Ingibergur ólst upp í Reykjavík hjá báðum foreldrum sínum. Hann rifjar upp eina af sínum fyrstu minningum en þá leiðir móðir hans hann inn í gult hús, Hjálpræðisherinn, þá var Kvennaathvarfið ekki komið.
Næsta sterka minning var heima. „Ég man það mjög vel, ég var inni í herbergi með mömmu og yngri bróður mínum, pabbi var hinu megin við hurðina og var reiður. Hann vildi komast inn. Hann setti svo öxlina í hurðina svo hún brotnaði, ég man að flísar fóru út um allt og hurðin brotnaði þar sem lásinn var. Hann kýldi mömmu í andlitið svo hún missti tennur og blæddi. Hún stóð upp og spítti á hann blóði og lausum tönnum og uppskar auðvitað annað högg.“
Í framhaldi af þessu lærði Ingibergur hvernig maður bregst við óþægilegum spurningum þegar móðir hans sagði ósatt þegar nágranni kom að laga hurðina.
„Ég lærði meðvirkni og að ljúga þegar mamma sagði „hurðin stóð aðeins á sér“ þegar hún var spurð hvað hafði komið fyrir.“
Frá unga aldri fann hann fyrir þessu hjartasári, eins og hann kallar það.
„Mamma sat alla morgna og reykti við eldhúsborðið, bræddi hvítt kerti, mótaði kertavax á meðan það var ennþá volgt og setti svo í neðri góminn yfir brotnu tennurnar svo enginn gæti séð að hún væri tannlaus, þar til hún gat fengið sér falskar.“
13 ára gamall byrjaði Ingibergur að reykja og ekki löngu síðar að drekka. „Ég og vinur minn brugguðum og pöntuðum svo einn góðan eins og það var kallað.“
Ingibergur flutti ungur að heiman og bjó ásamt öðrum unglingum í yfirgefnu húsi og var í neyslu. „Á þessum tíma voru dónakallar sem misnotuðu unga stráka, minna um menn sem nýttu sér ungu stelpurnar eins og þekkist mikið í dag.“
Ungur var Ingibergur farinn að reyna að stjórna neyslunni. Hann flutti til Kaupmannahafnar og bjó í Kristjaníu þar sem hann var á bótum og var í neyslu, lenti þar í fangelsi á endanum og var sendur til Íslands.
„Ég hélt að allt myndi breytast ef ég myndi gifta mig svo ég bað kærustuna mína að giftast mér, hún var svo sæt, mér til mikillar undrunar sagði hún já og ástæðan var að henni fannst ég svo sætur.“
Lengi vel drakk hann illa, flutti milli staða, skipti um störf, breytti um umhverfi og keypti hluti en ekkert breyttist.
„Ég vaknaði úr blackouti inni á Vogi, var í einhverjum slopp og vissi ekkert hvar ég var. Mér var sagt að koma á fyrirlestur.“
Ingibergur var á hnefanum í þrettán ár áður en hann fann lausn í hópi fólks í tólf spora samtökum og hefur lifað í bata síðan. Hann þakkar fyrir að hafa verið ódrukkinn og geta verið til staðar fyrir börnin sín en hann er ennþá giftur sætu stelpunni og tekst nú á við fjórða stigs krabbamein og lifir í núinu, með fólkinu sínu.
Hlustaðu á þáttinn hér að neðan.