Kennarastofan, glæný íslensk þáttaröð í Sjónvarpi Símans, hefur slegið nýtt áhorfsmet yfir áhorf á fyrsta þátt á einum sólahring. Fyrra áhorfsmetið áttu fimmmenningarnir í IceGuys.
Kennarastofan fjallar um líf grunnskólastýru með áráttu- og þráhyggjuröskun, leikin af Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur, sem umturnast þegar hömlulaus tónlistarkennari, leikinn af Sverri Þór Sverrissyni (Sveppa) mætir til starfa. Þáttaröðin er rómantísk gamansaga sem fjallar um ástir og örlög kennara.
„Við erum að sjá ótrúlegan vöxt í áhorfi hjá okkur, íslensk kvikmyndaframleiðsla er eitthvað sem okkar áskrifendur vilja. Kennarastofan er fjórða leikna íslenska þáttaröðin sem Síminn frumsýnir á fjórum mánuðum og byrjar hún árið með hvelli. Þetta eru ótrúlegar áhorfstölur og ég er alveg ævintýralega stoltur að sjá þessi verkefni taka á flug,“ segir Birkir Ágústsson dagskrárstjóri innlendrar dagskrárgerðar hjá Símanum.
Framleiðsla þáttanna er á höndum fyrirtækisins Kontent, en Kennarastofan er fyrsta þáttaröðin sem kemur frá hópnum. Á bak við Kontent eru Guðný Guðjónsdóttir, Jón Gunnar Geirdal, Kristófer Dignus og Sara Djeddou Baldursdóttir.