Leikkonan Angelina Jolie opnar sig í forsíðuviðtali nóvemberblaðs Vogue og segir móðurhlutverkið hafa bjargað sér frá að lenda í djúpum dal eftir skilnað hennar og Brad Pitt árið 2016.
Segir hún að einbeitingin á uppeldi barnanna hafa bjargað henni í gegnum stormasaman skilnaðinn og móðurhlutverkið það sem hefur haldið henni gangandi í gegnum árin.
„Ég var 26 ára þegar ég varð móðir. Allt líf mitt breyttist. Að eignast börn bjargaði mér – og kenndi mér að vera önnur manneskja í þessum heimi,“ segir hún í viðtalinu.
„Nýlega er ég að átta mig á að ég hefði sennilega endað á mun verri stað ef ég hefði ekki haft börnin og viljað lifa fyrir þau. Þau eru betri einstaklingar en ég og maður vill að börnin manns séu það.“
Eins og þeir muna sem fylgjast með fræga fólkinu kynntust Jolie og Pitt við tökur á kvikmyndinni Mr. and Mrs. Smith sem þau fóru með aðalhlutverkin í. Pitt var þá giftur Jennifer Aniston. Myndin kom út árið 2005, sama ár og Pitt skildi við Aniston, og hófu hann og Jolie samband sitt stuttu síðar. Pitt hefur harðneitað því að hann hafi einhvern tíma verið ótrúr Aniston.
Pitt og Jolie urðu fljótt eitt frægasta par Hollywood. Þau giftu sig í ágúst árið 2014 og eiga saman sex börn, Maddox, 22 ára, Pax, 19 ára, Zahara, 18 ára, Shiloh, 17 ára, og tvíburana Vivienne og Knox, 15 ára. Jolie og Pitt tilkynntu um skilnað árið 2016 eftir 12 ára samband.
Jolie segir í viðtalinu að undanfarið hafi henni liðið illa andlega. „Ég er enn að skilja hver ég er, orðin 48 ára. Ég býst við að ég sé á breytingaskeiði sem manneskja, mér finnst ég ekki hafa verið ég sjálf í áratug, á vissan hátt, sem ég vil ekki fara nánar út í.“
Jolie gefur þó í skyn að lífið hafi verið erfitt fyrir alla fjölskylduna undanfarin ár. „Við þurftum að græða sárin og erum enn að finna fótfestu.“
Á forsíðu stillir Jolie sér upp fyrir í hvítum ólarlausum slopp þöktum bleikri spreymálningu og kynnir tískufyrirtæki sitt, Atelier Jolie.
„Ég vil ekki verða stór fatahönnuður, ég vil byggja hús fyrir annað fólk til að verða það. Ég vonast til að breyta mörgum hliðum lífs míns. Og þetta er framhliðin.“
Jolie segist vona að Atelier Jolie hvetji konur til að „finna sig nógu öruggar“ til að vera „mjúkar“, sem hún segist sjálf hafa átt í erfiðleikum með. „Sumir brynja sig með fatnaðinum sem þeir klæðast. Þegar ég gekk í gegnum áföll fékk ég meðferðaraðila til að spyrja hvort ég myndi prófa að klæðast flæðandi flík. Ég veit þetta hljómar kjánalega, en ég gerði ráð fyrir að buxur og stígvél myndu láta mig líta út fyrir að vera harðari, meiri töffari.“
Jolie tekur fram að þá hafi henni ekki fundist hún vera nógu sterk til að vera mjúk eða klæðast fatnaði sem endurspeglar mýktina. „Mér fannst ég viðkvæm,“ rifjar hún upp.
Árið 2016 greindu fréttir frá átökum á milli hjónanna í einkaflugi með börnum þeirra, var
Pitt sakaður um að kæfa og slá son þeirra Maddox. Engar ákærur voru þó lagðar fram gegn Pitt og neitaði hann þessum ásökunum.
Jolie og Pitt hafa farið fyrir dómstóla með ágreining um forræði yfir börnunum, sem og mál vegna víngerðar sem þau stofnuðu saman og er enn í rekstri. Í maí 2021 var þeim úrskurðað sameiginlegt forræði yfir börnunum, en aðeins mánuði síðar var úrskurði dómarans hnekkt. Forræðisdeilan er enn óleyst.