst komist í fjórða sæti. Artsvik keppti í Golos 2013, rússnesku útgáfunni af The Voice.

ARMENÍA
ARMENÍA

SLÓVENÍA

Lag: On My Way
Flytjandi: Omar Naber
Slóvenía hefur tekið þátt 22 sinnum og komist upp úr undankeppni 12 sinnum, hæst komist í sjöunda sæti.
Omar vann Bitka talentov 2005, slóvensku útgáfuna af Battle of the Talents og keppti í Eurovision sama ár með eigið lag, þá komst hann ekki upp úr undankeppninni. Hann tók síðan þátt í keppninni heima fyrir aftur 2009, 2011 og 2014 án árangurs, en sigraði loksins í ár aftur með eigið lag.

SLÓVENÍA
SLÓVENÍA

LETTLAND

Lag: Line
Flytjandi: Triana Park
Lettland hefur tekið þátt 17 sinnum og unnið einu sinni 2002, þegar landið keppti í þriðja sinn.
Hljómsveitin Triana Park reyndi fimm ár í röð fyrir sér í keppninni í heimalandinu, 2008–2012. Hljómsveitin hefur gefið út átta lög og eina plötu og keppir nú loksins í Eurovision.

LETTLAND
LETTLAND

SERBÍA

Lag: In Too Deep
Flytjandi: Tijana Bogićević
Serbía hefur tekið þátt níu sinnum og vann 2007 í fyrsta sinn sem Serbía tók þátt. Hin 35 ára gamla Tijana er búsett í Bandaríkjunum og söng bakraddir í framlagi Serbíu 2011. Einnig keppti hún í keppninni í heimalandinu 2009.

SERBÍA
SERBÍA

AUSTURRÍKI

Lag: Running on Air
Flytjandi: Nathan Trent
Austurríki hefur tekið þátt 49 sinnum og unnið tvisvar. Nathan gaf sitt fyrsta lag út 2016. Hann var valinn sem fulltrúi Austurríkis í Eurovision, en var einnig valinn sem einn af 33 söngvurum til að taka þátt í Unser Song 2017, sem er þýska undankeppnin. Þar var honum sjálfkrafa vísað frá þar sem reglur Eurovision leyfa keppanda aðeins að vera fulltrúi einnar þjóðar.

AUSTURRÍKI
AUSTURRÍKI

Mynd: Martin HauserPhotography

MAKEDÓNÍA

Lag: Dance Alone
Flytjandi: Jana Burčeska
Makedónía hefur tekið þátt 16 sinnum og í helming þeirra skipta komist upp úr undankeppni og hæst lent í tólfta sæti. Jana lenti í fimmta sæti 2010 í FYR Macedonial Idol og sama ár var hún sendiherra UNICEF og barðist gegn ofbeldi í skólum. Hún tók þátt í undankeppnum í heimalandinu 2012, 2013 og 2015 og var núna loksins valin sem fulltrúi Makedóníu.

MAKEDONÍA
MAKEDONÍA

MALTA

Lag: Breathlessly
Flytjandi:Claudia Faniello
Malta hefur tekið þátt 29 sinnum og hæst lent í öðru sæti. Claudia hefur frá 12 ára aldri tekið þátt í hinum ýmsu sjónvarpsþáttum og hátíðum. Hún gaf út plötu 2010 og hefur einnig gefið út 15 smáskífur. Hún hefur margoft reynt að vinna undankeppnina í heimalandinu, árlega 2006–2013 og svo nú í ár, þegar sigur náðist loksins.

MALTA
MALTA

RÚMENÍA

Lag: Yodel It!
Flytjandi: Ilinca feat. Alex Florea
Rúmenía hefur tekið þátt 17 sinnum og hæst lent í þriðja sæti. Hin 18 ára gamla Maria Ilinca er söngkona og jóðlari og landsþekkt í Rúmeníu fyrir jóðlið. Alex lærði fjölmiðlafræði, en gaf hana upp á bátinn og tók þátt í Vocea Romaneim þar sem hann komst í úrslit.

RÚMENÍA
RÚMENÍA

HOLLAND

Lag: Lights & Shadows
Flytjandi: OG3NE
Holland hefur tekið þátt 57 sinnum og unnið fjórum sinnum. Stúlknasveitina OG3NE skipa þrjár systur, Lisa, Amy og Shelley, og eru þær tvær síðastnefndu eineggja tvíburar. Árið 2007 kepptu þær fyrir Holland í Eurovision-söngvakeppni barna og 2014 unnu þær The Voice of Holland og uppskáru plötusamning hjá EMI. Þær eru fyrsta tríóið til að vinna Voice-keppni hvar sem er í heiminum.

HOLLAND
HOLLAND

Mynd: Robin Kamphuis

UNGVERJALAND

Lag: Origo
Flytjandi: Joci Pápai
Ungverjaland hefur tekið þátt 14 sinnum og hæst lent í fjórða sæti. Joci heillaðist snemma af tónlist þar sem eldri bróðir hans byrjaði að læra á gítar fjögurra ára gamall. Joci kom fyrst fram á sjónarsviðið 2005 þegar hann tók þátt í Megazstar og hefur hann þegar gefið út nokkrar plötur.

UNGVERJALAND
UNGVERJALAND

DANMÖRK

Lag: Where I Am
Flytjandi: Anja
Danmörk hefur tekið þátt 45 sinnum og þrisvar unnið. Anja fæddist og ólst upp í Ástralíu á búgarði foreldra sinna. Árið 2008 komst hún í úrslit Australia’s Got Talent aðeins 12 ára gömul. Eftir það kom hún fram í fjölda sjónvarpsþátta og kom til greina sem keppandi fyrir hönd Ástralíu 2015. Núna keppir hún hins vegar fyrir Danmörku, heimaland foreldra sinna.

DANMÖRK
DANMÖRK

ÍRLAND

Lag: Dying To Try
Flytjandi: Brendan Murray
Írland hefur tekið þátt 50 sinnum og er sigursælasta þjóð Eurovision, með sjö sigra, þar af þrjú ár í röð 1992–1994 og svo tók Írland árspásu og vann síðan aftur 1996. Brendan er fyrrverandi meðlimur strákabandsins Hometown, sem átti velgengni að fagna í heimalandinu 2014–2015. Árið 2016 tilkynntu þeir hins vegar að þeir hygðust taka sér pásu um óákveðinn tíma.

ÍRLAND
ÍRLAND

SAN MARÍNÓ

Lag: Spirit of the Night
Flytjandi: Valentina Monetta & Jimmie Wilson
San Marínó hefur tekið þátt sjö sinnum og aðeins einu sinni komist upp úr undankeppninni og endaði þá í 24. sæti. Valentina tekur í fjórða sinn þátt í keppninni fyrir San Marínó. Hún, ásamt tveimur öðrum keppendum, á því þátttökumet kvenna í Eurovision. Bandaríski söngvarinn og leikarinn Jimmie lagði stund á leiklist í Hollywood. Eftir að hann flutti til Evrópu lék hann meðal annars hlutverk Barack Obama í söngleiknum Hope – Das Obama Musical! í Þýskalandi.

SAN MARINÓ
SAN MARINÓ

KRÓATÍA

Lag: My Friend
Flytjandi: Jacques Houdek
Króatía hefur tekið þátt 22 sinnum og hæst lent í fjórða sæti. Jacques er einn af þjálfurum króatíska The Voice. Hann hefur gefið út fjöldann allan af plötum og efni sem náð hefur silfur-, gull- og platínusölu. Hann hefur hljóðritað lög á fjölda tungumála, meðal annars ensku, ítölsku, frönsku, slóvensku og tungumáli maóría.

KRÓATÍA
KRÓATÍA

NOREGUR

Lag: Grab The Moment
Flytjandi: JOWST & Aleksander Walmann
Noregur hefur tekið þátt 55 sinnum og þrisvar unnið. Joakim eða JOWST gaf sitt fyrsta lag út 2016, en hann er lærður tónlistarframleiðandi. Aleksander tók þátt í norska The Voice 2012 þar sem hann lenti í öðru sæti. Hann hefur meðal annars unnið fyrir Universal Music.

NOREGUR
NOREGUR

SVISS

Lag: Apollo
Flytjandi: Timebelle
Sviss hefur tekið þátt 57 sinnum og tvisvar unnið. Hljómsveitin Timebelle var upphaflega strákaband, en síðan gekk söngkonan Miruna til liðs við sveitina. Sveitin lenti í öðru sæti í undankeppninni í heimalandinu 2015, en í ár vann hún með yfir 50 prósentum atkvæða.

SVISS
SVISS

HVÍTA-RÚSSLAND

Lag: Historyja majho žyccia
Flytjandi: NAVI
Hvíta-Rússland hefur tekið þátt 13 sinnum og aðeins fjórum sinnum komist upp úr undankeppni og endaði þá hæst í sjötta sæti. Hljómsveitin NAVI syngur á móðurmálinu, en hún gaf sína fyrstu plötu út 2014.

HVÍTA-RÚSSLAND
HVÍTA-RÚSSLAND

BÚLGARÍA

Lag: Beautiful Mess
Flytjandi: Kristian Kostov
Búlgaría hefur tekið þátt 10 sinnum og aðeins tvisvar komist upp úr undankeppni og endaði þá hæst í fjórða sæti. Hinn 17 ára gamli Kristian tók þátt í barnaútgáfu Golos (The Voice) í Rússlandi þar sem leiðbeinandi hans var Dima Bilan sem vann Eurovision 2008. Kristian tók einnig þátt í búlgörsku útgáfu X Factor þar sem hann lenti í öðru sæti. Hann gaf sitt fyrsta lag síðan út í fyrra.

BÚLGARÍA
BÚLGARÍA

LITHÁEN

Lag: Rain of Revolution
Flytjandi: Fusedmarc
Litháen hefur tekið þátt 17 sinnum og hæst lent í sjötta sæti. Elektróníska hljómsveitin Fusedmarc var stofnuð 2004, en auk þess að semja tónlist og flytja sér sveitin um að skipuleggja árlega tónlistarhátíð, Subject.

LITHÁEN
LITHÁEN

EISTLAND

Lag: Verona
Flytjandi: Koit Toome & Laura
Eistland hefur tekið þátt 22 sinnum og einu sinni unnið. Koit keppti í Eurovision 1998 þar sem hann endaði í 12. sæti, sama ár gaf hann út sína fyrstu plötu. Árið 2007 vann hann Dancing With The Stars. Hann hefur einnig talsett teiknimyndir og er til dæmis rödd Lightning McQueen í Disney-teiknimyndinni Cars. Laura tók fyrst þátt í undankeppninni í heimalandinu 2005 þar sem hún lenti í öðru sæti sem sólóisti, en vann og keppti í Eurovision sem hluti af hljómsveitinni Suntribe. Þau komust þó ekki upp úr undankeppninni og enduðu í 20. sæti. Hún hefur reynt nokkrum sinnum til viðbótar að vinna keppnina heima fyrir, en ekki haft erindi sem erfði þar til núna.

EISTLAND
EISTLAND

ÍSRAEL

Lag: I Feel Alive
Flytjandi: Imri Ziv
Ísrael hefur tekið þátt 39 sinnum og þrisvar unnið. Imri tók þátt í ísraelska The Voice og söng bakraddir í framlagi Ísrael 2015 og 2016.

ÍSRAEL
ÍSRAEL

ÍTALÍA

Lag: Occidentali’s Karma
Flytjandi: Francesco Gabbani
Ítalía hefur tekið þátt 42 sinnum og unnið tvisvar. Francesco gaf fyrstu plötu sína út 2013, keppti í Sanremo Music Festival 2016 með eigið lag, Amen, og vann. Lagið var gefið út á annarri plötu hans sem varð platínuplata á Ítalíu.

ÍTALÍA
ÍTALÍA

SPÁNN

Lag: Do It For Your Lover
Flytjandi: Manel Navarro
Spánn hefur tekið þátt 56 sinnum og unnið tvisvar. Manel kom fyrst fram á sjónarsviðið þegar hann vann Catalunya Teen Star 2014 og sama ár gaf hann út sína fyrstu plötu. Árið 2016 gaf hann út lagið Candle undir merkjum Sony og komst lagið í annað sæti vinsældalista á Spáni.

SPÁNN
SPÁNN

BRETLAND

Lag: Never Give Up On You
Flytjandi: Lucie Jones
Bretland hefur tekið þátt 59 sinnum og er á meðal sigursælustu þjóða keppninnar með fimm sigra. Lucie lenti í áttunda sæti í X Factor UK 2009. Eftir þátttöku í þeirri keppni hóf hún störf sem fyrirsæta. Þrátt fyrir að vera aðeins 25 ára á hún langan leiklistarferil að baki og hefur meðal annars leikið í Vesalingunum á West End í London, auk þess að leika í fleiri verkum á sviði og í sjónvarpi.

BRETLAND
BRETLAND

ÞÝSKALAND

Lag: Perfect Life
Flytjandi: Levina
Ekkert annað land hefur tekið þátt jafn oft í Eurovision og Þýskaland sem hefur aðeins einu sinni misst setið hjá, 1996. Þrátt fyrir það hefur Þýskaland aðeins unnið tvisvar, 1982 og 2010. Levina skiptir tíma sínum milli Berlínar og London þar sem hún leggur stund á tónlistarstjórn við tónlistarháskólann í London.

ÞÝSKALAND
ÞÝSKALAND

FRAKKLAND

Lag: Requiem
Flytjandi: Alma
Frakkland hefur tekið þátt 59 sinnum og unnið fimm sinnum. Frakkar syngja að vanda á frummálinu og það er söngkonan Alma sem flytur lagið í ár. Alma gaf út sína fyrstu plötu 2016, en hún útskrifaðist úr hagfræði áður en hún hóf tónlistarferilinn.

FRAKKLAND
FRAKKLAND

ÚKRAÍNA

Lag: Time
Flytjandi: O.Thorvald
Úkraína hefur tekið þátt þrettán sinnum og unnið tvisvar. Það er fimm manna hljómsveitin O. Thorvald sem flytur framlag Úkraínu í ár, en sveitin hefur starfað síðan 2005 og gaf út sína fyrstu plötu af sjö árið 2008.

ÚKRAÍNA
ÚKRAÍNA
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fókus
Fyrir 2 dögum

Pálmi Gunnarsson segist hafa nánast drukkið sig í hel: „Stálheppinn að vera á lífi“

Pálmi Gunnarsson segist hafa nánast drukkið sig í hel: „Stálheppinn að vera á lífi“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Skoðun móður um að það sé ofbeldi að kitla börn skiptir fólki í fylkingar

Skoðun móður um að það sé ofbeldi að kitla börn skiptir fólki í fylkingar
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Kynlífið var frábært þegar eiginkona mín var vændiskona – en hún hefur ekki lengur áhuga“

„Kynlífið var frábært þegar eiginkona mín var vændiskona – en hún hefur ekki lengur áhuga“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Skemmtilegar myndir af hávöxnu fólki og lágvöxnum vinum þeirra

Skemmtilegar myndir af hávöxnu fólki og lágvöxnum vinum þeirra
Fókus
Fyrir 4 dögum

Steindi Jr. fékk nikótíneitrun eftir ofnotkun rafrettupenna – „Fékk ógeðslega háan hita og varð grár í framan“

Steindi Jr. fékk nikótíneitrun eftir ofnotkun rafrettupenna – „Fékk ógeðslega háan hita og varð grár í framan“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sigurbjörn glímir við krabbamein og fékk nýjar fréttir í dag – „Takk fyrir að standa með mér, kæru vinir“

Sigurbjörn glímir við krabbamein og fékk nýjar fréttir í dag – „Takk fyrir að standa með mér, kæru vinir“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Vikan á Instagram: „Bara tilgangslaus sjálfsmynd“

Vikan á Instagram: „Bara tilgangslaus sjálfsmynd“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Hjákonan varð ólétt eftir mig

Hjákonan varð ólétt eftir mig