Hún var gestur í Fókus, spjallþætti DV. Þú getur horft á brot úr þættinum hér á neðan en til að horfa á hann í heild sinni, smelltu hér, eða hlustaðu á Spotify, Apple Podcasts eða Google Podcasts.
Móna Lind hefur glímt við endómetríósu síðan hún byrjaði á blæðingum. „Daginn sem ég byrjaði á blæðingum þegar ég var 14 ára kom strax í ljós að það væri mikið að,“ segir hún.
Sjúkdómurinn er einn af þessum ósýnilegu sjúkdómum, sem sjást ekki utan á fólki og mæta þau sem kljást við hann gjarnan fordómum í samfélaginu. Móna Lind þekkir það vel, hún hefur lent í því að fólk trúi henni ekki og að yfirmenn saki hana um lygar. Þetta var sérstaklega slæmt á einum vinnustað þar sem hún var látin mæta í sérstakt viðtal vegna fjarveru.
„Ég fann mikið fyrir því þegar ég var orðin fullorðin og eftir að ég átti mitt fyrsta barn, þá breyttist svolítið mikið með endómetríósuna. Ég eignaðist eldri dóttur mína árið 2013 og fór svo að vinna upp á flugvelli. Ég virkilega naut þess að vinna vinnuna mína, ég var í skemmtilegum hópi af fólki og bara æðislegur vinnuandi, mér fannst geggjað að vinna þarna. Svo fór ég að veikjast mjög mikið í kringum 2016 og ég fann rosalega mikið fyrir fordómum gagnvart því að ég væri að hringja mig inn veika. Ég var til dæmis tekin í viðtal, sérstakt veikindaviðtal, og þurfti að útskýra hvað væri að valda þessu, hvers vegna ég væri svona mikið veik. Síðan var tekið fram hvaða dagar það voru: Þú ert rosa mikið veik á þessum dögum. Maður upplifði sig alveg frekar niðurlægðan, eins og það væri verið að saka mig um að ljúga,“ segir Móna.
„Svo var þetta stigversnandi hjá mér, alveg þar til ég þurfti að fara í veikindaleyfi og fékk vottorð hjá lækninum mínum. Ég var alveg fyrst í einhverja tvo mánuði og þá hélt í rauninni bara ruglið áfram. Það var verið að hringja í mig, verið að segja: Já, þú ert nú bara í ræktinni. Verið að ýja að því að það væri ekkert að mér og ég upplifði mjög mikið skilningsleysi þrátt fyrir að vera með læknisvottorð fyrir því sem var að mér, þá þurfti ég samt að sitja fyrir svörum við yfirmenn: „Hvað er nú eiginlega að þér? Þú ert nú bara í ræktinni og lítur ekki út fyrir að vera veik.““
„Í einu símtalinu varð ég eiginlega bara brjáluð og sagði að ég væri ekki heima hjá mér með gubbupest. Ég sagði honum að hann ætti ekkert að hringja í mig, trúnaðarlæknir fyrirtækisins ætti að tala við minn lækni en þeir ættu að láta mig í friði og að ég væri að hreyfa mig af læknisráði og að ég væri að gera allt sem ég gæti til að sinna minni andlegu og líkamlegu heilsu og að ef ég ætti að læsa mig inni þá fyrst yrði ég mjög andlega veik.“
Veikindaleyfið ílengdist og fór Móna í fyrstu aðgerðina vegna endómetríósu árið 2017. Hún hefur farið í tvær aðrar aðgerðir síðan þá og er í dag öryrki vegna sjúkdómsins.
Þú getur lesið nánar um baráttu hennar við endómetríósu hér og horft á þáttinn í heild sinni.