Mollý Jökulsdóttir var í tíunda bekk árið 2010 þegar hún gaf út íslenska paródíu af laginu Tik Tok með söngkonunni Kesha. Í íslensku útgáfunni hét lagið Tik Tok skinka.
Margt hefur breyst hjá Mollý síðan, eins og kemur fram í viðtali við hana á K100. Hún er orðin þrítug, gift dönskun manni, tveggja barna móðir í Silkiborg á Jótlandi í Danmörku. Þar hefur hún búið í áratug og er rísandi stjarna í danska tónlistarbransanum. Fyrsta sólóplata hennar, Dele af mig, kemur út á morgun, föstudag. Fyrsta lagið af plötunni, Nem, er þegar komið út.
„Það er ýmislegt að fara í gang núna sem er sjúklega spennandi. Þetta er byrjunin á einhverju stóru finnst mér,“ segir Mollý, sem semur alla tónlist og texta sjálf.
„Ég fór aðeins aðra leið en margir, og byrjaði á því að eignast börn, hús og gifta mig, áður en ég ákvað að verða poppprinsessa.“
„Okkar líf er hér. Þar fyrir utan myndu lífsgæði okkar dala allsvakalega ef við kæmum heim. Við gætum ekki veitt börnunum okkar það sama eða haft eins mikið á milli handanna. Kaupmátturinn hér er mun hærri en heima, húsnæðislán og allt velferðarkerfið er mun betra. Krakkar fá borgað fyrir að fara í háskólanám, öll lækna- og tannlæknaþjónusta er ókeypis. Svo eru það litlu hlutirnir eins og veðrið og frelsið við að vera ekki föst á eyju sem hentar okkur vel. En ég elska Ísland og verð alltaf Íslendingur. Ég sakna fjallanna og sjávarloftsins. En ég nýt þess í heimsóknum héðan í frá,“ segir Mollý sem segist auk þess vera fegin að vera laus við það sem hún kallar „íslensku geðveikina“.
Mollý segir danska orðið útskýra alla „leti“ Dana en hún segist hafa þurft tíma til að venjast þessari menningu sem henni fannst fyrst leti.
„Það þýðir í rauninni umframorka. Maður getur sagt: Ég hélt bara einfalt afmæli af því að ég var ekki með „overskud“. Og ég ætla að halda lítil jól af því að ég er ekki með „overskud“. Það skilja það allir.“
Faðir Mollýjar er tónlistarmaðurinn Jökull Jörgensen og eiginkona hans er söngkonan Margrét Eir, sem kenndi Mollý meðal annars söng.
Mollý ákvað árið 2023 þegar hún var 29 ára að hún yrði að prófa sig áfram í tónlistinni, annars myndi hún missa tækifærið.
„Það varð til þess að ég ákvað, á einum degi, að gefa allt sem ég á í þetta. Ef það gengur er það geggjað. Ef það gengur ekki þá get ég allavega sagt að ég reyndi,“ segir Mollý sem sendi lag á fjölmörg plötufyrirtæki og komst á samning.
Mollý segist alltaf til í að spila fyrir Íslendinga ef hún fær tækifæri til og rifjar upp að hún hafi nýlega hitað upp fyrir íslenska hljómsveit í Kaupmannahöfn og í ljós kom að íslendingar hafi ekki gleymt Tik Tok skinkunni þrátt fyrir að þeir fatti átti sig ekki alltaf á hver hún er þegar hún syngur á dönsku.
„Salurinn bara trylltist. Ég held að fólk sé ekkert endilega að kveikja að ég sé sama pían. En skinkan deyr aldrei!“
Viðtalið má lesa og hlusta á í heild sinni hér.