Bandaríski streymisrisinn Netflix er byrjaður að nota gervigreind til að aðstoða við að búa til sjónvarpsþætti. Fyrirtækið segir að það sé ekki gert til að spara.
Breska blaðið The Guardian greinir frá þessu.
Fyrstu þættir Netflix með gervigreind kallast El Eternauta, og eru vísindaskáldskaparþættir frá Argentínu.
„Við erum sannfærð um að gervigreind skapi frábær tækifæri til að hjálpa fólki að gera kvikmyndir og sjónvarpsþætti betri,“ sagði Ted Sarandos, aðstoðarforstjóri hjá Netflix, á ársfjórðungsfundi fyrirtækisins á fimmtudag.
Í þáttunum kljást söguhetjurnar við geislavirka snjóstorma. Gervigreindin var meðal annars notuð til þess að sýna byggingu í Buenos Aires hrynja.
Sarandos sagði að gervigreindin myndi vissulega spara fyrirtækinu mikinn pening í framleiðslunni en það sé ekki aðalástæðan.