Það eru næstum þrír mánuðir síðan leikarinn Matthew Perry lét lífið. Í desember var dánarorsök hans gerð opinber, dauði hans var úrskurðaður sem slys og afleiðing ketamín neyslu. Hann missti meðvitund í heitum potti og drukknaði.
Skyndilegt fráfall hans var mikið áfall fyrir meðleikara hans úr Friends sem birtu sameiginlega yfirlýsingu á sínum tíma.
Sjá einnig: Vinirnir rjúfa þögnina um fráfall Matthew Perry – „Við erum algjörlega niðurbrotin“
Á Emmy-verðlaunahátíðinni var Perry minnst með fallegum hætti, myndir af honum voru sýndar á skjá og þemalag Friends var spilað undir, „I‘ll Be There For You.“
Margir veltu því fyrir sér af hverju vinir hans og meðleikarar; Jennifer Aniston, David Schwimmer, Matt Le Blanc, Courteney Cox og Lisa Kudrow, hafi ekki verið með. Framleiðandi hátíðarinnar, Jeanne Rouzan-Clay sagði við The Hollywood Reporter að þetta væri enn of nýtt og hrátt í þeirra huga.
„Þau eru að syrgja einhvern sem var mjög náinn þeim. Ég get ekki talað fyrir þeirra hönd, en við verðum að virða að þau eru fjölskylda og það hefði örugglega verið of snemmt að hafa þau með í atriðinu.“