Ragga hefur komið víða við og er hvað þekktust fyrir sjarmerandi persónuleika sinn í útvarpinu, áður á KissFM en nú á K100, og tónlistarhæfileika, en hún hefur bæði getið sér gott orð sem sólólistamaður og sem meðlimur vinsælu rappsveitarinnar Reykjavíkurdætur.
Einnig er hægt að hlusta á Spotify eða hlaðvarpsþjónustu Google.Í dag starfar Ragga við kennslu og sem forstöðumaður félagsmiðstöðvar auk þess að snúa skífum um helgar. Ragga hefur gengið í gegnum margar þolraunir í lífinu en í hennar huga er það ekki eitthvað sem heldur aftur af henni heldur eitthvað sem hún nýtir sér til góðs.Sjá einnig: „Ég hef aldrei litið á mína fortíð sem veikleika“
Hún varð fyrir hrottalegri líkamsárás í byrjun árs 2015 og segir umrætt atvik hafa verið eins konar vendipunkt í hennar lífi. Hún ákvað að fara í áfengismeðferð og snúa blaðinu við. Nokkrum árum síðar var hún á slæmum stað og féll, en tókst að koma sér aftur á rétta braut.
„Ég var að reka skemmtistað og gekk í gegnum frekar strembin sambandsslit. Ég er greind með geðhvarfasýki 2 og fór aðeins út af sporinu […] En það var ekki langt tímabil. Þetta var þriggja mánaða rússíbani sem ég þurfti sennilega að fara í til þess að muna, og ég hef ekki gleymt því síðan,“ segir hún.
Ragga segir að hennar saga sé merki um að fólk geti misstigið sig og geti náð tökunum aftur en hún segir mikilvægt að fólk festist ekki of lengi.
„Ég var ennþá ekki búin að koma mér í fjárhagsvandræði, ég átti fallega íbúð og það var allt þannig séð nokkuð gott í kringum mig. Hélt minni vinnu og gerði allt rétt, en þegar ég sá rétt glitta í botninn þá bara úff, áfram með smjörið. Þetta er engin leið að velja. Ég fór aftur og sótti hjálp hjá mínu geðteymi. Ég hafði hætt þarna á öllum lyfjum sem var örugglega stór kveikja að þessu,“ segir hún.
„Sumarið áður en þetta gerðist hafði ég lent í erfiðum aðstæðum þar sem ég fór í geðhvörf og var færð niður á bráðamóttöku geðdeildar en svo er svo fyndið, ég geri alltaf það sama. Ég fór í læknisviðtal og hann horfði á mig og spurði: „Heldur þú að þú sért í hættu?“ Og ég horfði á hann: „Pff, nei, nei. Vertu ekkert að spá í mér, ekki vera að eyða tíma í mig.“ Ég fer alltaf aftur í þetta [að gera lítið úr mínum aðstæðum].
Síðan náði ég ágætis tíma í nokkra mánuði og síðan hálfu ári eftir þessa uppákomu gerðist eitthvað og ég hætti á lyfjunum. Hálfu ári seinna var í raun og veru allt farið til fjandans.“
Eins og fyrr segir náði Ragga sér aftur á réttan kjöl þremur mánuðum síðar og hefur ekki litið til baka síðan.