Breski stórleikarinn Michael Caine opinberaði það nýlega að hann hefði eytt fjölda ára í að skrifa skáldsögu um flugvél sem hrapaði á skýjakljúf. Eftir árásirnar á tvíburaturnanna í New York 11. september árið 2001 reif hann hins vegar handritið.
Bókin hefði ekki verið sú fyrsta frá Caine en hann hefur áður gefið út þrjár sjálfsævisögur um glæsilegan feril sinn. Hann gaf einnig út tvær staðreyndabækur, Ekki margir vita það! og Og ekki margir vita þetta hvort sem er!, sem vísar til þekktrar setningar hans í kvikmyndinni Educating Rita.
Caine sem er orðinn 90 ára gamall hefur alla tíð verið mikill aðdáandi spennusagna og ákvað því að spreyta sig á að skrifa eigin metsölubók um flugvél sem hrapaði á skýjakljúf í London. Síðan gerðust hryðjuverkin 11. september.
„Þetta er ótrúlegt, ég varð bara svo reiður, ég reif helvítis handritið, ég var svo pirraður af því að ég var búinn að vinna í því að eilífu,“ sagði Caine í viðtali við The Telegraph. Hann náði þó síðar að setjast aftur að skrifum og bókin Deadly Game kemur út í nóvember.
Bókin fjallar um tvo ruslsafnara sem finna plútóníum í ruslinu og dragast síðan inn í undirheima London borgar þar sem rússneskum auðjöfur og eiturlyfjahringur koma við sögu. Caine var 18 mánuði að skrifa bókina og fékk innblástur að henni eftir blaðagrein sem hann las.
„Þegar ég skrifaði um feril minn vissi ég allt um hann. Ef þú ert að skrifa um morð, þá veit ég ekkert um það svo ég þurfti smá hjálp við rannsóknina og skrifin,“ segir Caine sem dregur úr því að um merkilega sé að ræða. „Þetta eru ekki bókmenntir, þetta er spennusaga. Ég er bara ánægður að hún sé að koma út. Það besta við að vera orðinn 90 ára gamall er að enginn býst við að þú gerir mjög mikið og fólk gerir hluti fyrir þig.“