Leikarinn, sem er 38 ára, er talinn hafa verið staddur í Skotlandi vegna eiginkonu sinnar, Miu Goth, sem er þar við tökur á nýrri Frankenstein-mynd.
Á myndbandi sem Daily Mail birti sést leikarinn kasta af sér derhúfunni og lyfta hnefunum og hvetja að minnsta kosti einn ungan mann til að koma og slást við sig. Ekki er vitað hvað varð til þess að upp úr sauð en sem betur fer kom ekki til slagsmála að þessu sinni.
Atvikið átti sér stað á laugardagskvöld og segir starfsmaður á bar í hverfinu að leikarinn hafi verið þar einnig á föstudagskvöld og verið kurteis og almennilegur.
Þetta er samt ekki í fyrsta sinn sem leikarinn kemur sér í fréttirnar vegna vafasamrar hegðunar. Árið 2014 var hann handtekinn fyrir að trufla sýningu á söngleiknum Cabaret á Broadway í New York. Þá var hann handtekinn árið 2017 fyrir að sýna ógnandi tilburði í garð lögregluþjóns og árið 2020 var hann kærður fyrir líkamsárás í Los Angeles. Þá sakaði fyrrverandi kærasta hans, tónlistarkonan FKA Twigs, hann um líkamsárás og kynferðislegt ofbeldi meðan á sambandi þeirra stóð.