Það eru ekki margir sem eiga sér jafn undarlega forsögu og Marina Chapman en saga hennar er hreint ótrúleg.
Hún man ekki mikið frá bernsku sinni í smábæ í Kólumbíu. Það eina sem hún man er dagurinn örlagaríki þegar hún var aðeins fjögurra ára gömul. Þá komu tveir menn, gripu hana, hentu inn í bíl og óku með hana burt.
Ekki liggur fyrir hvað vakti fyrir mönnunum en áður en Marina vissi af var henni fleygt út úr bílnum í miðjum frumskóg, og mennirnir skildu hana þar eftir.
Henni varð til bjargar að apar í skóginum sáu auman á litlu stúlkunni og ákváðu að ala hana upp sem hluta af hópnum.
Marina skrifaði árið 2013 bókina The Girl With No Name. Þar kemur fram að það hafi verið árið 1954 sem henni var rænt, en á þessum tíma voru mannræningjar sem stunduðu mansal á börnum umsvifamiklir í Kólumbíu.
„Ég sá hönd grípa um munn minn – svört hönd með hvítan vasaklút. Þá skildi ég að þessir tveir menn ætluðu að nema mig á brott.“
Hún endaði svo ein í skóginum en þá heyrði hún í öpunum í trjánum.
„Sá sem kom fyrstur tli mín staðir á mig. Og hann ákvað að kanna hvort ég væri ógn með fingri sínum, þetta var sterkur lítill api, og hélt bara áfram að pota í mig. Ég þorði ekki að hreyfa mig, ég vildi hvorki hreyfa legg né lið. Svo komu fleiri, þá leið mér betur. Það var eitthvað hughreystandi að upplifa þessa stund, ég bara gleymdi að gráta, þó ég væri enn skelkuð.“
Svo leið tíminn. Marina lærði að lifa með öpunum sem á endanum samþykktu hana sem hluta fjölskyldunnar. Þarna lærði hún að þekkja tiltekin hljóð sem aparnir gáfu frá sér sem og finna mat. Sum hljóð voru þannig að hún þurfti strax að hlaupa í felur, því rándýr var á ferðinni. Síðan var annað hvellt hljóð sem þýddi að matur hefði fundist. Hvert hljóð þýddi eitthvað tiltekið og tók það Marina tíma að læra tungumál apanna.
Fimm árum síðar fundu veiðimenn hana í skóginum, en þá hafði stúlkan gleymt tungumáli manna með öllu. Ekki reyndist þetta þó vera björgun því veiðimennirnir fóru með ungu stúlkuna á næsta hóruhús þar sem þeir seldu hana. Áður en fyrsti kúnninn fékk færi á að brjóta gegn henni stakk hún af. Þar tók við tími þar sem Marina bjó á götunni og var eins konar þræll hjá mafíunni. allt þar til nágranni bjargaði henni og hún flúði til að finna betra líf á Bretlandi.
Það er óhjákvæmilegt að taka það fram að ekki allir trúa sögu Marinu. Fyrir það fyrsta – hvernig vissi hún hvaða ár hún var numin á brott og hversu lengi hún var í skóginum? Það tók hana töluverðan tíma að finna útgefanda sem treysti sér að gefa bók hennar út, og sitt sýnist þó sínum.
Marina segir að eitt sinn í skóginum hafi hún fengið matareitrun. Þá hafi elsti apinn, sem hún kallar afa, dregið hana að gruggugu vatni og látið hana drekka. Þá kastaði hún upp og fór að líða betur.
Því hefur verið velt upp að Marina hafi í raun strax fjögurra ára verið seld í vændi en upplifunin hafi verið svo hræðileg að hún hafi lokað á minningarnar og skáldað í eyðurnar.
Marina segist þó sannfærð. Án apanna hefði hún dáið. Þegar þeir ættleiddu hana lærði hún að vona. Apar séu þó ekki beint elskulegir, en Marina hafði átt erfiða æsku og því var sú litla umhyggja sem hún fékk frá dýrunum meira en hún hafði fengið frá foreldrum sínum.
Raunin sé samt að aparnir hafi ekki beint alið hana upp, enda var hún strax sem fjögurra ára barn stærri en þeir. Hún fékk að leita að fæði með þeim, en þeir gáfu henni ekki að eigin frumkvæði að borða. Lífið í skóginum hafi að mestu snúist um að finna mat, en fyrir utan það hafi hún drepið tíma með því að leika við fugla, pöddur og eðlur. Best var þegar hún fékk að sitja í trjánum með öpunum og þeir snyrtu hana. Þeir hafi verið mjúkhentir og í raun hafi þetta fyrir fyrsta flokks höfuðnudd.
Eftir lífið í skóginum hafi hún svo þurft að læra hvernig menn haga sér upp á nýtt. Einfaldir hlutir eins og að sitja í stól og gæta hreinlætis hafi verið henni framandi.
Hún er þrælfullorðin í dag og á bæði börn og barnabörn. Hún segist enn freistast til að ganga á fjórum fótum, en henni hafi þó tekst að aðlagast samfélaginu, menntað sig sem kokkur og komið sér upp góðu lífi.
„Maður lærir varnarviðbrögð frá dýrunum, sérstaklega þegar maður þarf svo að lifa af á götunni. Þegar kemur að því að verja sig þá veit maður hvernig maður svarar fyrir sig. Þegar ráðist hefur verið á mig þá kýli ég alltaf áður en ég er kýld. Maður verður þrautseigur. Ég tel. mig harða manneskju eftir þetta allt. Hörð af mér. Ég get tekið öll vandamál sem ég mæti og tekist á við þau, því þegar spurningin er hvort maður lifi af eða ekki – þá lærir maður að halda bara áfram.“