fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fókus

Skrif Helga Hrafns um femíníska feður valda usla – „Þetta er meiri andskotans þvælan“

Fókus
Miðvikudaginn 9. október 2024 11:06

Stefán Jakobsson, Helgi Hrafn Gunnarsson og Dofri Hermannsson. Myndir/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenskir feður höfðu nóg að segja um uppeldi og jafnrétti eftir að Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, birti vangaveltur sínar í Facebook-hópnum Pabbatips, sem er með yfir átján þúsund meðlimi.

Helgi skrifaði um feður sem deila forræði með barnsmæðrum sínum og eru með viku-og-viku fyrirkomulag. Hann sagði að „nákvæmlega ekkert í femínískri baráttu er mikilvægara en að feður axli ábyrgð á börnum til jafns við mæður. Ekkert grefur hraðar og meira undan tækifærum kvenna heldur en þegar feður fá þá hugmynd í kollinn að þeirra eigin tími, þeirra starfsframi, þeirra menntun, áhugamál, vinasambönd og geðheilsa skipti meira máli heldur en mæðranna. Svo er ekki.“

Það er óhætt að segja að færslan hafi vakið hörð viðbrögð en fjöldi karlmanna hafa tjáð sig um málið. Um sjötíu athugasemdir hafa verið ritaðar við færsluna þegar fréttin er skrifuð. Á sjöunda tug manna líkuðu við færsluna og einn þakkaði Helga fyrir skrifin: „Mjög mikilvægt innlegg.“ En margir voru verulega ósáttir við skilaboð fyrrverandi þingmannsins.

Færslu Helga má lesa í heild sinni hér að neðan.

„Sælir, herramenn. Ég krotaði niður nokkrar hugrenningar um stöðu okkar feðranna sem búa við viku-og-viku fyrirkomulag.

Það er bæði erfitt og tímafrekt að ala upp barn eins og allir foreldrar vita. Í gegnum tíðina hafa konur sinnt þessu hlutverki fyrst og fremst, jafnvel þegar þær hafa verið í fullu starfi með, og það hefur svipt þær tækifærum til að elta drauma sína, hvort sem það eru draumar um starfsframa, menntun, áhugamál eða sambönd við annað fólk.

Nú þegar feður sjá í auknum mæli um uppeldi barna, t.d. í viku-og-viku fyrirkomulagi, þá auðvitað átta feður sig á þeim veruleika sem það er að bera ábyrgð á barni í þá vikuna sem þeir sjá um barnið eða börnin.

Nákvæmlega ekkert í femínískri baráttu er mikilvægara en að feður axli ábyrgð á börnum til jafns við mæður. Ekkert grefur hraðar og meira undan tækifærum kvenna heldur en þegar feður fá þá hugmynd í kollinn að þeirra eigin tími, þeirra starfsframi, þeirra menntun, áhugamál, vinasambönd og geðheilsa skipti meira máli heldur en mæðranna. Svo er ekki.

Þegar feður í viku-og-viku fyrirkomulagi lenda í erfiðleikum með að sjá um barnið sitt, t.d. vegna þess að álagið er of mikið, þá er það allra síðasta sem þeir eiga að gera, að leita til barnsmóðurinnar. Mæður lenda í nákvæmlega sömu hlutunum og feður, en búa hins vegar við það, að það er næstum því sjálfkrafa ætlast til þess að þær sætti sig við það, og hliðri til í sínu lífi fyrir börnin.

Mæður hafa fundið upp á ýmsu til að ráða við uppeldi barna sinna, og auðvitað getur það verið mjög erfitt, eins og margar frásagnir kvenna segja til um. En neyðin kennir Arsenal að grenja, og karlmenn verða bara að gjöra svo vel að bíta í það súra epli að þetta getur verið ógeðslega erfitt, ógeðslega tímafrekt og tekið heilmikið á geðheilsuna. Þá er það samt þeirra að finna út úr því og einskis annars, alveg eins og það hefur verið hjá konum í gegnum tíðina.

Ef barnauppeldið stendur í vegi fyrir vinnu, þá verða þeir að minnka við sig í vinnu, eins og konur hafa sögulega þurft að gera. Ef þeir geta ekki sinnt námi, þá verða þeir að stunda það hægar eða bíða með það, eins og konur hafa gert. Ef þeir eiga fjölskyldumeðlimi sem geta aðstoðað, þá eiga þeir að leita þangað, eins og konur hafa gert. Ef þeir þurfa að fá sér au-pair, þá eiga þeir að gera það.

Konur færa engu minni fórnir að þessu leyti við að sjá um börn heldur en karlar, og þeirra starfsframi, menntun, áhugamál eða vinasambönd eru ekki minni fórn heldur en föður. Konur fara líka í burn-out, konum langar líka að sækjast eftir menntun, starfsframa, áhugamálum og vinasamböndum. Ástæða númer eitt, tvö og þrjú fyrir því, að þær hafa sögulega átt mun erfiðara með það heldur en karlar, er sú að þær fá undantekningalítið í hendurnar skilyrðislausa ábyrgð, á meðan ábyrgð feðranna er skilyrt við það að þeir hafi tíma og orku til.

Enginn karlmaður skal kalla sig femínista eða einu sinni jafnréttissinna, sem ekki tekur undir þetta, því hér er á ferðinni grunnurinn og rótin sjálf að því sem hamlar konum frá því að eiga tækifæri til jafns við karla.“

Myndin tengist fréttinni ekki beint/Pexels

„Meiri andskotans þvælan“

Eins og fyrr segir vakti færslan hörð viðbrögð og skapaðist lífleg umræða undir henni.

„Þetta er meiri andskotans þvælan. Ég er með barn í viku-viku en borga tvöfalt meðlag til barnsmóður af því að hún er með lögheimili barnsins. Og hún getur sótt um tvöfalt meðlag og fengið það af því að lögin leyfa það. En auðvitað gerir ekki venjulegt fólk svona, þeir siðblindu komast upp með þetta. Hvernig í andskotanum er þetta jafnrétti. Já, það fauk í mig við að lesa þetta. Karlar fá ekki sömu tækifæri og konur á því að vera með börnin, þeir eiga að vinna fyrir tveimur heimilum en samt sjá um börnin,“ sagði einn.

Helgi svaraði manninum: „Nú ertu að gera svolítið sem er dæmigert þegar fólk lætur tilfinningarnar stjórna í stað hugsunar; þú svarar einhverju allt öðru en því sem var skrifað, væntanlega vegna þess að þér finnst auðveldara að mótmæla meðlagsfyrirkomulaginu heldur en því sem ég skrifaði. Þú skrifaðir ekkert sem varpar ljósi á það hvernig það sem ég aktúallí skrifaði er „meiri andskotans þvælan.“

Helgi hélt áfram: „Reyndar, þá ættirðu að vera sammála mér, ef þér finnst sanngjarnt að báðir aðilar borgi jafn mikið. Öll tilfellin sem ég þekki um viku-og-viku fyrirkomulag fela í sér að meðlagsþeginn millifærir helminginn inn á hinn aðilann, eða borgar fyrir föt, tómstundir, frístundavist og áhugamál, en auðvitað geta sambönd fólks verið ógeðslega ósanngjörn og það ekki gengið upp.

En þá er það einmitt ósanngjarnt vegna þess að aðilarnir eru ekki að deila ábyrgðinni jafnt. Það er sama sanngirnisprinsipp og kemur fram í pistlinum. Ef þér finnst að þetta eigi að vera sanngjarnt, þá bara hlýturðu að vera sammála mér.“

Maðurinn svaraði: „Það er sennilega hárrétt hjá þér. Ég er litaður af áralangri baráttu við kerfið og að vera viðurkenndur sem foreldri barnanna minna. En það er allt á góðri leið, þó það sé langt í land ennþá.“

Myndin tengist fréttinni ekki beint/Pexels

„Ég á ekki orð“

Annar karlmaður tók þátt í umræðunni. „Nákvæmlega ekkert við það að karlmenn vilji ala upp sín börn hefur eitthvað með femíníska baráttu að gera,“ sagði hann og sagði að það væri „mesta kjaftæði“ sem hann hefur heyrt að menn eigi fyrst og fremst að „hugsa um konurnar í þessu öllu saman.“

„Ekki veit ég hvaða feður þú ert að tala um sem ætlast til að barnsmæður þeirra taki allt álag af þeim, ert þú sjálfur að gera þetta? Því þeir einstæðu feður sem ég þekki meta tímann sem þeir fá með börnum sínum ekkert síður en mæður og eru ekkert síður duglegri við það. Ótrúlegt að mæta hérna og skammast í mönnum fyrir að vera ekki duglegri við að hugsa um konurnar þegar einstæðir feður eru mesti áhættuhópur samfélagsins hvað varðar t.d. sjálfsvígshættu,“ fullyrðir maðurinn og bætir við: „Veit ekki einu sinni hvað skal segja við þessu innleggi annað en að ég á ekki orð.“

Stebbi Jak tekur þátt

Tónlistarmaðurinn Stefán Jakobsson, söngvari hljómsveitarinnar Dimmu, skrifaði undir athugasemd mannsins og sagði: „Takk,“ og bætti við bænahanda-emoji.

Hann beindi síðan orðum sínum að Helga:

„Er ekki mergur málsins með viku og viku skiptingu að báðir foreldrar geti alið börnin upp sameiginlega á jafnréttisgrundvelli? Ég veit þú ert býsna snjall en í þessum pistli kemur ekkert fram um hvað gagnast börnunum best. Barnauppeldi er sameiginleg ábyrgð foreldra.

Súr epli, barátta og fórnir.. lætur þetta hljóma leiðinlegra en nauðsyn krefur. Þetta snýst um börnin og að báðir foreldrar sýni ábyrgð.

Kerfið er svo önnur umræða sem ég er til í að ræða hvar og hvenær sem er. Uppeldi barna minna snýst ekki um femíníska baráttu, heldur að byggja upp eins stálpaða einstaklinga og ég mögulega get.

Að tala niður til fólks með þessum hætti eru algeng mistök. „Ég ætla að segja ykkur hvernig þetta er og á að vera.““

Þekkir engan föður sem ekki fagnar jafnri umgengni

Dofri Hermannsson, fyrrverandi borgarfulltrúi og formaður Félags um foreldrajafnrétti, blandaði sér einnig í umræðuna. Dofri vakti mikla athygli fyrir nokkrum árum þegar hann hafði hátt um foreldraútilokun. Í kjölfarið stigu dætur hans fram í Stundinni og sögðu hann hafa beitt þær ofbeldi og yfirgangi.

Sjá einnig: Barnavernd líkleg til að grípa inn í ef hætta steðjar að barninu

„Er 1980? Ég þekki engan föður sem ekki fagnar jafnri umgengni og axlar sína foreldraábyrgð. Flestir eru þeir líka að borga meðlag þrátt fyrir jafna umgengni, fá ekki neinn stuðning, s.s. barnabætur sem einstætt foreldri enda ekki lögheimilisforeldri, sem enn virðist falla 90 prósent í hlut mæðra. Engin fráskilin móðir ætti að kalla sig jafnréttissinna nema hún skrái lögheimilið á barnsföður sinn og geri þar með sitt til að auka jafnrétti foreldra. En auðvitað er alveg hægt að kalla sig femínista án þess að stuðla að jafnrétti ef það hallar á karla,“ skrifaði Dofri við færsluna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Guðrún gaf Helga Jean súludans í afmælisgjöf – Allir stoppuðu og horfðu

Guðrún gaf Helga Jean súludans í afmælisgjöf – Allir stoppuðu og horfðu
Fókus
Í gær

Annie Mist sendir óvildarmönnum sínum pillu – Ekki á frammistöðubætandi lyfjum

Annie Mist sendir óvildarmönnum sínum pillu – Ekki á frammistöðubætandi lyfjum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hefur enn ekki leyft börnum sínum að horfa á Home Alone

Hefur enn ekki leyft börnum sínum að horfa á Home Alone
Fókus
Fyrir 4 dögum

Glacierguys eru raðklökkir og óska landsmönnum gleðilegra jóla

Glacierguys eru raðklökkir og óska landsmönnum gleðilegra jóla
Fókus
Fyrir 4 dögum

Komst að því að kærastinn væri í áskrift á OnlyFans – Fékk áfall þegar hún sá hjá hverri

Komst að því að kærastinn væri í áskrift á OnlyFans – Fékk áfall þegar hún sá hjá hverri
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ótrúlegir hlutir gerðust þegar Steinunn Ólína hætti að drekka

Ótrúlegir hlutir gerðust þegar Steinunn Ólína hætti að drekka