fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Bandaríkjaforsetar á Íslandi

Johnson klifraði upp á grindverk – Clinton fékk sér pylsu í miðbænum

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 1. janúar 2016 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Allt frá árum heimsstyrjaldarinnar síðari hafa Bandaríkin og Íslands átt með sér náin tengsl og Íslendingar verið meðal traustustu bandamanna Bandaríkjamanna. Þrír forsetar þessarar stórþjóðar hafa sótt Ísland heim, meðan þeir voru í embætti og þrír aðrir hafa hingað komið ýmist áður en þeir tóku við embætti forseta eða eftir að þeir létu af embætti.

Soðin egg á Keflavíkurflugvelli

Laugardaginn 16. júlí 1955 hafði Dwight Eisenhower rúmlega tveggja klukkustunda viðdvöl á Keflavíkurflugvelli á leið sinni til Genfar. Eisenhower hafði áður komið hingað til lands og þá sem yfirhershöfðingi Atlantshafsbandalagsins. Það var í janúar 1951, en þá átti hann viðræður við Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra.

Í þetta sinn tók forseti Íslands, herra Ásgeir Ásgeirsson, á móti hinum bandaríska starfsbróður sínum, auk Ólafs Thors forsætisráðherra og fleiri ráðherra. Forsetarnir fluttu stutt ávörp skömmu eftir lendingu vélarinnar og því næst lék lúðrasveit þjóðsöngva landanna. Þá fór fram liðskönnun ameríska hervarðarins og íslenska lögregluliðsins. Að því loknu var stigið upp í bifreiðar, ekið á samkomustað yfirmanna herliðsins á Keflavíkurflugvelli og sest að veisluborði, en boðið var upp á soðinn lax í smjörsósu og soðin egg.

„Hann var hlýr maður á sinn hátt og sjarmerandi," sagði Vigdís.
Vigdís Finnbogadóttir tekur á móti Ronald Reagan á Bessastöðum „Hann var hlýr maður á sinn hátt og sjarmerandi," sagði Vigdís.

Johnson klifrar upp á grindverk

Í septembermánuði 1963 kom Lyndon B. Johnson, varaforseti Bandaríkjanna, hingað í opinbera heimsókn ásamt konu sinni Lady Bird og dóttur þeirra, Lyndu Bird. Flugvél þeirra lenti á Keflavíkurflugvelli en þaðan voru þau flutt með þyrlu til Bessastaða. Þar afhenti herra Ásgeir Ásgeirsson Johnson forláta silfurhorn, en Johnson þakkaði fyrir sig með miklum og haglegum kortaskáp.

Johnson átti þvínæst fund með ríkisstjórninni í Stjórnarráðinu. Eftir fundinn afhenti Johnson sérhverjum ráðherra forláta vindlakveikjara, sem hann dró upp úr frakkavasa sínum og mælti: „And here is one for you, and one for you, – and you too.“ Er varaforsetinn kom út hafði nokkur mannfjöldi safnast saman á Lækjartorgi. Johnson brá því á það ráð að klifra upp á grindverkið fyrir framan Stjórnarráðið og hélt stutta ræðu. Hann veifaði til mannfjöldans sem stóð í Bankastræti og sagði: „Come closer.“ – Og benti mönnum á að koma nær. Fólk þyrptist að og Johnson flutti ræðu styrkri röddu um vináttu þjóðanna og þau umræðuefni sem borið hafði á góma á fundi með ráðherrunum – nauðsyn þess að stuðla að friði og binda enda á kjarnorkukapphlaupið. Viðstaddir hrópuðu margsinnis húrra fyrir varaforsetanum.

Vel fór á með þeim á blaðamannafundi á Bessastöðum.
George Bush og Ólafur Ragnar Vel fór á með þeim á blaðamannafundi á Bessastöðum.

Rjómapönnukökur á Blikastöðum

Á sama tíma var dóttir varaforsetans gestur Háskóla Íslands. Stúdentar afhentu henni blómvönd og rokk. Er Lynda tók við rokknum sagði hún þetta alveg eins og rokk ömmu hennar. Þvínæst snæddi hún hádegisverð í Stúdentakjallaranum. Lady Bird, móðir hennar, hélt aftur á móti í boð með íslenskum konum í ameríska sendiráðinu og heimsótti því næst Blikastaði í Mosfellssveit. Þar snæddi hún rjómapönnukökur með Ingólfi Jónssyni landbúnaðarráðherra og konum úr stjórn Kvenfélags Lágafellssóknar. Að skilnaði gaf Lady Bird Helgu Magnúsdóttur húsfreyju vindlingaöskju með mynd af sér og fjölskyldu sinni á lokinu.

Forsætisráðherrahjónin héldu varaforsetahjónunum kvöldverðarboð á Hótel Borg, en að því loknu fluttu þyrlur gestina til Keflavíkur. Tveimur mánuðum síðar var John F. Kennedy myrtur og Johnson tók við sem forseti.

Eins og frægt er orðið fékk hann sér pylsu á Bæjarins bestu og sú var með sinnepi.
Bill Clinton í miðbænum Eins og frægt er orðið fékk hann sér pylsu á Bæjarins bestu og sú var með sinnepi.

„Dálítið nefþykkur“

„Hann var alveg eins og ég átti von á, að vísu dálítið nefþykkur, en annars bara eins og almúgafólk, og mjög almennilegur.“ Svo fórust Guðrúnu Jónsdóttur orð í samtali við Morgunblaðið árið 1973, en hún var þá 78 ára gömul og bjó gegnt bandaríska sendiráðinu við Laufásveg. Hér átti hún við Richard M. Nixon Bandaríkjaforseta sem þá dvaldi á Íslandi og átti fund með George Pompidou Frakklandsforseta, en umræðuefni forsetanna var nýr Atlantshafssáttmáli. Líkt og Johnson, áratug fyrr, var Nixon alþýðlegur fasi og hafði gengið yfir götuna til að heilsa upp á Guðrúnu, nágranna sendiráðsins.

Nixon tók fleiri Íslendinga tali á förnum vegi. Fyrsta kvöldið hér á landi fór hann í óvænta miðnæturgöngu og rölti niður með Fríkirkjunni frá bandaríska sendiráðinu við Laufásveg, en aðeins tveir öryggisverðir fylgdu honum og tveir íslenskir lögregluþjónar. Nixon heilsaði upp á alla sem á vegi hans urðu, sérstaklega börn. Allir tóku honum vel nema einn maður sem var við skál og þóttist eiga eitthvað vantalað við forseta Bandaríkjanna. Forsetinn gekk eftir Lækjargötu og upp Bankastræti og munaði minnstu að umferðaröngþveiti yrði í miðbænum, svo mjög varð fólki starsýnt á forsetann.

Ekki þótti mikill árangur verða af leiðtogafundinum. Ári síðar neyddist Nixon til að segja af sér vegna Watergate-hneykslisins.

Klifraði upp á grindverk fyrir framan Stjórnarráðið til að halda ræðu.
Lyndon B. Johnson varaforseti Klifraði upp á grindverk fyrir framan Stjórnarráðið til að halda ræðu.

Veggteppi og laxveiðar

George Bush, varaforseti Bandaríkjanna, kom hingað til lands í júlí 1983 og átti fund með Steingrími Hermannssyni forsætisráðherra og Geir Hallgrímssyni utanríkisráðherra. Meðal umræðuefna var varnarsamstarf landanna.
Meðan á þessu gekk heimsótti Barbara, eiginkona varaforsetans, dvalarheimili aldraðra við Dalbraut með ráðherrafrúnum, Eddu Guðmundsdóttur og Ernu Finnsdóttur. Heimilsmenn færðu henni þar að gjöf handofið veggteppi. Þá skoðaði varaforsetafrúin sig um á Árbæjarsafni og sótti loks Halldór og Auði Laxness heim. Þvínæst skoðuðu varaforsetahjónin Þingvelli saman í fylgd séra Heimis Steinssonar þjóðgarðsvarðar.

George Bush er kunnur laxveiðimaður og var honum flogið með þyrlu Landhelgisgæslunnar að Þverá, þar sem varaforsetinn renndi fyrir lax og var ekki lengi að landa einum fagmannlega. Steingrímur Hermannsson var með í för og fékk annan skömmu síðar. Bush átti eftir landa fleiri löxum á Íslandi, þó löngu síðar yrði.

Leikhúsfólkið hittist

Heimsókn Ronalds Reagan 1986 er án efa frægasta heimsókn Bandaríkjaforseta hingað til lands, en hann átti þá fund hér með Mikhail Gorbachev Sovétleiðtoga. Frú Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, og Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra tóku á móti Reagan á Keflavíkurflugvelli í hávaðaroki. Þaðan var haldið beinustu leið á Bessastaði í kurteisisheimsókn.

Reagan og Vigdís höfðu hist áður og hann mundi eftir því að Vigdís átti sér fortíð í leikhúsi – rétt eins og hann. Gefum Vigdísi orðið: „Það var gott að spjalla við Reagan, hann var hlýr maður á sinn hátt og sjarmerandi.“ Hún minnist þess að ýmsar vinkvenna sinna hefðu safnað leikaramyndum með honum á yngri árum. Blaðamennirnir lokkuðu forsetana út á hlað og þar „sprönguðu þau um“ eins og Vigdís orðar það, hann í þykkum frakka og hún í rauðri kápu. Vigdís sagði við Reagan að hún vonaðist til að fundur leiðtoga stórveldanna bæri árangur – „það vonum við öll“ mælti hann þá og brosti.

Mikið hefur verið skrifað um leiðtogafundinn í Höfða 1986. Lyktir fundarins urðu flestum vonbrigði, en eftir því sem tíminn líður hefur mikilvægi Reykjavíkurfundarins aukist í hugum manna.

Umræðuefni forsetanna hér á landi var nýr Atlantshafssáttmáli.
Richard M. Nixon Bandaríkjaforseti og George Pompidou Frakklandsforseti. Umræðuefni forsetanna hér á landi var nýr Atlantshafssáttmáli.

Pylsa með sinnepi

Frá því að Reagan var hér hefur enginn Bandaríkjaforseti komið til landsins meðan hann sat í embætti. Tveir forsetar hafa aftur á móti heimsótt Ísland eftir að þeir létu af embætti.

Fyrrverandi forsetahjón Bandaríkjanna, Bill og Hillary Clinton, komu hingað til lands árið 2004 og héldu þá ásamt fylgdarliði til Þingvalla, þar sem Sigurður Líndal, fyrrverandi lagaprófessor, fræddi þau um sögu staðarins. Er þau höfðu gengið niður Almannagjá gaf Clinton sér tíma til að ræða við blaðamenn og sagði: „Mig hefur alltaf langað til að koma hingað“ og kvaðst hann þekkja vel sögu hins forna alþingis.

Mikið uppistand varð í miðbænum þegar Clinton rölti þar um, keypti íslenskt handverk og skoðaði verk Erró á Listasafni Reykjavíkur. Líkt og Nixon, rúmum þremur áratugum fyrr, spjallaði Clinton við vegfarendur. Var eftir því tekið hve „afslappaður“ hann var í framkomu, klæddur gallabuxum og peysu. Er hann gekk framhjá Bæjarins bestu kallaði María Einarsdóttir pylsusali til hans og spurði hvort hann vildi ekki prófa „heimsins bestu pylsur“. Clinton var nú heldur betur til í það. „Ég sagði að það væri í boði hússins þegar hann ætlaði að fara að borga. Hann vildi bara með sinnepi þegar upp var staðið,“ sagði María í blaðaviðtali.

Sérsmíðuð veiðistöng

Tveimur árum síðar kom George Bush eldri hingað til lands öðru sinni og var við laxveiðar með Orra Vigfússyni, formanni Verndarsjóðs villtra laxastofna. Áður en haldið var til veiða afhentu íslensku forsetahjónin honum sérsmíðaða íslenska veiðistöng, ásamt veiðihjóli.

Á blaðamannafundi upplýsti Bush að för hans væri heitið í Selá. Herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði að þar með hefði Bush ljóstrað upp leyndarmáli, því reynt hefði verið að halda því leyndu hvert för hans væri heitið. Ólafur tók fram að með þessari uppljóstrun fælist ekki boð til blaðamanna um að fylgjast með forsetanum fyrrverandi að veiðum og ekki er annað vitað en þeim tilmælum hafi verið fylgt.

Heimildir: Frásagnir dagblaðanna og bók Páls Valssonar: Vigdís. Kona verður forseti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Í gær

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi