Hann segir frá atviki þegar hann var að kaupa sér núðlur á veitingastaðnum Nings og á undan honum í röðinni voru vopnaðir lögreglumenn.
„Ég var um daginn á Nings á Suðurlandsbraut og það voru lögreglumenn fyrir framan mig með skammbyssur að kaupa sér núðlur,“ segir Sölvi í nýjasta þætti af Podcast með Sölva Tryggva.
Gestur hans er Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
„Ég er búinn að ferðast um allan heim og hef alltaf verið svo stoltur að geta sagt að á Íslandi séu lögreglumenn ekki einu sinni með byssur. Þarna er ég bara það staddur að ég segi nei, ég vil bara frekar labba hérna út á götu og taka sénsinn á því að einhver vondur karl skjóti mig heldur en… sko byssur búa til fleiri byssur.“
„Ég er algjörlega sammála þér,“ segir Kári.
„Það er eitthvað í mér, þegar ég heyri af þessum vopnakaupum, ég er ekki oft með sterkar skoðanir en þarna er ég með mjög sterkar skoðanir,“ segir Sölvi og aftur er Kári sammála.
„Þetta er fyrir neðan allar hellur og stangast á við það sem ég hélt að væri rótgrónar hugmyndir í íslensku samfélagi að við eigum ekki að vera með her, við eigum ekki að taka þátt í stríðsrekstri og ég er nokkurn veginn viss um að þessir ráðherrar í ríkisstjórn gerðu sér ekki almennilega grein fyrir því að þeir væru að fara yfir þessa línu,“ segir Kári.
Þáttinn í heild sinni má nálgast á SolviTryggva.is