Fyrsti þáttakandinn í Golden Bachelor, sjónvarpsþáttum ABC, Gerry Turner, 72 ára, gifti sig í gærkvöldi í beinni útsendingu á ABC.
Sú heppna, Theresa Nist, 70 ára, var ein rúmlega tuttugu vonbiðla á aldrinum 60 – 75 ára, sem reyndu að heilla hug og hjarta Turner. Valið stóð að lokum á milli tveggja kvenna: Leslie Fhima, 64 ára, fitnesskennara og dansara frá Minnesota og Theresa Nist, 70 ára, fjármálaráðgjafa frá New Jersey.
Sonur Nist, Tommy, fylgdi henni að altarinu, en brúðkaupið var tekið upp á hinu glæsilega hóteli La Quinta Resort & Club.
Smá kjólaslys varð við athöfnina þegar einn hlýra brúðarkjólsins, hannaður af hönnuðinum Badgley Mishka, gaf sig, en Nist virtist ekkert taka eftir því þegar hún fór með heiti sín. Hjónin skiptust á giftingarhringum frá skartgripasalanum Neil Lane, en Turner hitti skartgripasalann fræga og valdi hönnun hringana og allt var það auðvitað tekið upp og sýnt í útsendingunni í gær. Æfingakvöldverðurinn fór síðan fram á miðvikudagskvöld.
Susan Knowles, sem var ein kvennanna sem keppti um hylli Turner, gaf hjónin saman, en hún starfar sem athafnastjóri í heimabæ sínum í Pennsylvaníu. Annar keppandi, Kathy Swartz var svo kynnir á Gyllta dreglinum. Verður það að teljast skemmtilegt þar sem Knowles og Nist voru oft ekki á góðum nótum í þáttunum og sagði Knowles Nist ítrekað að „zip it„ eða loka túlanum þegar henni fannst Nist of opinská með einkasamskipti og samtöl hennar og Gyllta piparsveinsins.
Fleiri þátttakendur úr Golden Bachelor voru viðstaddar brúðkaupið, þar á meðal Leslie Fhima sem var önnur þeirra sem keppti um hylli piparsveinsins í lokaþættinum. Fyrsta piparsveinkan (e. Bachelorette) Trista Sutter og eiginmaður hennar, Ryan Sutter, fyrrum Piparsveinn (e. Bachelor) Ben Higgins og Piparsveinn í Paradís (e. Bachelor in Paradise) barþjónninn Wells Adams voru einnig viðstödd. Fyrrum keppandi í Bachelor in Paradise, Brayden Bowers notaði meira að segja tækifærið og fór á skeljarnar og bað Christinu Mandrell fyrir útsendingu. Eitthvað sem ætti að vera bannað með lögum, að stela þrumunni frá brúðhjónum dagsins, en Turner og Nist munu hafa lagt blessun sína fyrir bónorðinu. Allt fyrir áhorfið í beinni!