Nýtt málverk af Baldri Þórhallssyni, forsetaframbjóðanda, sem málað var á Tenerife komst á einum degi til Íslands eftir ákall þess efnis að málverkið myndi prýða kosningaskrifstofu Baldurs.
Sjá einnig: Freista þess að fá „Baldur“ heim frá Tenerife
Frá þessu greinir dóttir frambjóðandans, Álfrún Perla Baldursdóttir, í færslu á stuðningsmannasíðu framboðsins.
„Þegar haldið er af stað í svona ferðalag veit maður að það mun margt óvænt koma fyrir á leiðinni. Ég bjóst við tröllunum en mér datt ekki í hug að svona margir með svona fjölbreyttan bakgrunn væru tilbúnir að leggja hönd á plóg. Hvað þá að þetta yrði svona skemmtilegt,“ skrifar Álfrún á síðuna og deilir svo skemmtilegri sögu af því hvernig málverkið komst til landsins á methraða.
„Bertha G. Kvaran ákveður að gamni sínu að mála mynd. Ég spyr svo hvort hún megi nokkuð hanga upp á vegg á kosningamiðstöðinni og þá kemur í ljós að hún er á Tene (auðvitað). Ég pósta hér hvort einhver geti hjálpað okkur að koma henni til Íslands – og viti menn. Daginn eftir hittast hún og Ebbi Garðar á ströndinni til að skiptast á pakkanum og Ebbi lætur pabba hafa pakkan rétt fyrir miðnætti á bílastæðinu við Hagkaup í Garðabæ (líklega einhverjir horft undarlega á þá). En ferðalagið er bara rétt að byrja og mikið hlakka ég til ferðarinnar!“ skrifar Álfrún Perla.