Lokathöfn Kvikmyndahátíðarinnar í Lubeck í Þýskalandi var haldin með pomp og prakt á föstudagskvöld. Í ár voru fimm íslensk kvikmynda- og sjónvarpsverk sýnd á hátíðinni, sem er ein sú stærsta og mikilvægasta sem helguð er kvikmyndagerð á Norðurlöndum.
Rúnar Rúnarsson leikstjóri og Heather Millard fengu tvenn verðlaun á hátíðinni. Annars vegar Interfilm Kirkjuverðlaunin fyrir Ljósbrot og hins vegar var O (hringur) valin besta stuttmyndin. Bæði kvikmyndaverkin hafa verið á ferðalagi milli stærstu og virtustu kvikmyndahátíða heims og sopað að sér verðlaunum síðan þau voru heimsfrumsýnd í Cannes og á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. Katla Njálsdóttir leikkona í Ljósbroti tók á móti báðum verðlaununum.
Heimildamynd Pamelu Hogan, Dagurinn sem Ísland stöðvaðist, hlaut verðlaunin sem besta heimildarmyndin. Myndina gerir hún í samstarfi við Hrafnhildi Gunnarsdóttur og hefur myndin notið mikillar velgengni síðan hún var heimsfrumsýnd á stærstu heimildamyndahátíð Norður-Ameríku, Hot Docs, fyrr á árinu. Hrafnhildur veitti verðlaunum þeirra viðtöku.