Bandaríski leikarinn Angus Cloud lést þann 31. júlí síðastliðinn, aðeins 25 ára að aldri.
Dánardómstjóri Alameda-sýslu opinberaði dánarorsök hans í gær. Cloud lést eftir að hafa „óvart tekið of stóran skammt“ eiturlyfja.
Dánarorsök hans var „bráð eitrun“ vegna „samsettra áhrifa metaamfetamíns, kókaíns, fentanýls og benzódíazepína.“ CNN greinir frá.
Cloud skaust upp á stjörnuhimininn í vinsælu HBO-þáttunum Euphoria.
Hann fór með hlutverk eiturlyfjasalans Fez O‘Neill og sló í gegn meðal áhorfenda. Þetta var fyrsta hlutverkið á ferli hans.
Fjölskylda Cloud gaf út tilkynningu á sínum tíma um að hann hafði átt mjög erfitt eftir að faðir hans dó, en leikarinn fylgdi föður sínum til grafar viku áður en hann lést.