Eva er gestur í nýjasta þætti af hlaðvarpinu Fullorðins á Brotkast.
„Ég var á heilsustofnun í Hveragerði [í fyrra] þegar maðurinn minn kemur þangað og tilkynnir þennan skilnað. Þannig ég verð svolítið eftir á Íslandi. Ég átti eiginlega ekki mikið val,“ segir Eva.
Eva fékk ristilkrabbamein þegar hún var fertug og fór í gegnum meðferð á Royal Free Hospital. Auk þess hefur hún einnig glímt við síþreytu og langvinna verki og hefur þess vegna dvalið reglulega á heilsustofnunum.
„Ég hef svo mikið verið að vinna með heilsuna, ekki bara krabbamein heldur hef ég líka verið að fást við síþreytu og langvinna verki, síðan kulnun fyrir nokkrum árum,“ segir hún.
Eva segir að það hafi verið hennar stærsta áfall í lífinu þegar eiginmaður hennar tilkynnti henni óvænt að hann vildi skilnað. Eva bjó lengi í Bretlandi með eiginmanni og dætrum, en varð eftir á Íslandi.
„Svo fór hann aftur út með dætur okkar, ég varð eftir hér,“ segir Eva. Dætur Evu eru fimmtán og tuttugu ára gamlar.
„Þetta er algjör kúvending. Ég þarf næstum því að klípa mig í handlegginn þegar ég vakna á morgnanna, hvar er ég…“ segir hún.
Aðspurð hvort Eva sé komin á góðan stað segir Eva: „Ég er ennþá í storminum.“
Eva hefur gengið í gegnum mikið á ævinni og segist vera byrjuð að nota hugvíkkandi efni til að takast á við áföll. „Ég hef verið að gera það hérna heima […] Þetta hafa verið sveppir, MDMA og efni sem heitir DMT,“ segir hún.
„Ég fór fyrst í nokkrar þannig meðferðir. En svo undanfarið hef ég verið að fara í stærri ferðalög með efni sem heitir iboga, er talið vera Mount Everest af hugvíkkandi efnum,“ segir hún.
Eva segir að það séu aðilar hérlendis sem bjóða upp á slíkar „meðferðir“ en það sé hins vegar ekki löglegt. Hún lýsir fyrsta skiptinu sem hún prófaði hugvíkkandi efni. „Þetta er bara mjög merkilegt, að fara í svona,“ segir hún brosandi.
„Maður fær svona ákveðna innsýn, maður einhvern veginn sér dýpra og maður fer að skilja svolítið hlutina og atburðarrásir, af hverju hlutir eru eins og þeir eru. Það er mjög sérstakt.“