Sjónvarpsmaðurinn Andy Cohen varð fyrir barðinu á svikurum, en hann hefur stigið fram með sögu sína til að vera örðum víti til varnaðar.
Hann sagði sögu sína í hlaðvarpinu Daddy Diaries, þar sem hann vildi þó ekki fara í of mikil smáatriði en hann hafi þó orðið fyrir barðinu á svikahrappi sem hafi villt á sér heimildir. Svikarinn sagðist hafa samband frá svikadeild viðskiptabanka Cohens.
„Ég hafði einmitt glatað greiðslukorti og sótt um nýtt, og þá fékk ég tölvupóst þar sem ég var varaður við grunsamlegum færslum á reikningi mínum. Ég hugsaði strax að þetta hlyti að tengjast kortinu sem ég týndi.“
Cohen féll fyrir lygasögunni og fylgdi vefslóð í tölvupóstinum. Þó runnu á hann tvær grímur þegar svikahrappurinn, eða meinti starfsmaður bankans, óskaði eftir aðgangsupplýsingum að Apple-reikningi sjónvarpsmannsins.
„Ég hafði þá þegar skráð mig inn á netbankann. Ég hugsa að með því að hafa gert það í gegnum þessa slóð sem ég fékk senda hafi ég gefið svikurunum aðgang að netbankanum mínum.“
Svikararnir höfðu samband í gegnum síma og tók þá aðeins 10 mínútur að gabba Cohen og fá hann til að fylgja fyrirmælum þeirra.
Cohen segir að svikin hafi þarna orðið mjög sannfærandi. Hann hafi orðið tortrygginn eftir að vera beðin um aðgangsupplýsingar að Apple-reikningnum en þegar þarna var komið við sögu fékk hann símtal sem leit út fyrir að koma raunverulega frá bankanum hans. Þar hafi hann rætt við aðila sem sagðist hringja frá bankanum, þar sem viðvörunarkerfi þeirra hafi sýnt að Cohen hafi verið að lenda í svikurum. Viðmælandinn sannaði á sér deili með því að tilgreina nýjustu færslurnar á reikningi hans.
„Þau nefndu færslur sem ég hafði vissulega borið ábyrgð á, greinilega þarna komnir inn á færsluyfirlitið mitt,“ sagði sjónvarpsmaðurinn og bætti við að þessi „starfsmaður“ hafi látið hann framkvæma ýmsar aðgerðir sem hafi átt að verja hann frá yfirvofandi svikum. Cohen fylgdi fyrirmælunum, óaðvitandi að hann væri í raun að gefa svikurum frjálst aðgengi að innistæðum sínum.
Degi síðar leitaði Cohen til banka síns og þá höfðu svikararnir tekið töluverðar fjárhæðir út af reikningi hans. Hann hafði engar tilkynningar fengið um færslurnar þar sem hluti af svikunum var að láta Cohen stilla áframsendingu skilaboða og símtala á síma sinn. Þar með gátu svikararnir sjálfir staðfest færslurnar.
Hann ráðleggur öðrum að taka öllum símtölum frá meintum bankastarfsmönnum með fyrirvara. Heldur ætti fólk að slíta slíkum símtölum og hringja beint í banka sinn samkvæmt hefðbundnum leiðum.
„Þegar þið fáið tölvupóst, skoðið gaumgæfilega hvaðan pósturinn kemur. Það gæti litið út fyrir að koma frá bankanum, en ef þið smellið á nafnið þá getið þið séð sjálfan tölvupóstinn sem pósturinn kemur frá, á er þetta yfirleitt eitthvað bull netfang.“
Cohen gefur ekki upp hversu miklum peningum svikararnir náðu af honum en segir upphæðina töluverða og hann sé nú að vinna að því að endurheimta peninginn.
Netsvik eru í miklum vexti á alþjóðavísu, og eru sífellt að verða meira og meira sannfærandi. Tilvik Cohen sýnir að svikarar spila jafnvel inn á ótta almennings við svik með því að fyrst reyna að svíkja út pening með augljósum hætti, nógu augljóst til að hringja á viðvörunarbjöllum, og þykjast svo vera riddarinn á hvíta bankahestinum. Þar með séu þolendur plataðir inn í falska öryggiskennd og falli fyrir svikum.
Svikarar geta með auðveldum hætti komið sér upp netföngum svo að póstar virðast koma frá lögmætum stofnunum. Jafnvel hafa þeir gengið svo langt að nota gervigreind til að þykjast vera ástvinir þolenda sinna, allt til að svíkja út peninga.