Stórstjarnan Cher tók nokkur lög ásamt söngkonunni Tylu og K-poppstjörnunni Lisu.
Fjöldi frægra fyrirsæta gengu niður tískupallinn. Adriana Lima, Alessandra Ambrosio, systurnar Bella og Gigi Hadid, Behati Prinsloo, Candice Swanepoel, Ashley Graham og Carla Bruni voru allar glæsilegar en það er óhætt að segja að óvænt innkoma ofurfyrirsætunnar Kate Moss hafi stolið senunni.
Tískusýning Victoria’s Secret var einn stærsti tískuviðburður í heimi í tuttugu ár en sýningin í gær var sú fyrsta í sex ár. Í fyrra hélt nærfatarisinn viðburð eftir að hafa haldið sig frá sviðsljósinu í nokkur ár eftir að hafa sætt harðri gagnrýni fyrir að fagna ekki fjölbreytileikanum, það er að segja konum af öllum stærðum og gerðum. Árið 2021 stigu nokkrar fyrrverandi Victoria‘s Secret fyrirsætur fram og afhjúpuðu dökku hliðar undirfatarisans.
Sjá einnig: Önnur fyrirsæta stígur fram og afhjúpar dökku hliðar Victoria‘s Secret
Undanfarin ár hefur Victoria‘s Secret unnið hörðum höndum að breyta ímynd fyrirtækisins og var viðburðurinn í fyrra hluti af því. Listamenn komu fram, ofurfyrirsætan Naomi Campbell las ljóð og fyrirsætan Gigi Hadid kynnti stiklu fyrir heimildarmynd Victoria‘s Secret, sem átti að vera síðasta púslið í endurmarkaðssetningu þeirra.
Sjá einnig: Lítið skilið eftir fyrir ímyndunaraflið á bleika dregli Victoria’s Secret
Nú hefur tískusýningin snúið aftur með pomp og prakt. Sjáðu fleiri myndir hér að neðan, en neðst í greininni er hægt að horfa á alla tískusýninguna.