Ungfrú Ísland kynnir til leiks öflugt teymi fagfólks sem kemur að árlegri keppni um fulltrúa Íslands í hinum alþjóðlegu keppnum Miss Universe og Miss Supranational.
„Það er sönn ánægja að geta státað af teymi eins og þessu – meðal færasta fólks á Íslandi á sínu sviði. Vinkona mín til margra ára, Eva Ruza, kynnir keppninnar, sér svo um að reka smiðshöggið á margra mánaða undirbúningsvinnu þar sem allir keppendur og starfsmenn leggja sig fram við að gera keppnina sem glæsilegasta.“ segir Manuela Ósk Harðardóttir, framkvæmdastjóri keppninnar.
Ungfrú Ísland hefur verið haldin árlega á Íslandi síðan árið 2016 eftir nokkurt hlé árin á undan.
Manuela Ósk segir: „Keppnin eflist með hverju ári. Umsækjendum fjölgar í sífellu og boðskapur keppninnar, valdefling kvenna, nær til sífellt fleiri, enda ekki vanþörf á í nútímasamfélagi.“
Árið 2023 voru nær allar takmarkanir afnumdar. Þar ber helst að nefna hjónabandsstöðu keppenda og barnseignir – sem hafa þótt mjög úr takt við samtímann. Einnig hefur aldurshámarki verið aflétt, og því geta konur á öllum aldri keppt um titilinn. Um þau tíðindi segir Eva Ruza, kynnir keppninnar: „Skilaboðin um valdeflingu kvenna hafa nú styrkst enn frekar með nýjustu breytingum á reglum. Við hlökkum til að fá giftar konur og mæður í Ungfrú Ísland fjölskylduna.“
Aðstoðarframkvæmdastjóri keppninnar, Elísa Gróa Steinþórsdóttir, sem jafnframt er sigurvegari Ungfrú Ísland 2021, segir: „Keppendur njóta nú hæfileika og innsæis mikils hæfileikafólks. Guðmundur Elvar Orri Pálsson og Hrafnhildur Haraldsdóttir sjá um að allur undirbúningur fari skipulega og vel fram. Elín Rós Ólafsdóttir, einn eigandi Blondie hársnyrtistofu, sér um allt sem við kemur hári keppenda – Heiður Ósk Eggertsdóttir og Ingunn Sigurðardóttir, eigendur Reykjavík Makeup School, leiða öflugt teymi förðunarfræðinga og Gerður Jónsdóttir, betur þekkt sem Gerða INSHAPE, kemur keppendum okkar í heilbrigt líkamlegt ástand. Ekki má svo gleyma Arnóri Trausta Kristínarsyni sem tekur myndirnar fyrir okkur og standast honum fáir snúning á bak við myndavélina.“
Elísa Gróa gegnir einnig starfi sviðshöfundar með dyggri aðstoð Ísabellu Þorvaldsdóttur – en þær hafa báðar bakgrunn í dansi og danskennslu. Þorbjörg Kristinsdóttir er svo ómissandi partur af teyminu og sér um að fanga öll augnablik bak við tjöldin og framleiða efni fyrir samfélagsmiðla en Ungfrú Ísland er á Instagram og TikTok @missicelandorg. Ungfrú Ísland 2024 verður krýnd 14.ágúst nk. í Gamla Bíó og miðasalan fer fram á tix.is. Keppnin verður einnig í beinni útsendingu á Vísi og Stöð2Vísi.