„Við félagarnir ákváðum að sameina nú krafta okkar á jólavertíðinni með stórskemmtilegri sýningu í nóvember og desember sem ber heitið Vitringarnir 3. Þetta er grín, grúv og gæsahúð,“ segir Friðrik Ómar Hjörleifsson. Óhætt er að segja að það hafi náð athygli landans en nú þegar eru rúmlega 11 þúsund miðar seldir og enn rúmlega þrír mánuðir til jóla.
Vinirnir, skemmtikraftarnir og söngvararnir Friðrik Ómars, Eyþór Ingi Gunnlaugsson og Jógvan Hansen hafa slegið nýtt aðsóknarmet í Hofi á Akureyri með jólatónleika sína sem Vitringarnir 3. Þeir félagar slá metið með því að bjóða upp á sjö tónleika í höfuðstað Norðurlands á einni helgi 5 .- 8. desember. Fyrra tónleikametið átti tónleikaröðin Heima um jólin sem var með sex sýningar á einni helgi í fyrra samkvæmt upplýsingum frá Menningarhúsinu Hofi.
Drengina þarf vart að kynna en Friðrik Ómar segir að þeir séu skemmtilega ólíkir, allskonar og hinsegin. Umfram allt eru þeir stórstjörnur í Klakksvík í Færeyjum og á Dalvík.
Fyrir stuttu frumsýndu Vitringarnir myndskeið sem er hluti af herferðinni „Út með mennina í desember” þar sem þeir félagar greina frá því að 95% af miðakaupendum þeirra eru konur. Myndskeiðið hefur fengið 430 þúsund áhorf.
„Gestir mega eiga von á guðdómlegri blöndu af gamanefni og tónlist en með okkur verður stórhljómsveit undir stjórn Ingvars Alfreðssonar og Meyjarnar þrjár: Salka Sól, Regína Ósk og Selma Björnsdóttir. Vitringar og heilagar Doríur. Þetta verður veisla,“ segir Friðrik Ómar.
Hér má svo sjá mistaka myndbandið (e. blooper reel).