fbpx
Miðvikudagur 04.október 2023
Fókus

Maðurinn minn vill skilnað og ég er niðurbrotin – Hvernig gerir fólk þetta?

Fókus
Sunnudaginn 6. júní 2021 20:30

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir fjölskyldumeðferðarráðgjafi svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem er niðurbrotinn vegna óvæntrar beiðni maka um skilnað.

Kristín Tómasdóttir

Kæra Kristín.

Maðurinn minn vill skilnað og ég er niðurbrotin. Þessi ákvörðun hans kom eins og þruma úr heiðskíru lofti og heimurinn minn hrundi á sömu sekúndunni. Ég kemst varla framúr rúminu, er með stanslausan kökk í hálsinum, skíthrædd, ofboðslega reið en um leið svo sár. Ég sé ekkert gott við þetta, mér líður eins og líf mitt sé búið og að fjölskyldan mín og barnanna minna sé ónýtt. Í alvörunni, hvernig gerir fólk þetta?

Kveðja.

 

Elsku hjartað, takk fyrir spurninguna!

Já, þetta er sárt, vont og ósanngjarnt. Ég veit að það huggar þig ekki neitt í augnablikinu, en ég ætla samt að segja þér það: „Þú getur þetta og þér mun líða betur”.

Að því sögðu máttu vita að það hafa margir gengið þennan veg með sárt ennið en einhverstaðar á leiðinni finna flestir hamingjuna á ný. Yfirleitt skilgreinum við skilnaðarferli sem u.þ.b. tveggja ára tímabil en þá er fólk oftast búið að ganga frá öllum praktískum málum, lífið farið að ganga sinn vanagang, börnunum farið að líða betur og yfirleitt hinum fráskildu líka. Þetta tveggja ára tímabil þarf alls ekki allt að vera leiðinlegt og erfitt en það gengur vissulega í bylgjum. Með þessa vitneskju bak við eyrað máttu búa þig undir tveggja ára brekku en í guðs bænum ekki útiloka það að lífið geti orðið gott á ný.

Aðstoð við að skilja fallega

Rannsóknir sýna að vellíðan barna mælist í flestum tilfellum nokkuð góð eftir tvö ár frá skilnaði og stundum meiri en hjá öðrum börnum þar sem foreldrar hafa ekki skilið. Ástæðan fyrir þessari vellíðan getur stafað af því að þau hafi upplifað mótlæti sem hefur styrkt þau eða að þeim hafi jafnvel orðið létt við skilnaðinn enda togstreitan á heimilinu minnkað. Sem sagt ekkert sem bendir til þess að líf barnanna þinna sé ónýtt og þið foreldrarnir getið gert ótal margt til þess að auðvelda þeim þetta ferli. Margir kíkja jafnvel til fjölskyldumeðferðarfræðings til þess að fá aðstoð við að skilja fallega, barnanna vegna.

Í þessari stöðu gæti verið bjargráð fyrir þig að búta nánustu framtíð niður í styttri tímabil. Byrjaðu á því að ákveða hvernig þú ætlar að koma þér framúr á morgnanna næstu þrjá dagana og reyndu að finna lítil trix til þess að minnka kökkinn í hálsinum. Þegar þú hefur fundið út úr því geturðu spyrnt betur við fótum til þess að takast á við næsta mánuðinn. Svona getur þú lagt vörður á leið þinni næstu mánuði og vittu til, þær munu koma þér í gegnum þetta. Að nokkrum mánuðum liðnum verður þú á allt öðrum stað.

Sterk sjálfsmynd skiptir máli

Allar formgerðarbreytingar í fjölskyldum marka mikilvæg tímabil í lífi fólks, þ.e. þegar fólk eignast börn, þegar fólk deyr, þegar fólk giftir sig og þegar fólk skilur. Nú ert þú að ganga í gegnum slíkt tímabil og þú veist ekki hvert það mun taka þig. Öll óvissa veldur kvíða og því gæti verið ráð að fylla upp í eyðurnar. Taktu ákvörðun um að leyfa þessu ferli að leiða þig á góðan stað. Settu þér markmið sem auka á vellíðan þína og hamingju.

Á Íslandi eru einstæðir foreldrar einstæðir í að meðaltali 2 ár. Mín tilfinning í starfi er að oft reynist þessi tími töluvert styttri.  Þó þú trúir því ekki í dag þá bendir öll tölfræði til þess að þú munir finna ástina á ný, en við vitum ekki hvenær. Á meðan þú bíður get ég sagt þér að sterk sjálfsmynd hefur sterkasta forspágildið um hamingju í framtíðinni og tveir einstaklingar með sterka sjálfsmynd eru líklegri til þess að falla fyrir hvort öðru og eiga í góðu ástarsambandi en aðrir. Það er því til mikils að vinna að nýta þetta mótlæti til þess að styrkja sjálfsmyndina. Hvað getur þú gert núna til þess að byggja þig upp? Hvað finnst þér eftirsóknavert í þínu fari og hvernig getur þú styrkt það? Hvernig upplifur þú þig og hvað þarf að lagast eða batna svo þú verðir sáttari? Þarna erum við að tala saman vinkona og nú er bara að bretta upp ermar og taka vel á móti því sem framtíðin hefur upp á að bjóða.

Það sagði enginn að það yrði auðvelt en þú munt rúlla þessu upp! Gangi þér vel og góða skemmtun.

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com.

Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

J.Lo og Ben Affleck virtust rífast eftir að hann sást í faðmlögum með fyrrverandi

J.Lo og Ben Affleck virtust rífast eftir að hann sást í faðmlögum með fyrrverandi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vikan á Instagram – „Klikkaðslega ástfangin“

Vikan á Instagram – „Klikkaðslega ástfangin“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Britney brjáluð út af afskiptum lögreglu af hnífadansinum – „Nú er nóg komið“

Britney brjáluð út af afskiptum lögreglu af hnífadansinum – „Nú er nóg komið“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Manstu eftir „fallegustu stúlku veraldar“? – Svona lítur hún út 12 árum seinna

Manstu eftir „fallegustu stúlku veraldar“? – Svona lítur hún út 12 árum seinna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hliðarspor fór úr böndunum – „Hún er kröfuhörð og óútreiknanleg“

Hliðarspor fór úr böndunum – „Hún er kröfuhörð og óútreiknanleg“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Grunaður morðingi Tupac Shakur handtekinn 27 árum eftir ódæðið

Grunaður morðingi Tupac Shakur handtekinn 27 árum eftir ódæðið