

Öll voru þau mætt í 70 ára afmælisfögnuð Kris Jenner á dögunum og birti Kim fjölda mynda úr veislunni á Instagram-síðu sinni. Á einni þeirra sást hún stilla sér upp með Meghan á meðan Harry var í bakgrunni og á annarri sást aftan á Jenner þar sem hún var að spjalla við Meghan.
Netverjar tóku hins vegar eftir því í gær að búið var að fjarlægja þessar myndir og skapaðist fjörug umræða um málið á Reddit þar sem fólk velti fyrir sér ástæðunni.
Daily Mail fjallar um málið og segist hafa sent fyrirspurn á talsmann Kim Kardashian en enn sem komið er hafi ekkert svar borist.
„Af hverju að eyða myndunum? Við vitum að þau voru þarna,“ segir enn netverji. Annar bendir á að Internetið gleymi engu. „Dálítið skrýtið að þiggja boð í svona veislu en vilja síðan ekki að myndir séu birtar af þér úr veislunni,“ segir annar og ýjar að því að Meghan og Harry hafi haft samband við Kim og beðið hana um að fjarlægja myndirnar.
Mikið var um dýrðir í afmælisveislunni sem haldin var í glæsivillu Jeff Bezos og eiginkonu hans, Lauren Sanchez, í Beverly Hills.