NFL-stjarnan Braxton Berrios komst í klandur á þessu ári þegar hann fann sig í miðjunni á dramatískum ástarþríhyrning. Greint var frá því í mars að hann og kærasta hans til tveggja ára, fyrirsætan Sophia Culpo, hefðu haldið sitt í hvora áttina.
Sophia greindi frá því á Instagram að hún ætti erfitt með að ræða sambandsslitin og hún vildi ekki viðra sinn óhreina þvott opinberlega. Hún hafi verið svikin og óskaði þess að enginn þyrfti að ganga í gegnum það sama og hún. Síðan gaf hún til kynna að Braxton hafi bæði haldið framhjá henni og logið að henni.
Það var svo strax í apríl sem það fór að spyrjast út að Braxton væri farinn að slá sér upp með TikTok-stjörnunni Alix Earle. Næstu vikur sást ítrekað til þeirra verja tíma saman og láta vel hvort að öðru. Þau voru ítrekað beðin um að staðfesta sambandið, en neituðu ávallt og sögðust einhleyp. En eitthvað virtist Sophie óhress því hún kom með óræð skilaboð á TikTok og gaf til kynna að Alix væri næsta fórnarlamb NFL-stjörnunnar og að Sophia yrði til taks þegar hann myndi fara jafn illa með nýju kærustuna og hann hafði farið með Sophiu. Hún eyddi fljótlega myndbandinu.
Nú þurfti Braxton að slökkva elda, þar sem ítrekuð skot frá Sophiu höfðu komið þeim orðrómi af stað að hann hafi verið henni ótrúr. Hann birti því yfirlýsingu á samfélagsmiðlum til að hreinsa nafn sitt.
„Ég vil ekki koma neinu drama af stað. Ég vil ekki kasta olíu á eldinn. Ég vil bara að þetta sé búið og að allir haldi lífinu sínu áfram og geri það sem færir þeim hamingju. Ég var á föstu í tvö ár. Þetta var gott samband, heilbrigt og undir lokin komumst við saman að þeirri niðurstöðu að þetta væri ekki að fara að ganga upp hjá okkur. Svo þegar við hættum saman í janúar, þá var það þannig. Það hafði ekki með neitt annað að gera, og það er í góðu. Ég hef haldið mér saman því það er ólíkt mér að ræða mitt einkalíf opinberlega, en mér fannst ég ekki komast hjá því nú.“
Sophia varð brjáluð og henti í TikTok-myndband til að koma nokkrum hlutum á hreint.
„Svona gerðist þetta raunverulega: Við hættum saman eftir Drake-tónleika yfir ofurskálar-helgina, sömu helgi og hann sást kela við aðra gellu. Ég er ekki bitur, ég veit að þetta er í rauninni það besta sem gat gerst. Ég óska öllum sem koma við sögu í þessu máli hins besta, þar á meðal sjálfri mér, en það er einmitt þess vegna sem ég kom hingað til að deila sannleikanum svo ég geti lokað þessum kafla. Ást.“
Sophia eyddi færslunni síðar út, en ekki áður en fréttamiðlar náðu skjáskoti. Með myndbandinu deildi hún skilaboðum sem hún sendi Braxton sem sýndu að þau væru enn saman þegar hann fór að slá sér upp með Alix, eða með öðrum orðum að íþróttamaðurinn hefði vissulega verið henni ótrúr.
Nú greinir Sophia frá því hvernig hún stóð sinn fyrrverandi að verki. Hún hafi heyrt það frá eldri systur sinni að orðið á götunni væri að Braxton væri að halda framhjá. Þetta hafi verið mikið áfall. Hún spurði Braxton hvort þetta væri rétt, en hann neitaði öllu. Hún heyrði þó á rödd hans að þarna væri eitthvað gruggugt á ferðinni. Hún hafi því fengið ónefndan aðila til að njósna um ruðningsmanninn. Sá greindi Sophiu frá því að í búningsklefanum hafi Braxton játað að hann væri ótrúr, en þetta átti sér stað á tíma þar sem sést hafði til Braxton og Alix saman. Hún sagðist ekki bera kala til TikTok-stjörnunnar, enda hafi hún verið laus og liðug. Það hafi verið Braxton sem sveik hana og mögulega hafi Alix ekki einu sinni vitað að hann væri á föstu.
Alix hefur gengist við því að hafa slegið sér upp með íþróttamanninum, en segir enga alvöru í sambandinu. Hún og Sophia hafa nú rætt saman og ákveðið að þetta drama eigi ekki að snúast um meint stríð þeirra á milli, enda hafi þær ekkert af sér gert.