Bandarískur ferðamaður, Mary Les, sem er á ferðalagi um Ísland leitar nú að ljósmyndara sem týndi SD kortinu sínu á Sólheimasandi.
,,Týnt SD kort fannst! Það hlýtur að vera í eigu atvinnuljósmyndara, þar sem það inniheldur yfir 6.000 eftirminnilegar myndir sem teknar voru frá 14.- 16. júlí 2024. Maðurinn minn fann kortið við flugvélaflakið á Sólheimasandi þann 18. júlí. Vinsamlegast hjálpaðu mér að sameina þessar sérstöku andlitsmyndir og trúlofunarmyndir frá Íslandi með réttum eigendum þeirra.“
Í samtali við DV segir Mary að enginn hafi haft samband við hana ennþá vegna kortsins og færslu hennar sem þegar er búið að dreifa í nokkra meðlimamarga Facebook-hópa. ,,Ég vil bara að kortið komist til skila, þetta eru hráar myndir af sérstökum augnablikum brúðhjónanna. Myndir teknar af trúlofun og fyrir brúðkaupið.“
Búið er að deila færslu hennar víða, meðal annars í Facebook-hópana Hið raunverulega Bakland Ferðaþjónustunnar, Góða systir, og Best Iceland Tips & Travel.
Í athugasemdum segist Les aðspurð vera búin að reyna að gúggla myndirnar án árangurs. Eigandi kortsins er endilega beðinn um að setja sig í samband við Mary.
Uppfært kl. 12.02:
Blaðamanni barst tölvupóstur kl. 11.49 þar sem segir á ensku:
,,Hæ, greinin var send til mín! Við fundum eigandann (vinur minn) !! 🙂 Þetta er svo flott og svo gott að þú birtir það til að finna rétta eigandann. Þakka þér kærlega!! Önnur ástæða til að elska Ísland og fólkið þar enn meira 🙂 Takk og bestu kveðjur“