Brandon Blackstock fyrrum eiginmaður tónlistarkonunnar og þáttastjórnandans Kelly Clarkson þarf að endurgreiða henni 2.641.374 dala. Um er að ræða umboðslaun sem Blackstock ofrukkaði Clarkson um sem umboðsmaður hennar á sama tíma og þau voru gift.
Vinnumálastjóri í Kaliforníu úrskurðaði um málið á fimmtudag, ákvörðun sem Blackstock ætlar að áfrýja. Samkvæmt lagalegum skjölum sem vefmiðlarnir Page Six og TMZ hafa greint frá kom í ljós að Blackstock hafði hegðað sér með ólögmætum hætti þegar hann bókaði tónleika og gerði samninga fyrir þáverandi eiginkonu sína, Clarkson, hvað varðar sjónvarpsþættina The Voice, Norwegian Cruise Lines, Wayfair og Billboard Music Awards.
Vinnumálastjórinn tekur fram að einungis hæfileikaumboðsmenn, ekki stjórnendur, geti tryggt viðskiptavinum sínum atvinnu, með nokkrum undantekningum. Blackstock skuldar Clarkson 1.983.155,70 dala fyrir þjálfarahlutverk hennar í The Voice, 208.125 dala fyrir samstarfið við Norwegian Cruise Lines, 450.000 dala fyrir samstarfið við Wayfair og 93.30 dala eftir að hún var kynnir á Billboard tónlistarhátíðinni í þrígang. Clarkson óskaði jafnframt eftir að upplýst yrði hvaða prósentu Blackstock hefði fengið fyrir að landa Clarkson spjallþætti hennar, The Kelly Clarkson Show, en vinnumálastjórinn úrskurðaði að Blackstock ætti að halda þeim umboðslaunum.
Clarkson sótti um skilnað frá Blackstock í júní 2020 eftir tæplega sjö ára hjónaband. Eftir harðvítuga forræðisbaráttu yfir níu ára gamalli dóttur þeirra, River Rose, sjö ára syni þeirra, Remington „Remy“ Alexander, og sameiginlegum búgarði þeirra í Montana, samþykktu fyrrverandi hjónin loks skilnað sinn í mars 2022. Clarkson fékk forræði yfir börnum þeirra og fékk að halda búgarðinum. Stuttu eftir að skilnaðurinn var frágenginn flutti Clarkson með börnin til New York, og sagði hún flutninginn hjálpa henni að koma undir sig fótunum.
„Ég held að COVID hafi sýnt fram á að samband okkar var ekki að virka,“ útskýrði hún í júní þegar hún yfirgaf bæði Los Angeles og Blackstock.
Eftir að plata hennar Chemistry kom út sagði Clarkson aðdáendum sínum að hún væri búin að setja hugmyndina um stefnumót á ís. „Á ég kærasta? Nei! Og er ekki að leita. Og veistu af hverju? Ég elska að vera einhleyp,“ deildi hún með Instagram fylgjendum sínum í september.
„Ég á tvö börn, tvo hunda, þrjár kanínur, hamstur, er í nokkrum störfum, það er nóg að gera,“ útskýrði hún og sagði að það væri erfitt að byrja upp á nýtt þegar maður hafði hugsað sér að verja restinni af ævinni með ákveðnum aðila, sem hefði síðan ekki gengið upp.“