Söngvarinn Páll Óskar Hjálmtýsson og eiginmaður hans Edgar Antonio Lucena Angarita vöktu mikla athygli í Gleðigöngu Hinsegin daga sem fram fór síðastliðinn laugardag.
Gleðigangan er hápunktur Hinsegin daga þegar gengið er frá Hallgrímskirkju að Hljómskálagarði. Fjöldi vagna var í göngunni í ár og að vanda var vagn Páls Óskars síðastur í röðinni. Á vagninum var risastór brúðkaupsterta og stóðu hjónin efst á henni.
Í myndbandi sem Páll Óskar birti fyrr í dag má sjá hvernig brúðkaupstertan varð að veruleika.
Hjónin giftu sig í mars og segist Páll Óskar aldrei hafa verið hamingjusamari. Antonio er flóttamaður frá Venesúela og langflestir á vagninum voru samlandar hans sem búa hér á landi og eru að fóta sig í nýju samfélagi. Í eldræðu Páls Óskars á laugardag sagði hann brúðartertu þýða ýmislegt, þar á meðal að réttindabarátta allra sé samtvinnuð, það komi öllum við ef/þegar lygum og óhróðri sé dreift um aðra.
„Gefum fólki frelsi til að vera það sjálft.“