Það var hátíðisdagur framundan hjá Dýrley Dröfn Karlsdóttur á laugardaginn, útskrift með BA-gráðu í dönsku frá Háskóla Íslands. Dýrley stillti sér upp í röð útskriftarnema og steig þolinmóð skrefi framar við hvert nafn sem lesið var upp.
Það sem á eftir kom var þó frekar óþægileg og stressandi upplifun, en mögulega þó mjög eftirminnileg og tilefni til að segja margoft frá í framtíðinni. Í myndbandi sem Dýrley birti á TikTok má sjá að þegar Dýrley er næst í röðinni og á von á að nafn sitt verði lesið, er nafn útskriftarnemans á eftir henni lesið og svo koll af kolli. Þar sem Dýrley stígur til hliðar, þá verður smá vandræðagangur á sviðinu.
Mbl sagði frá atvikinu fyrr í dag og segir Dýrley að lesin hafi verið upp nöfn allra þeirra sem voru að útskrifast með BA í ensku áður en leyst var úr hennar máli.
„Ég var að útskrifast með BA-gráðu í dönsku og var ein í þeim flokki þannig ég var alveg lúmskt viðbúin því að eitthvað kæmi upp á, að ég myndi detta eða eitthvað. En síðan gerðist það að þau gleymdu í rauninni að segja nafnið mitt. Þegar ég var búin að standa þarna eins og illa gerður hlutur í einhverjar mínútur fékk ég á endanum nafnlaust skjal og uppskar þvílíkt lófatak. Það var ekkert smá óþægilegt.“
@thelittlelesbian_ What are the odds of this happening to me, out of the 2700 graduates 🥲 #fyp #foryou #iceland #university #graduation #lgbtq #lesbian #queer #viral #funny #sad ♬ The Benny Hill Show – The Edwin Davids Jazz Band
Þegar Dýrley kom niður af sviðinu var hún beðin að koma baksviðs þar sem í ljós kom að skírteinið hennar var í bunkanum upp á sviði. Var henni boðið að fara aftur upp á svið og taka við útskriftarskírteininu, en hún afþakkaði það.
„Þetta lýsir náminu ágætlega því það er ekkert mikil aðsókn í BA-nám í dönsku og allt mjög frjálslegt. Það að ég hafi fengið skírteinið mitt baksviðs var í rauninni punkturinn yfir i-ið á námsleið minni,” segir Dýrley við Mbl.
Hún segir að nokkrar ástæður geti legið að baki þessum mistökum: hún hafi verið ein að útskrifast með BA-gráðu í dönsku og sú sem var á undan henni í röðinni hafi verið að útskrifast með tvöfalda BA-gráðu. Háskólinn er búin að biðja Dýrley afsökunar á þessum mistökum.