Hertogahjónin Harry Bretaprins og Meghan Markle stofnuðu góðgerðasamtökin Archewell árið 2020. Fjölmiðlar greina nú frá því að í janúar hafi hið opinbera bannað samtökunum að safna eða eyða peningum. Samtökin eru nú skráð sem „brotleg“ við ársreikningalög Kaliforníu þar sem þau hafa ekki staðið skil á ársreikningi. DailyMail greinir frá.
Samtökin hafi hvorki staðið skil á ársreikning né gjöldum til að endurnýja leyfi. Seinast voru samtökin í skilum í febrúar árið 2023.
Fyrir þetta fengu samtökin nú í maí viðvörun um að þau væru brotleg og ættu yfir höfði sér sektaákvörðun og dráttarvexti. Jafnvel gæti skráning samtakanna verið felld úr gildi.
Það var í síðustu viku sem hertogahjónin tilkynntu í ferðalagi sínu til Nígeríu að þau ætluðu að færa út kvíarnar með Archewell og hefja samstarf við samtökin The GEANCO. Úr slíku samstarfi getur þó ekki orðið sem stendur þar sem brotleg samtök mega ekki halda úti leyfisskyldri starfsemi á borð við að óska eftir gjafafé eða deila út framlögum.
Samkvæmt síðasta ársreikningi sem samtökin lögðu fram höfðu tekjur dregist saman um rúman 1,5 milljarð milli ára. Á árinu 2022 námu framlög til samtakanna um 285 miljónum en námu rúmlega 1,8 milljarði árinu áður. Þetta þýddi að fyrir 2022 komu samtökin út í tæplega 100 milljóna tapi.
Samkvæmt vefnum CharityWatch sem veitir góðgerðasamtökum aðhald og eftirlit eru stjórnarhættir Archewell sagðir ófullnægjandi og eins skorti rekstrinum gegnsæi.