Ella fór í fjögurra vikna frí með vinkonum sínum til Grikklands í júní síðastliðnum. Henni byrjaði að líða eitthvað illa nokkrum dögum eftir að hún kom til Grikklands en hélt það væri því hún gæti ekki haldið í við drykkju vinkvennanna. Eftir ferðina fór hún að fá slæm mígrenisköst og vinstra augað hennar fór að renna til svo hún varð tileygð. Hún ákvað á þeim tímapunkti að leita til augnlæknis sem sagði henni að fara strax til læknis. The Sun greinir frá.
Ella var send í rannsóknir og fundu læknar ólæknandi heilaæxli. Hún fékk þær skelfilegu fréttir í júlí 2023 að hún ætti aðeins tólf mánuði eftir ólifaða.
„Ég var alveg dofin, mér finnst þetta ekki ennþá raunverulegt. Fólkið í kringum mig á erfiðara með þetta en ég,“ segir Ella við Kennedy News and Media.
„Læknarnir eiga erfitt með að segja nákvæmlega hversu mikinn tíma ég á eftir því það er ekki hægt að taka vefsýni úr æxlinu. Æxlið er á þannig stað að ég gæti lamast við það.“
Ella reynir að lifa eins venjulegu lífi og hún getur og vinnur á kassa í matvöruverslun. „Ég hef farið í nokkur ferðalög með fjölskyldunni minni, við erum bara að reyna að nýta tímann eins og við getum.“
Hún gekkst undir sex vikna geislameðferð í fyrra til að reyna að hægja á framvindu æxlisins. Samkvæmt nýjustu rannsóknum er æxlið talið vera „stöðugt“ og er „ekki að stækka.“ Ella segist vera tilbúin að prófa „hvað sem er“ til að auka lífslíkur sínar.
„Þú býst aldrei við því að eitthvað svona gerist þegar þú ert átján ára. Það er eins og ég sé stödd í bíómynd. Ég er ekki búin að átta mig almennilega á þessu, þó svo að níu mánuðir séu liðnir. Ég er að reyna að vera jákvæð,“ segir hún.