Grínistinn og leikarinn Russel Brand stendur í ströngu þessa daganna eftir að hafa verið ásakaður um kynferðisofbeldi. Hann hefur nú biðlað til aðdáenda sinna um að veita honum fjárhagsaðstoð svo hann geti barist gegn þessum ásökunum.
Biður hann aðdáendur um að gerast áskrifendur á streymisveitunni Rumble, sem er eins konar hliðstæða YouTube en með minni ritskoðun. Áskriftin kostar rúmar 8 þúsund krónur á mánuði. Þessi beiðni grínistans kom aðeins fáeinum klukkustundum eftir að fregnir bárust þess efnis að lögreglan í Lundúnum sé með meint brot Brand til rannsóknar.
Brand neitar sök og segir ekkert hæft í ásökununum. Hér sé í raun á ferðinni samsæri til að þagga niður í honum fyrir að voga sér að gagnrýna fréttaflutning „meginstraumsmiðla“.
„Þið vitið að ég hef verið skrímslavæddur á YouTube. Ég er fullkomlega meðvitaður að stjórnvöld hafa haft samband við streymisveituna til að krefjast þess að ég yrði ritskoðaður enn frekar,“ sagði Brand í myndskeiði á Rumble.
„Alþjóðlegt stríð fjölmiðla gegn tjáningarfrelsinu er hafið af krafti, hvernig veit ég það? Giskið bara. Í dag erum við að sjálfsögðu að tala um atburði síðustu viku, en þá einkum árekstur tæknirisa og stjórnvalda og augljóslega samhæfðar tilraunir rótgróinna fjölmiðla, ásamt hinu opinbera og tæknigeiranum, til að þagga niður í sjálfstæðum miðlum. Það er klárlega erfitt fyrir mig að vera alfarið hlutlaus í þessum aðstæðum í ljósi atburða, en við munum þó leitast við að gæta hlutleysis.“
Fyrir um viku síðan stigu fram fjórar konur sem sögðu grínistann hafa beitt þær kynferðislegu ofbeldi fyrir um áratug síðan. Frá því var svo greint í gær að fleiri konur hafi leitað til bresku lögreglunnar, sem hafi nú ásakanirnar til rannsóknar. Leikarinn hefur sagt að ásakanirnar megi rekja til tímabils þar sem hann var mjög lauslátur, en að allt kynferðislegt samneyti hans við konur hafi verið með upplýstu og gagnkvæmu samþykki. Hann hefur frá því að fyrstu fréttir bárust borið því við að hér sé verið að refsa honum fyrir ganga gegn straumnum í skoðunum sínum og fyrir að vera gagnrýnin í garð fjölmiðla.