Tónlistarmaðurinn umdeildi Kanye West tjáði þáverandi kærustu sinni og síðar eiginkonu, Biöncu Censori, að hann vildi stunda kynlíf með móður hennar og vildi að hún myndi sjálf horfa á atlotin. Þetta kemur fram í 88 blaðsíðna kæru sem fyrrverandi aðstoðarkona West lagði fram á hendur honum.
Lauren Pisciotta starfaði sem aðstoðarkona West árin 2021-2022 en hún lagði kæruna fram í júní síðastliðnum þar sem hún sakar rapparann um að hafa áreitt sig kynferðislega. Í kærunni kemur fram að Kanye hafi iðulega tjáð ástkonum sínum eða fórnarlömbum að hann vildi sænga hjá mæðrum þeirra. Í kærunni má sjá skjáskot af samskiptum Kanye við Censori þar sem hann greinir frá þessum áhuga sínum. Samskiptin á hann að hafa sent á Pisciotta í kjölfarið.
Í kærunni má finna hryllilegar lýsingar af hegðun West sem á að hafa fengið ungar konur til Bandaríkjanna og veitt þeim störf hjá fyrirtæki sínu til að þær fengju tímabundið atvinnuleyfi í Bandaríkjunum. Síðan hafi hann farið fram á kynferðislega greiða frá konunum enda hafi hann haft öll völd yfir þeim. Pisciotta hafi meðal annars haft það hlutverk að skipuleggja ferðir þessara kvenna til Bandaríkjanna.
Censori hafi verið ein af þessum stúlkum en hún flutti frá Ástralíu til Bandaríkjanna árið 2020 til þess að vinna fyrir fyrirtæki West. Þau giftu sig síðan í lok árs 2022 en hávær orðrómur er uppi um að hjónabandið sé nú á enda runnið.