Íbúar í Norðurmýri eru orðnir langþreyttir á blárri Hondu í eigu tónlistarmannsins Bassa Maraj. Bifreiðin er tjónuð eftir árekstur og hefur staðið, að sögn nágranna, kyrrstæð í stæði í hverfinu í tæpt ár. Eru nágrannarnir, að sögn kunnugra, orðnir low key þreyttir á bílhræinu.
En nú er lausn mögulega í sjónmáli. Glöggur sorphirðumaður sendi fyrirspurn inn á íbúahóp Norðurmýrar á Facebook og óskaði eftir upplýsingum um eigandann því viðkomandi væri með áhusaman kaupanda að kerrunni. Var manninum í snarhasti bent á að Bassi, sem býr í nærliggjandi götu, væri eigandi bílsins.
Færslunni var eytt síðar um daginn og nú bíða íbúar í ofvæni eftir því hvort að samningar hafi náðst og Hondan bláa sé á leið á verkstæði.