Vilhelm Þór Neto leikari segir í grein á Vísi að það sé bagalegt að gervigreind sé notuð í stað listrænnar vinnu af hálfu mannfólks sem sé betur treystandi þegar kemur að listsköpun:
„Mér hefur þótt bagalegt að sjá gervigreindina notaða í auknum mæli til að koma í staðinn fyrir listræna vinnu, sem hefði verið falin fólki með sértæka listræna reynslu. Listin umlykur okkur, ekki bara í formi mynda og tónlistar heldur líka í byggingunum sem við heimsækjum eða virðum fyrir okkur, í textum og bókunum sem við lesum og svo mætti lengi telja.“
Vilhelm telur það sorglega þróun að nýlega hafi útgáfufyrirtæki sem starfrækt sé meðal annars á Íslandi ákveðið að losa sig við mennska þýðendur og nota fremur gervigreind til að þýða heilu bækurnar. Hann nefnir ekki fyrirtækið á nafn en á væntanlega við alþjóðlegu hljóðbókaveituna Storytel sem greindi frá því á síðasta ári að fyrirtækið myndi nota gerivigreind til að þýða bækur:
„Þýðandinn er manneskjan sem rýnir í heim og menningu verksins á sínu upprunalega máli og sér til þess að öll blæbrigði orða og frásagnar í menningarlegum heimi sögunnar komist til skila yfir í allt annan menningarheim, okkar eigin, lesandans.“
Vilhelm segist treysta manneskju betur en vél til að koma íslenskum menningarheimi til skila í gegnum þýðingar á bókum:
„Íslensk listsköpun er einstök, hlaðin menningu okkar og sögu, og skyldi einhver utan okkar menningarheims vilja upplifa hana treysti ég manneskju með reynslu, með sál, sögu og sköpunargleði, til verksins frekar en verkfæri sem skilar af sér verkinu á ofurhraða með útreikningi þannig að útkoman verður skiljanleg, en boðskapurinn kemst kannski ekki til skila.“
Vilhelm segir gleðina við listsköpun ekki bara vera til staðar hjá atvinnulistamönnum heldur hjá okkur öllum:
„Viljum við virkilega skipta út innsæi og sköpunargleði fyrir meiri peninga? Ég spurði gervigreindina, hún sagði nei.“
Grein Vilhelms má lesa í heild sinni hér.