Mosfellingur ársins 2023 er skemmtikrafturinn og höfundurinn Halldór Laxness Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA.
Dóri er annar tveggja höfunda sjónvarpsþáttaraðarinnar Afturelding sem sýnd var á RÚV á síðasta ári og fékk frábærar viðtökur. Serían hefur verið sýnd víðsvegar á Norðurlöndunum og var m.a. valin besta norræna sjónvarpssería ársins í Svíþjóð.
„Ég er djúpt snortinn, þetta eru fyrstu verðlaunin sem ég vinn á ævi minni og að þau komi úr þessari átt er þeim mun sætara,“ segir Dóri en samningar um aðra þáttaröð af Aftureldingarþáttunum hafa þegar verið undirritaðir.
Mosfellingur greindi fyrst frá.
Hertaka bæjarfélagið aftur í vor
Árið hefur verið stórt hjá Dóra því auk Aftureldingarþáttanna er hann einn aðalhöfundur kvikmyndarinnar Northern Comfort sem frumsýnd var í september en sýningarréttur hefur verið seldur til fjölmargra landa. Uppistandssýningin Dóri DNA, Engar takmarkanir, var sýnd um allt land og m.a. fyrir fullu húsi í Hlégarði.
Nýir Aftureldingarþættir eru í bígerð og Dóri segir að farið verði dýpra í bæjarlífið og hleypt smá pólitík inn í þetta og skemmtilegum karakterum.
Við skilum handriti í vor og ef allt gengur að óskum þá hertökum við bæjarfélagið aftur næsta vor. Það eru margar hugmyndir í gangi. Mögulega verður einn leikmaður liðsins farinn að leita út í atvinnumennsku og okkur langar að sýna hvernig atriði eins og lóðarifrildi í bæjarstjórn getur haft áhrif eða afleiðingar í handboltanum hjá 3. flokki.
Mosfellsbær gaf mér rödd
Það er mér gríðalegur heiður að hljóta þennan titil, er alltaf sendiherra Mosfellsbæjar hvar sem ég er í heiminum. Mosfellsbær hefur breyst mikið frá því ég ólst hér upp en í allri minni sköpun leita ég í upprunann, yfirleitt er ég að lýsa Mosfellsbæ æsku minnar.
Ég veit að þetta hljómar kannski lúðalega en Mosfellsbær gaf mér rödd, gaf mér afstöðu til að sjá hlutina í ákveðnu ljósi og þetta er það eina sem ég á sem listamaður,“ segir Dóri að lokum.