fbpx
Sunnudagur 02.nóvember 2025
Fókus

Hugtakið „Stokkhólmsheilkenni“ byggir á röngu mati geðlæknis á aðstæðum í bankaráninu fræga

Fókus
Sunnudaginn 2. nóvember 2025 07:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flest höfum við heyrt um Stokkhólmsheilkennið, en það er hugtak sem vísar til jákvæðs tilfinningasambands gísls við gíslatökumann sinn.

Sænski geðlæknirinn Nils Bejerot skilgreindi hugtakið fyrstur manna árið 1973 eftir að hann aðstoðaði sænsku lögregluna að upplýsa bankarán sem var farið í Kreditbanken í Stokkhólmi það sama ár. Þar hélt bankaræninginn Janne Olsson, ásamt öðrum manni, þremur konum og einum karli í gíslingu í sex daga. Gíslarnir komu gíslatökumönnum sínum til varnar og neituðu að vitna gegn þeim fyrir dómi. Hugtakið er ekki á viðurkenndum listum yfir geðræn heilkenni eða einkenni. Sem er kannski ekki að undra enda reyndi einn gíslinn, Kristin Enmark, lengi að kveða hugtakið niður enda hafði hún enga samúð með Olsson heldur vildi umfram allt lifa raunina af.

„Ég trúði því að geðsjúklingur hefði komið inn í líf mitt. Ég taldi mig verða vitni að einhverju sem ætti bara að gerast í Bandaríkjunum,“ sagði Enmark í viðtali við The New Yorker árið 1974. Hún gaf síðar út bókina: Ég varð Stokkhólmsheilkennið, þar sem hún opnar sig um þessa erfiðu lífsreynslu.

Krafðist þess að fá frægan bankaræningja leystan úr haldi

„Allir á gólfið. Partýið er byrjað,“ öskraði bankaræninginn Janne Olsson þegar hann gekk inn í Kreditbanken þann 23. ágúst 1973. Hann var undir áhrifum fíkniefna og vopnaður vélbyssu. Skömmu síðar hófst gíslatakan sem átti eftir að vara næstu sex dagana.

Fyrir utan bankann var heill her af lögreglu- og fjölmiðlamönnum. Leyniskyttur höfðu komið sér fyrir á aðlægum byggingum. Olsson notaði tvo gísla sem mennskan skjöld og hótaði að drepa þá.

Enmark segir að hún og gíslarnir hafi upplifað sig milli steins og sleggju. Þau voru skíthrædd við bankaræningjann en ekki síður hrædd við vopnaða lögregluna.

Olsson krafðist 3 milljóna sænskra króna og einnig krafðist hann þess að einn frægasti bankaræningi Svíþjóðar, Clark Olofsson, yrði sendur inn í bankann.

Sænsk stjórnvöld vissu ekki sitt rjúkandi ráð og féllust á að senda Olofsson, sem sat í fangelsi á þessum tíma, inn í bankann.

Olofsson bjó yfir miklum persónutöfrum. Þegar hann mætti á vettvang tókst honum strax að ná tökum á aðstæðum og róa „kollega“ sinn Olsson.

Kristin Enmark leit á Olofsson sem bjargvætt.

„Hann lofaði að tryggja að ekkert kæmi fyrir mig og ég ákvað að trúa honum. Ég var 23 ára og óttaðist um líf mitt.“

Bankaræningjarnir fengu Enmark til að ræða við lögreglu í gegnum síma og hún kom þá sænsku þjóðinni að óvörum með því að koma ræningjunum til varna.

„Ég er ekkert hrædd við Clark og hinn gaurinn, ég er hrædd við lögregluna. Skiljið þið það? Ég treysti þeim algjörlega,“ sagði hún við forsætisráðherrann Olof Palme sem var á hinni línunni.

„Hvort sem þú trúir því eða ekki þá erum við búin að hafa það mjög fínt hérna,“ sagði hún enn fremur og tók fram að ræningjarnir og gíslarnir væru að stytta sér stundir með því að segja sögur og spila spil.

„Veistu hvað ég er hrædd um? Að lögreglan geri okkur eitthvað, ryðjist inn í bankann eða álíka.“

Gíslatökunni lauk á sjötta degi þegar lögreglan fleygði gasi inn í bankann sem þvingaði Olsson og Olofsson til að gefast upp.

Hvorki ást né losti

Geðlæknirinn Nils Bejerot var á vettvangi en honum hafði verið falið að greina hegðun ræningjanna og gíslanna. Það var hann sem fann upp á Stokkhólmsheilkenninu. Hann sagði að kvenkyns gíslarnir væru að hegða sér eins og á þær hefðu verið lögð álög, eins og þær hefðu verið heilaþvegnar. Hann beindi spjótum sínum sérstaklega að Enmark og taldi hana ástfanga af Olofsson.

„Það var hvorki ást né losti þarna að minni hálfu. Hann var tækifærið mitt til að lifa þetta af og verndaði mig frá Janne [Olsson].“

Enmark segir að síðar hafi gíslarnir neitað að bera vitni, ekki til að verja ræningjana, heldur til að mótmæla framgöngu lögreglunnar sem þau upplifðu að hefði stefnt lífum þeirra í enn meiri hættu.

Aðrir geðlæknar hafa þó hafnað þessari kenningu Bejerot. Gíslarnir voru ekki undir neinum álögum heldur var um varnarviðbragð að ræða. Viðbragðið er gjarnan kallað fleðruskapur og í því felst að einstaklingur reynir að friðþægja eða geðjast manneskju, sem er með einhvers konar ógnarvald yfir sér, til að forðast skaða.

Til gamans má þó geta að Enmark varð seinna ástfangin af Olofsson, en það er önnur saga og gerðist ekki fyrr en nokkrum árum eftir bankaránið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Einn sögufrægasti áningarstaður landsins kominn á sölu – Eigendur stefna á ný mið

Einn sögufrægasti áningarstaður landsins kominn á sölu – Eigendur stefna á ný mið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vill losna við Scott úr lífi sínu og raunveruleikaþáttunum – Íhugar að setja fjölskyldu sinni afarkosti

Vill losna við Scott úr lífi sínu og raunveruleikaþáttunum – Íhugar að setja fjölskyldu sinni afarkosti
Fókus
Fyrir 5 dögum

Augu Kristínar opnuðust á föstudaginn: Sorgmædd þegar hún leit út um gluggann og sá hver kom út úr stigaganginum

Augu Kristínar opnuðust á föstudaginn: Sorgmædd þegar hún leit út um gluggann og sá hver kom út úr stigaganginum
Fókus
Fyrir 5 dögum

Sjötugur og faðir í áttunda sinn

Sjötugur og faðir í áttunda sinn
Fókus
Fyrir 6 dögum

Myndaveisla: Áhrifavaldar á næturvakt

Myndaveisla: Áhrifavaldar á næturvakt
Fókus
Fyrir 6 dögum

Birta Líf klæddi sig upp sem Gugga í gúmmíbát: „BIRTA, ERU ÞAU EKTA?!“

Birta Líf klæddi sig upp sem Gugga í gúmmíbát: „BIRTA, ERU ÞAU EKTA?!“