Leikarinn Jason Sudeikis var mættur ásamt fleiri stórstjörnum Hollywood á Golden Globes verðlaunahátíðina í gær. Sudeikis var tilnefndur til verðlauna sem besti leikarinn í gaman- eða söngleikjaþáttaröð fyrir hlutverk hans í Ted Lasso, þættirnir voru tilnefndir sem bestu þættirnir í flokki gaman- og söngleikjaþáttaraða og Hannah Waddington sem besta leikkona í aukahlutverki í sama flokki. Þættirnir hlutu þó engin verðlaun.
Fataval leikarans vakti mikla furðu og hneykslun meðal áhorfenda og hafa margir haft leikarann að háði og spotti fyrir útganginn. Stjörnurnar mæta flestar í sínu fínasta pússi og velja margar þeirra hönnun frá virtustu og dýrustu tískuhönnuðum heims, og oft tekur undirbúningur kvöldsins langan tíma.
Sudeikis hafði ekki mikið fyrir dressinu og mætti í stuttermabol og strigaskóm. „Jason Sudeikis var bókstaflega í matvörubúðinni og mætti svo á Golden Globes í leiðinni,“ sagði einn í færslu á X. Margir höfðu orð á því að fyrrverandi eiginmaður leikkonunnar Olivia Wilde væri klæddur „eins og enskukennari í 9. bekk“.
Einn grínaðist með það á X að Sudeikis, sem skildi við Wilde árið 2020, væri „örugglega einhleypur, því engin kona myndi leyfa honum að fara á Golden Globes klæddur svona.“
Sumir bentu þó á að með fatavali sínu væri Sudeikis að gagnrýna gildi verðlaunahátíðarinnar, en Golden Globes hafa lengi setið undir gagnrýni fyrir ýmsar sakir, meðal annars grófa kvenfyrirlitningu og að innan samtakanns sé enginn þeldökkur einstaklingur. Árið 2021 greindi Hollywood Foreign Press Association sem stendur að verðlaunahátíðinni frá því að þeir hygðust taka gagnrýnina til greina, girða sig í brók og gera betur.