Davíð hefur unnið við kvikmyndagerð og ljósmyndun í yfir áratug.
Fyrir átta mánuðum síðan var hann lagður inn á sjúkrahús með hættulega háan fjölda af hvítum blóðkornum. Fyrst héldu læknar að þetta væri hjarta Davíðs. Síðan töldu þeir þetta vera krabbamein, svo hvítblæði en þeir vita ekki með vissu hvað er að hrjá hann. „Meira að segja núna hafa þeir ekki almennileg svör,“ segir hann í pistli á Instagram sem hann gaf DV góðfúslegt leyfi að deila áfram.
Yfir sex mánaða tímabil fór Davíð í alls konar rannsóknir. „En við það vöknuðu bara fleiri spurningar. Ég prófaði endalaust af lyfjum,“ segir hann.
„Ég fór í gegnum tvær lyfjameðferðir, missti hárið og fylgdist með ónæmiskerfinu mínu hverfa.
Síðan kom að stofnfrumu beinmergsígræðslu, aðgerð sem getur breytt lífi fólks og er í sumum tilfellum banvæn. Þetta var það erfiðasta sem ég hef gert, þetta braut mig niður líkamlega en ekki andlega.
Síðastliðna mánuði hef ég verið að læra að lifa lífinu aftur, eins og það var áður en ég varð veikur. Ég er ekki læknaður en mér finnst ég heilbrigður, ég er bæði sterkur og vongóður. Ég mun sigrast á þessu.
Strákur gekk inn í meðferðina á sjúkrahúsinu í Svíþjóð en það var maður sem gekk þar út.“
Davíð segist vera tilbúinn í árið 2025 en hann á von á dreng í janúar, ári síðan þetta allt saman byrjaði. „Mér líður eins og nýrri manneskju, tilbúinn fyrir hvað sem lífið hefur upp á að bjóða, það góða og það slæma,“ segir hann.
„Þvílík saga sem ég mun segja [syni mínum] einn daginn, hvernig pabbi hans barðist til að vera hérna fyrir hann og mömmu hans.“
Að lokum þakkar hann fjölskyldu og vinum fyrir stuðninginn og hvetur fólk til að taka ekki lífinu sem sjálfsögðum hlut og lifa því, núna.
Ef þú sérð ekki færsluna hér að neðan smelltu hér eða prófaðu að endurhlaða síðuna.
View this post on Instagram
Davíð birti einnig einlægt myndband frá árinu á TikTok.
„Árið mitt fór alls ekki eins og ég hefði viljað. Ég vildi óska þess að ég hefði verið ótrúlega upptekinn í verkefnum, verið á fullu í ræktinni, ferðast um heiminn og verið að gera allt það sem 26 ára einstaklingar eiga að vera að gera. En í staðinn fékk ég svakalegt verkefni í fangið, eitthvað sem myndi gjörsamlega breyta sýn minni á lífið. Alvarleg veikindi og allt það sem því fylgir.
Ég stóð frammi fyrir tveimur valkostum. Gefast upp, fela mig undir sæng og láta óttann taka yfir eða horfast í augu við veikindin og berjast af fullu afli, þangað til að ég stæði uppi sem sigurvegari.“
Horfðu á myndbandið hér að neðan.
@davidgodiiErfiðasta árið til þessa ❤️♬ original sound – Davíð Goði